Fyrsti dagur blaðamannafunda

Blaðamannahöllin í Lissabon

Það er þétt dagskrá hjá þátttakendum í dag. Dagurinn hjá keppendum hófst á hálftíma inneyra æfingum baksviðs. Þá halda keppendur upp á stóra sviðið þar sem þeir fá æfingu í hálfa klukkustund með útsendingarteyminu. Eftir sviðsæfinguna fá keppendur að sjá atriðið sitt á tuttugu mínútu löngum fundi í áhorfsherberginu. Að honum loknum er fundur með smink ráðgjöfum. Samfélagsmiðlar Eurovision eiga svo stefnumót með keppendum í 35 mínútur og í lokin er svo blaðamannafundur í tuttugu mínútur þar sem blaðamenn fá að kynnast keppendum nánar.

Í þessum pistli munum við fara yfir það helsta frá blaðamannafundinum. Pistillinn verður uppfærður eftir því sem líður á daginn.

Aserbaísjan

Aisel telur Eurovision frábært tækifæri fyrir sig. Það er mikil pressa á henni þar sem Aserar hafa alltaf komist í úrslit. Hún hefur frábært teymi á bakvið sig sem hafa staðið á bakvið lögin You are the only one, Shady lady og Running scared. Af lögunum sem keppa í ár elskar hún Austurríki og Móldóvu. Aðspurð segist Aisel vera að hugsa um ákveðna persónu þegar hún syngur byrjunina á laginu en vill ekki gefa það upp hver sú persóna er („I can hear you when I wake, I can see you when I dream…“). Aisel er mikill dýravinur og hefur síðast liðin ár hjálpað dýrum að komast í öruggt skjól.

Ísland

Ara leið vel á sviðinu á fyrstu æfingu. Hann segist hafa áttað sig á því þegar hann stóð á sviðinu hvað þetta er ótrúlega stórt. Þórunn samdi lagið áður en hún fann söngvara og vissi að hún þyrfti að finna söngvara sem hefði röddina til að taka lagið og fékk Ara til verksins. Ari hefur eignast marga vini á ferðalagi sínu um Evrópu og segir að samkeppendur sínir séu eins og skólafélagar á ferðalagi. Þau voru spurð um búningana og hvað þeir þýddu. Rauði liturinn er vísun í íslenska hraunið og hvíti liturinn er fyrir ís. Ari er tilfinningamikill og er óhræddur við að sýna tilfinningar sínar sem hefur vakið athygli fjölmiðla víða um heim. Ef hann þarf að gráta, grætur hann og ef hann langar að hlæja, hlær hann. Ari og Þórunn kenndu blaðamönnum sérstaka öndunartækni sem þau nota áður en þau fara á svið. Í lokin tók íslenski hópurinn syrpu af Eurovision lögum. Syrpan verður aðgengileg á FÁSES – OGAE Iceland á Facebook. Lögin sem þau tóku voru My number one, Coming home, Never ever let you go og Heroes.

Albanía

Albanir þurftu að stytta lagið til að það yrði einungis 3 mínútur eins og reglur keppninnar kveða á um. Það var erfitt verk fyrir Eugent að ákveða hvaða kafla átti að taka út. En þeir eru ánægðir með lagið eftir breytingarnar. Það hefur lengi verið draumur Eugene að vinna undankeppnina heima í Albaníu Festivali i Këngës 56. Hann trúði því varla að hann hafi unnið þegar hann heyrði nafnið sitt þegar hann vann FIK. Eugene er með húðflúr á líkamanum með uppáhalds tónlistarmönnunum sínum.

Belgía

Hin belgíska Sennek flytur lagið sitt A matter of time. Lagið er mjög í anda James Bond mynda. Aðspurð segir hún Pierce Brosnan vera hinn eina sanna James Bond fyrir sér. Það er mjög mikilvægt fyrir hana að vera trú sjálfri sér og hún vildi hafa lagið í sínum anda en ekki týpískt Eurovision lag. Sennek vill hafa sviðið einfalt og er ekki með nein IKEA húsgögn með sér á sviðinu (SVEKK!). Belgía hefur gert það gott síðastliðin ár í Eurovision. Hún segist finna fyrir góðri pressu og langar að gera vel til að Belgar geti verið stoltir af sér. Sennek heitir Laura Groeseneken en vegna þess að það er svo erfitt að bera fram nafnið ákvað hún að kalla sig Sennek. Sennek á afmæli á morgun og ætlar að njóta dagsins með sendinefndinni sinni í rauðvínssmökkun. Sennek náði að taka fimm rennsli á atriðinu sem er meira en aðrir hafa náð í dag. Þau ætla að breyta lýsingunni í atriðinu áður en þau keppa.

Tékkland

Mikolas Josef gat því miður ekki verið viðstaddur vegna þess að hann meiddi sig á æfingu og var sendur á spítala til að ganga úr skugga um að allt sé í lagi. Hann kom þess vegna ekki fram á blaðamannafundinum. Sendinefndin frá Tékklandi er nýkomin til Lissabon eftir að hafa ferðast frá því eldsnemma í morgun og telja þeir að Mikolas sé ekki í sínu besta formi eftir ferðalagið. Hann þurfi að hvíla sig núna og komi sterkur til baka á næstu æfingu. Tékkneska sendinefndin er spennt yfir því að vera í uppáhaldi hjá aðdáendum eftir að hafa ekki gengið mjög vel síðastliðin ár. Mikolas er mjög efnilegur tónlistarmaður sem samdi lagið og textann sjálfur og er með fingurna í öllu sem viðkemur laginu. Sendinefndin segir enga ástæðu til að hafa áhyggjur af því að grípa þurfi til plans B ef Mikolas getur ekki flutt lagið sjálfur því hann muni ná sér fyrir næstu æfingu.

