Spurt & svarað

Hvernig eru FÁSES félagsskírteinin?

 • Þeir sem ganga í FÁSES fá aðgang að félagsskírteina appi, Cardskipper, sem er hið alþjóðlega félagsskírteini Eurovision aðdáendaklúbba, og er það jafnframt félagsskírteini FÁSES.
 • Á hverju ári er appið uppfært sem gefur til kynna að félagsaðild FÁSES félaga hafi verið endurnýjuð.

Hvað kostar að vera félagi í FÁSES?

 • Félagsgjöld FÁSES eru 2.500 kr. á ári.
 • Innifalið í félagsgjaldi er félagsskírteini, forkaupsréttur á miðum á Eurovision og Söngvakeppnina, réttur til setu á félagsfundum og forgangur á viðburði sem haldnir eru á vegum félagsins.
 • Greiði félagi ekki félagsgjöld endurnýjast ekki félagsskírteini hans. Hafi félagi ekki greitt félagsgjöld í tvö ár missir hann félagsnúmerið sitt og er talið að hann sé ekki lengur meðlimur í félaginu. Vilji fyrrum félagi ganga aftur í FÁSES fær hann nýtt félagsnúmer úhlutað.

Hvernig redda ég mér miða á Eurovision?

 • Síðasti dagur til að ganga í FÁSES til að geta átt möguleika á kaupum á aðdáendamiðum í Tórínó er 18. október 2021.
 • FÁSES hefur milligöngu um sölu svokallaðra aðdáendapakka til félagsmanna sinna. Aðdáendamiðapakkinn samanstendur oftast af miðum á allar þrjár keppnirnar sem og miða á dómararennsli (alls 6 miðar fyrir hvern félaga). Undanfarin ár hefur einungis verið hægt að kaupa aðdáendapakkann í heild sinni þ.e. alla 6 miðana og hver félagsmaður getur einungis keypt einn aðdáendapakka.
 • FÁSES hefur ekki milligöngu um sölu stakra miða á Eurovision.
 • Undanfarin ár hefur aðdáendapakkinn kostað u.þ.b. 100 þúsund kr. (800 evrur fyrir Rotterdam 2020).
 • Það er mjög misjafnt milli ára hvort boðið sé upp á sæti eða stæði eða hvort tveggja fyrir aðdáendur.
 • FÁSES getur ekki ábyrgst að allir þeir sem óska eftir miðum fái þá í úthlutun þar sem við stjórnum ekki miðadreifingunni og fáum aðeins ákveðinn fjölda frá aðalskrifstofu OGAE. Aðdáendapökkunum er úthlutað á grundvelli félagsnúmera. Því gildir því fyrr sem þú skráðir þig í klúbbinn því betri líkur á að fá úthlutuðum aðdáendapakka.
 • Til þess að eiga möguleika á að fá úthlutuðum forkaupsrétti á miðum á aðalkeppni Eurovision verða félagar að hlaða niður Cardskipper félagsskírteini í snjallsíma eða tölvu.
 • Ef aðdáendamiðapakki hentar ekki æstum Eurovision-aðdáendum eru upplýsingar um almennu miðasöluna á aðalkeppni Eurovision að finna á vef keppninnar.

Hvernig gengur aðdáendamiðasalan fyrir sig?

 • Síðasti dagur til að ganga í FÁSES til að geta átt möguleika á kaupum á aðdáendamiðum í Tórínó er 18. október 2021.
 • Á hverju hausti sendir FÁSES út tölvupóst til félagsmanna sinna og biður þá félaga sem áhuga hafa á aðdáendapakka að gefa sig fram. Á þessu stigi er ekki um bindandi skráningu að ræða heldur einungis könnun hjá OGAE International á því hversu marga pakka hver aðdáendaklúbbur þarf. Eftir þetta skref sendir FÁSES einungis tölvupósta um aðdáendamiðasöluna til þeirra sem hafa lýst yfir áhuga á miðakaupum.
 • Innan nokkurra vikna biður OGAE International FÁSES um að staðfesta hversu margir félagar munu kaupa aðdáendapakka. FÁSES sendir þá póst til þeirra sem lýst höfðu yfir áhuga á kaupum, upplýsir um áætlað verð miðanna og biður þá um að staðfesta aðdáendapakkakaup. Hér er um bindandi skráningu að ræða. Í þessu skrefi þarf FÁSES-meðlimur að gefa upp fullt nafn, netfang, FÁSES félagsnúmer, OGAE félagsnúmer í Cardskippper, upplýsingar um greiðslu félagsgjalda fyrir næsta ár, hvort hann óski eftir sæti vegna sérstakra aðstæðna og hvort hann muni ferðast með öðrum FÁSES-liða og vilji vera staðsettur í höllinni nærri honum (gefa þarf upp FÁSES félagsnúmer þeirra sem maður ferðast með).
 • OGAE International lætur stjórn FÁSES vita hversu marga pakka klúbburinn fær. Stjórnin úthlutar aðdáendapökkum á grundvelli félagsnúmera og sendir þeim félagsmönnum sem fengu úthlutuðum aðdáendapakka miðakóða svo þeir geti fest kaup á miðunum.
 • Ákaflega mikilvægt er í öllu ferlinu að fylgjast mjög vel með tölvupósti. Best er að FÁSES-liðar gefi upp virkt netfang því oft þarf að bregðast við póstum frá FÁSES vegna aðdáendamiðasölu innan fárra klukkustunda.
 • Stranglega bannað er að framselja staka miða eða miðapakkana. OGAE-samtökin áskilja sér rétt til að útiloka þá sem verða uppvísir að slíkri sölu frá því að kaupa miða í framtíðinni.

Er hægt að fá svona pakkadíl – miða, flug og gistingu?

 • FÁSES hefur ekki milligöngu um flug eða gistingu á Eurovision enda er mjög misjafnt hvenær FÁSES meðlimir vilja fara út og fara heim og hversu lengi þeir vilja dvelja í Eurovision-landinu hverju sinni.