Annar dagur æfinga í Lissabon


Góður söngur var það sem einkenndi fyrsta æfingadaginn í Lissabon í gær (með einungis einni undantekningu, hóst* Hvíta-Rússland *hóst). Þá er annar æfingadagur runninn upp og spenna í mannskapnum. Við uppfærum þessa færslu eftir því sem æfingum vindur fram hér í Altice Arena.

Makedónía – Eye Cue syngur Lost And Found

Mynd: Dimitar Petrovski/Andrijana Kostova Petrovska

Marija mætir á sviðið í bleikum mjög stuttum kjól, það er hreinlega eins og hún hafi týnt bakhluta hans! Bojan spilar á gítar á sviðinu og síðan eru þau með þrjár bakraddir með sér og einn trommara. Bakraddirnar eru klæddar í áhugavert dress með satínskott í anda goðsagnakennda silfurskottsins hennar Helgu Möller 1986. Eigum við ekki bara að orða það þannig að það eru margir keppendur í ár að berjast um Barböru Dex verðlaunin (veitt þeim sem þykir hafa ljótasta sviðsbúninginn). Vandræði voru með hljóð á æfingunni og fengu blaðamenn einungis að sjá síðasta rennsli Eye Cue á æfingunni í dag. Makedónar nota brúna í lok atriðsins og í lok æfingarinnar fengu þeir klapp í blaðamannahöllinni.

Króatía – Franka syngur Crazy

Mynd: Srećko Rundić

Franka mætir á sviðið í galasíðkjól úr svörtum blúndum með stóru pilsi að aftan. Að okkar mati passar hann ekki alveg við lagið. Franka stendur ein á sviðinu og lýsingin er dimm og við fáum smávegis reyk. Þegar líður á verður lýsingin blá og rauð og vindvélin fær að vinna fyrir kaupinu sínu. Lagið er gott en sviðsetning þess er pínulítið gamaldags og í anda Eurovision 1989. Söngurinn er frábær hjá Franka og eftir æfingu fær hún gott klapp hér í blaðamannahöllinni.

Austurríki – Cesár Sampson syngur Nobody But You

Mynd: ORF/Thomas Ramstorfer

Í anda Symphonix-lagahöfundanna, sem eru Eurovision-aðdáendum að góðu kunnir, byrjar atriðið í myrkri og hálflýsingu. Cesár stendur á sviðinu í gráum fötum á háum palli með flotta lýsingu hringinn í kring. Eftir því sem laginu vindur fram lækkar pallurinn og við sjáum aðeins í frábæru bakraddirnar. Cesár stekkur síðan af pallinum og tekur röltið á sviðinu og við fáum flottan reyk og lýsingu bak við. Á einum tímapunkti fáum við langskot og risastóra andlitsmynd af Cesár í bakgrunni. Hér gengur allt upp í glæsilegri sviðsetningu og myndatöku – fréttaritarar FÁSES fengu gæsahúð eftir öllu bakinu maður minn! Söngurinn gekk mjög vel hjá Cesár í dag og greinilegt að atriðið er vel æft og hann fílar sig á sviðinu. Maður saknar samt þess að sjá bakraddirnar á sviðinu og kannski mættu Austurríkismenn huga hér að sviðsetningu í anda “Ég á líf” frá Malmö 2013 þegar bakraddirnar stigu upp á svið í lokin. Það yrði svo sannarlega áhrifamikill endir. Cesár fær brjáluð fagnaðarlæti hér í blaðamannahöllinni eftir æfingu.

Grikkland – Yianna Terzi syngur Oniro Mou

Mynd: Kosmas Koumianos

Yianna stendur ein á sviðinu í hvítum síðkjól með víðum ermum. Ferlega flottur sviðsbúningur og hún sveiflar ermunum til og frá. Lýsingin er gul og breytist síðan í hvítt og blátt með smávegis Sanna Nielsen fíling. Yianna átti í einhverjum vandræðum með sönginn í dag. Það verður að segjast eins og er að ekki er mikið að gerast á sviðinu hjá Grikkjum í ár. Ein kenningin er sú að Yianna muni þurfa að nota allar fimm bakraddirnar í atriðinu og þess vegna hafi dansarinn úr myndbandinu ekki komið með. Þar sem lagið er eingöngu á grísku hefði ekki veitt af einhvers konar túlkun á sviðinu til að hjálpa áhorfendum að tengja við lagið.

