Endastopp – Seinustu þrjú löndin heimsótt.


„Tíminn líður hratt á gervihnattaöld” eins og skáldið sagði um árið og nú er það seinasti yfirferðarpistill ársins 2018. Þetta er að skella á og PED-ið verður mætt á svæðið áður en við vitum af. Veit ekki hversu jákvætt það er, samt.. En jæja. Klárum dæmið!

Ástralía – We got love – Jessica Mauboy.

G´day mate! (oj, ömurlega þreyttur brandari!) Það er elsku Ástralía sem hefur leikinn í pistli dagsins. Ástralir eru að mæta á svæðið í 4. skipti og hafa, síðan Eurovision var fyrst sjónvarpað til álfunnar í byrjun 9. áratugarins, haft gríðarlegan áhuga á keppninni og átt fulltrúa öðru hvoru fyrir önnur lönd, eins og til dæmis Oliviu Newton-John, Ginu G og eiga jafnvel smávegis í írska Eurovision kónginum Johnny Logan. Þeir elska Eurovision og hafa viljað vera með síðan Guð má vita hvenær.

Draumur Ástrala rættist loksins árið 2015, þegar þeir fengu að vera með sem gestir, í tilefni af 60 ára afmæli keppninnar. En viti menn. Ástralir eru auðvitað bara svo sjúklega dásamlegir að þeir fengu bara að vera með áfram. Fullkomlega réttlætanlegt, enda eru þeir bæði meðlimir í EBU og ennþá undir stjórn Englandsdrottningar. Svo ekki sé minnst á fölskvalausa ást þeirra á keppninni! Veri þeir ávallt með oss, segi ég. Áströlum hefur alltaf gengið vel á sinni stuttu Eurovision göngu. Þeir mættu hressir til Vínar, með brimbrettabeibið Guy Sebastian, og náðu inn á topp tíu. Dami Im negldi niður annað sætið í Stokkhólmi og þrátt fyrir smáááááá falsettu á röngum stað í laginu og fá stig úr símakosningunni, náði ljúflingurinn með hvolpaaugun, hann Isaiah Firebrace, líka inn á topp tíu í fyrra.

Nú er það ein vinsælasta söngkona Ástrala sem fær að spreyta sig. Hún heitir Jessica Mauboy, og er nú ekki alveg ókunnug keppninni. Í Kaupmannahöfn árið 2014 var Áströlum boðið að koma og vera með sérstakt skemmtiatriði í nokkurskonar þakklætisskyni fyrir ást þeirra og aðdáun í gegnum árin. Jessica var einmitt flytjandi þess skemmtiatriðis, lags sem nefndist „Sea of Flags“ og táknaði að sjálfsögðu þetta sameiningartákn sem Eurovision er. Boðskapur „We got love“ er lítið frábrugðin, því texti lagsins hvetur í stuttu máli sagt til meiri ástar og minna haturs. Þetta er fjári dansvænt lag og Jessica er algjör sjarmabolti. Hvort henni tekst að viðhalda topp tíu velgengni Ástrala, er erfitt að segja til um. Hún keppir í seinni undanriðli sem talinn er vera mun erfiðari og hreinlega ómögulegt að segja til um úrslit þann 10. maí. En þar sem öllum þykir svo vænt um Ástralíu, skulum við bara krossa putta fyrir hana.

Írland – Together – Ryan O´Shaughnessy

Sko, mér dettur ekki í hug að fara að tíunda sögu Íra í keppninni! Við kunnum hana öll. Sjö sigrar, þar af tveir og hálfur af hendi sama mannsins! Geri aðrir betur! Já, ókei, Svíum DREYMIR um að gera betur en allavega. Írum hefur hreint út sagt gengið HÖRMULEGA undanfarin ár. Þeir voru seinast í aðalkeppninni árið 2013 og lentu þá í síðasta sæti, og hafa setið fastir í undankeppninni síðan. Stundum verðskuldað en stundum ekki. Smekksatriði, vissulega (undirrituð er enn að skæla vegna örlaga Brendan Murray í fyrra) en mörgum finnst sko vera komin tími á að Írar endurheimti sína fyrri dýrð á Eurovision sviðinu.

Ryan O´Shaughnessy er 26 ára gamall og borinn og barnfæddur í Dublin. Hann er fyrrum keppandi úr bæði The Voice Ireland og Britains Got Talent, og kemur oftar en ekki fram með gítarinn í hönd. Einnig er hann skrambi liðtækur leikari og lék meðal annars risastórt hlutverk í írsku sápuóperunni Fair City í heil níu ár, en hætti þar árið 2010 til þess að einbeita sér að tónlistinni.  Ryan hefur nokkuð netta tengingu við Eurovision. Hann er nefnilega annar ættliðurinn úr hinni hæfileikaríku O´Shaughnessy ættar sem heiðrar Eurovision sviðið með nærveru sinni. Frændi hans Gary keppti nefnilega fyrir hönd landsins í Kaupmannahöfn árið 2001 og gekk eiginlega bara illa. En sá gæi var víst ofurhress og bara hrikalega afslappaður út af öllu saman, og fór einfaldlega yfir til Tanel Padar og félaga frá Eistlandi og fór að djamma og fagna með þeim. Þetta er rétti andinn!

