Ályktun FÁSES: RÚV hvatt til að sniðganga Eurovision 2024


Í ljósi umræðu síðustu daga um sniðgöngu Eurovision var ákveðið að boða til félagsfundar FÁSES 20. desember 2023. Niðurstaða fundarins, sem borin var undir alla félaga í sérstakri atkvæðagreiðslu, er sú að FÁSES skorar á RÚV að senda ekki fulltrúa í Eurovision 2024 nema Ísrael taki ekki þátt í keppninni.

 

Ályktun félagsfundar FÁSES 20.12.2023 sem samþykkt var í allsherjaratkvæðagreiðslu:

“Nýverið tilkynntu skipuleggjendur Eurovision að 37 þjóðir, þar á meðal Ísrael, myndu taka þátt í Eurovision 2024 í Malmö. Þátttakendalistinn hefur vakið mikla umræðu innan aðdáendasamfélagsins hér heima og erlendis í ljósi mannréttindabrota Ísraels á palestínsku þjóðinni sem hafa kostað fjölda saklausra borgara lífið.

FÁSES, Félag áhugafólks um Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, fordæmir öll ofbeldisverk og brot á mannréttindum. Ógerlegt er að hafa gildi Eurovision um alþjóðleg samskipti, skilning og sameiningu fólks í hávegum undir þessum kringumstæðum. FÁSES skorar því á RÚV að senda hvorki sigurvegara Söngvakeppninnar né annan fulltrúa til þátttöku í Eurovision 2024 nema Ísrael taki ekki þátt í keppninni.”

 

Atkvæðagreiðslan var framkvæmd dagana 21.-23. desember í samstarfi við Outcome kannanir ehf. Í FÁSES eru 530 félagar og tóku 238 þeirra þátt í atkvæðagreiðslunni sem er 45% svarhlutfall. Alls studdu 169 félagar ályktunina, 55 voru á móti og 14 sátu hjá.

Stjórn FÁSES mun koma ályktuninni á framfæri við útvarpsstjóra RÚV.