Litháen

Það felldu margir blaðamenn tár í blaðamannahöllinni í dag þegar Ieva flutti lagið sitt á æfingunni. Atriðið hreyfir virkilega við áhorfendum. Aðspurð segir hún að boðskapur lagsins sé að maður eigi ekki að fara í gegnum lífið einn heldur að njóta þess með öðrum. Eiginmaður Ievu var með henni á sviðinu og hún segist tárast í hvert skipti sem hann kemur inn á sviðið til hennar. Þegar Ieva heyrði lagið fyrst bráðnaði hún og var viss um að hún myndi vilja flytja lagið. Ieva var svo heppin að fá að syngja með Dima Bilan í The Voice of Lithuania. Ieva er mjög feimin að eðlisfari en bætir við að það hjálpi sér mikið. Hún er alltaf með sviðsskrekk áður en hún fer á svið, en hún biður og hugleiðir áður en hún fer á svið. Litháen er tilbúið að vinna Eurovision og yrði ánægt að bjóða Evrópu velkomna í heimsókn. Í atriðinu birtast myndir af fólki á sviðinu með henni, þar má meðal annars sjá foreldra hennar. Í tilefni af 100 ára afmæli Litháens í ár finnst Ievu það við hæfi að gefa Litháum fjórar setningar á litháensku að gjöf.

Ísrael

Uppáhalds ísraelska lagið hennar Nettu er A-Ba-Ni-Bi. Netta vonar að kettirnir sem eru með henni á sviðinu færi henni lukku. Netta er stolt af því að vera í uppáhaldi hjá aðdáendum. Hún segir að það sé gott að manneskja eins og hún sem ekki uppfyllir úrelta staðla um útlit skuli ná svona langt. Hún tengir það við breytingar sem hafa átt sér stað í heimalandinu sínu og í heiminum á síðustu mánuðum og á við byltingar á borð við MeToo og fleiri. Nettu líkar athyglin vel. Henni finnst gaman að dansa en segist ekki vera góð í að fylgja dansrútínum annarra. Hún nýtur þess að dansa á sinn eigin hátt. Netta segir að hún sé ekki hjátrúafull, en margir í sendinefndinni hennar séu það. Hún segist gera sér grein fyrir því að til að ná árangri þurfi hún að vinna hart að sér og sofa vel.

Hvíta-Rússland

Rússneska útgáfan og enska útgáfan af laginu Forever hafa ekki sömu merkingu en Aleksev nýtur þess að flytja báðar útgáfurnar. Aleksev er með háskólapróf í markaðsfræði og segir það hafa hjálpað sér að koma sér á framfæri í tónlistinni. Markaðsfræðin var plan B hjá honum en tónlistin á hug hans allan. Aleksev bjó um tíma þegar hann var yngri á Spáni og talaði spænsku en segist hafa gleymt henni allri. Rósirnar sem Aleksev er með á sviðinu eru tákn fyrir ástina og hvernig ástin getur stundum sært. Aleksev var í sambandi með stelpu fyrir nokkrum árum en þau hættu saman eftir að hún bað hann um að velja á milli tónlistarinnar og sambandsins milli þeirra. Aleksev er frá Úkraínu en keppir fyrir Hvíta-Rússland. Hann nýtur stuðnings forseta Hvíta-Rússlands, Alexander Lukashenko.

Eistland

Þegar Elina var 13 ára sagði mamma hennar við hana að hún þyrfti að velja sér markmið í lífinu. Hún gat ekki sofið í nokkra daga á eftir þangað til hún fór að sjá óperu. Á óperunni ákvað hún að verða óperusöngkona. Þegar hún var yngri langaði hana samt að verða geimfari. Elina hefur mikinn áhuga á Disney prinsessum og hennar uppáhald er Pocahontas. Lagið hennar La forza er sambland af óperu og raftónlist og í sama anda er kjóllinn samblanda af kjóli sem óperusöngkona myndi klæðast á sviði með rafmagnsljósum. Eins og íþróttamennirnir hugsar Elina vel um sig áður en hún kemur fram. Hún hefur gaman af tungumálum og talar eistnesku, rússnesku, ensku, ítölsku, frönsku, þýsku og japönsku – og er búin að vera að læra portúgölsku á DuoLingo.

Búlgaría

Búlgaríu hefur gengið gríðarlega vel í Eurovision síðustu tvö ár með Poli Genovu og Kristian Kostov. Lagið sem EQUINOX flytur í ár hentar mjög vel fyrir fimm flytjendur að þeirra mati. Besta ráðið sem EQUINOX fékk fyrir keppnina var að hafa gaman og njóta upplifunarinnar. EQUINOX eru viss um að þau muni halda áfram eftir að keppninni er lokið þrátt fyrir að hafa verið sett saman sérstaklega fyrir keppnina. Hljómsveitin er af ólíkum uppruna og nafnið kemur af því að allir eru jafnir þrátt fyrir uppruna sinn. Georgi Simanov hefur skipulagt marga styrktartónleika í gegnum tíðina. Til dæmis til styrktar börnum með sykursýki og krabbamein. Peningunum sem safnað var hafa gert börnunum kleift að halda gleðileg jól.