Lag Ryans, „Together“ togar óneitanlega í hjartastrengina, ekki síst fyrir gullfallegt og tilfinningaþrungið myndbandið sem fjallar um samkynhneigt par sem upplifir hæðir og lægðir í ástarsambandinu og virðist vera komið að nokkurskonar endastoppi. Ryan sjálfur, er, líkt og frændi sinn, afskaplega hress tappi. Hann og Ari okkar virðast hafa bundist nokkurs konar bræðraböndum og hafa sést fíflast saman að drengja sið, við ýmis tækifæri. Nú er Ryan sjálfsagt lagður af stað til Lissabon til þess að koma Írlandi loksins upp í aðalkeppnina eftir aðeins of mörg ár í vonbrigðalandi. Gangi honum sem allra best, segi ég nú bara.

Aserbaídsjan – X my heart – Aisel

Enn og aftur eru Aserar mættir með sænsk/gríska lagasmíð. Það hefur ekki verið mikið um það að Aserar komi með lög sem samin eru eingöngu af aserskum tónlistarmönnum, sem er miður, því tónlistarhefð þessa lands sem liggur austast í Evrópu, er stórbrotin og ætti að fá miklu meira pláss á vettvangi eins og Eurovision.

En ókei, svona er þetta og lítið hægt að gera við þessu. Lag þeirra í ár er, eins og svo oft áður, eftir lagahöfundanna Dimitris Kontopolous og Tim Bran, með texta eftir Söndru Bjurman og er flutt af henni Aisel, sem var innbyrðis val aserska sjónvarpsins fyrir keppnina í ár. Röddin í Aisel minnir pínu á Katy Perry og sossum ekki leiðum að líkjast þar! Þetta er dansvænt lag og líklegt til að komast áfram, líkt og fyrri framlög Asera.

Aserar byrjuðu að deita Eurovision árið 2008 með hinu eftirminnilega “Day After Day”. Mjöööög spes dæmi og lentu í 7.sæti það árið! Allir voru rosalega hissa, og velgengni Asera stoppaði ekki þar, því þeir tóku 3.sætið 2009, 8.sætið 2010 og svo unnu þeir bara allt heila klabbið 2011! Það var svo árið 2013, þegar að Farid greyið Mamadov lenti í 2.sæti í Malmö, sem að EBU fékk ábendingu þess efnis að aserska sjónvarpið væri nú kannski ekki alveg að spila mjög heiðarlega. Upp úr kafinu kom að þeir víluðu ekki fyrir sér að senda fólk frá sér hingað og þangað um Evrópu með ógrynni af SIM-kortum og reiðufé með sér, og hreinlega mútuðu almenningi til að kjósa Aserbaídsjan. Þeir voru svo nappaðir í Vilníus í falinni myndavél, þar sem þeir voru í ham að múta einhverjum náunga með slatta af Evrum. Úbbosí! Nú volgnaði undir mönnum, og fólk fór óhjákvæmilega að velta fyrir sér hversu heiðarlega þeir hefðu unnið keppnina á sínum tíma. Mörgum fannst að dæma hefði átt þjóðina úr keppni í eitt ár sem refsingu, en Jon Ola Sand ákvað að gera það ekki. Undarlegt nokk því Rúmenar fengu eins árs straff af því þeir skulduðu pening, en það er greinilega í lagi að svindla? Allt í lagi þá. En það er víst ekki hægt að taka aftur það sem gert er, og það verður seint tekið af þjóðinni að keppnin 2012 var einstaklega flott! En eftir þessa uppgötvun EBU, hefur velgengni Asera heldur dalað og síðan hafa þeir ekki komist inn á topp tíu, þó svo að þeir komist nú alltaf áfram. Hvernig henni Aisel gengur í ár á eftir að koma í ljós en eins og áður sagði er lagið mjög dansvænt og grípandi og Aisel er rosa flott söngkona.

Þá er yfirferð ársins 2018 opinberlega lokið. Flest allir keppendur ættu að vera mættir til Lissabon til að hefja æfingar og eftir tæpar tvær vikur munum við loksins fá að vita hver þeirra tekur flotta hljóðnemann með sér heim. Nú er bara að pakka ofan í tösku (þeir sem fara til Portúgal), eða poppa og panta pizzu (þeir sem horfa á keppnina heima). Þar til næst, gullin mín! ALL ABOARD!