Ályktun stjórnar FÁSES um sniðgöngu Eurovision 2024


Stjórn FÁSES samþykkti eftirfarandi ályktun 7. desember sl.:

Nýverið tilkynntu skipuleggjendur Eurovision að 37 þjóðir, þar á meðal Ísrael, myndu taka þátt í Eurovision 2024 í Malmö. Þátttakendalistinn hefur vakið mikla umræðu innan aðdáendasamfélagsins hér heima og erlendis.

Stjórn FÁSES fordæmir öll ofbeldisverk og brot á mannréttindum. Stjórnin vill koma því áleiðis að félagið er ópólitísk samtök Eurovision aðdáenda. Samkvæmt samþykktum FÁSES er félagið vettvangur áhugafólks um Eurovision til að deila áhuga sínum á keppninni í blíðu og stríðu. Tilgangur félagsins er að standa að viðburðum sem tengjast keppninni og gera félögum kleift að deila áhuga sínum á Eurovision. Hlutverk FÁSES er einnig að vera upplýsingaveita um Eurovision á Íslandi og vera tengiliður við alþjóðasamfélag áhugafólks um Eurovision.

Stjórn FÁSES tekur ekki afstöðu til áskorana um sniðgöngu Eurovision 2024. Kjósi RÚV að senda fulltrúa á Eurovision 2024 mun FÁSES, eins og hin fyrri ár, standa þétt að baki íslenska framlaginu. Stjórn FÁSES virðir afstöðu félaga til málsins.

 

Framangreind ályktun er í samræmi við ályktun stjórnar FÁSES frá 20. maí 2018 í tilefni af umræðu um sniðgöngu Eurovision 2019 í kjölfar sigur Ísraels 2018. Sú ályktun var rædd á aðalfundi félagsins haustið 2018, sbr. fundargerð frá 24. október 2018. Að baki þessum ályktunum liggur það sjónarmið að í FÁSES er að finna breiðan hóp fólks með ólíkar skoðanir. 

 

Í tilefni af frétt mbl.is í gær og umræðum á samfélagsmiðlum um að fé­lag­inu hafi þótt eðli­legt að Rúss­landi yrði vísað úr Eurovision í kjöl­far inn­rás­ar­inn­ar í Úkraínu vill stjórnin koma því á framfæri að þáverandi stjórn FÁSES tók ekki formlega afstöðu til málsins með sérstakri ályktun, til þess gafst einfaldlega ekki tími.

 

Félagsfundur í næstu viku

Til að gefa félögum tækifæri á að ræða framangreinda ályktun telur stjórnin rétt að boða til félagsfundar samkvæmt 9. gr. samþykkta FÁSES. Rétt til setu á fundinum hafa félagar sem greitt hafa félagsgjaldið, sbr. 4. gr. samþykkta FÁSES. Stefnt er að því að fundurinn verði haldinn í Reykjavík miðvikudaginn 20. desember nk. kl. 20 en formlegt fundarboð verður sent félögum í tölvupósti í þessari viku.

 

Að lokum vill stjórn FÁSES koma því á framfæri að við kunnum að meta þær ábendingar sem félaginu hafa borist. Málið hefur verið rætt ítarlega innan stjórnar og við höfum skoðað hvernig hægt er að bregðast við innan ramma samþykkta FÁSES. Stjórnin starfar í umboði félaga og þess vegna teljum við mikilvægt að ræða málin á sérstökum fundi.

 

Stjórn FÁSES