Finnland – Saara Aalto syngur Monsters

Mynd: Ville Paasimaa

Saara byrjar atriðið á risastórum palli með stiga og kúlu á toppinum. Svo virðist sem Saara hafi tekið gimmikkið sem hún hafði í laginu Domino í finnsku undankeppninni með sér til Lissabon þar sem hún stillir sér upp við einhvers konar ísjakaprops og snýst í hringi (sem hún festist reyndar í í seinna rennslinu!). Lýsingin er fjólublá og bleik og með Saara á sviðinu eru tveir karlkynsdansarar og tveir kvenkynsdansarar í gráum jakkafötum við svört stígvél (minnir því miður á nasistabúninga). Saara syngur þokkalega vel á æfingunni (með einu undantekningarrennsli) og við fáum fullt fullt af flugeldum, þar á meðal gullfoss (við elskum pýró!). Í lokin fer Saara aftur upp á pallinn og lætur sig detta í arma dansaranna. Það lítur út eins og Finnar séu ekki búnir að ákveða myndatökuskotin og að okkar mati verður að minnka tölvuert þessi endalausu langskot í lok atriðisins.

Armenía – Sevak Khanagyan syngur Qami

Mynd: Robert Koloyan

Sevak stendur einn á sviðinu í grárri síðri peysu (lítur pínulítið út eins og munkakuflur). Í kringum hann eru misháar súlur sem minna á Stonehenge. Lýsingin er hvít og blá og myndavélaskotin eru velheppnuð blanda á milli langskota og nærmynda af Sevak. Sevak var ekki í vandræðum með sönginn en hljómaði samt aðeins brothættur á köflum. Armenar hafa greinilega unnið heimavinnuna sína og við hlökkum til að sjá útkomandi í undankeppninni 8. maí.

Sviss – Zibbz syngur Stones

Mynd: SRF/TOMO Muscionico

Systkinin í Zibbz áttu frábæra æfingu í dag og yfir atriðinu er ákveðinn tónleikablær þar sem Coco kallar til áhorfenda og er almennt með mjög mikla töffarastæla. Stee bróðir hennar er á bak við trommusettið með flotta súlulýsingu í kringum sig og Coco fer upp á brúna við sviðið. Þau eru kædd í svart og Coco meira segja með bert á milli og ber barðastórann bleikan hatt. Söngurinn hjá Coco var góður í dag og almennt var æfingu Sviss vel tekið hér í blaðamannahöllinni.

Írland – Ryan O’Shaughnessy syngur Together

Mynd: RTÉ/Brigita Stankaitytė

Ryan stendur og syngur með gítarinn sinn ásamt einni bakraddasöngkonu sem spilar á píanó. Tveir karlkynsdansarar birtast í rómantískum dansi á sviðsbrúnni sem gefur atriðinu hinsegin blæ. Ljósastaur er á sviðinu og lýsingin er hvít og blá. Í lok lagsins fáum við snjó, bæði “alvöru” snjó og sem on-screen-effect. Söngurinn var ágætur hjá Ryan á æfingunni í dag en falsettan var eilítið veik. Að sjálfsögðu var klappað fyrir þessu snyrtilega atriði hér í blaðamannahöllinni.

Kýpur – Eleni Foureira syngur Fuego

Mynd: CYBC/Panik Records

Já, það á sko að klára þessa fyrri undankeppni Eurovision með stæl! Hin kýpverska Beyoncé/Jennifer Lopez er mætt á svæðið og hún ætlar sko að leyfa okkur að finna fyrir hitanum! Atriðið byrjar þar sem Eleni stendur í leisergöngum í glitrandi samfestingi. Hún nýtur aðstoðar fjögurra kvenkynsdansarar og við giskum á að hún geymi líka eina bakraddasöngkonu bak við sviðið. Hér fáum við að sjá frábæra danstakta – beyoncé-dansa í bland við latínska zumba-danstakta. Danshreyfingarnar eru eggjandi og Eleni sveiflar hárinu ótt og títt. Við sjáum nokkuð mikið af on-screen-effects; rauðar reyksprengjur og eldur sem á einum tímapunkti virðist koma úr afturenda söngkonunnar (!). Atriðið er mjög sexý og eins og einn blaðamaðurinn komst að orði; þetta er ekki sérlega fjölskylduvænt! Söngurinn var reyndar ekki alveg eins góður og dansinn hjá Eleni en að sjálfsögðu getur hún bætt það þar til 8. maí rennur upp. Brjáluð fagnaðarlæti brutust út hér í blaðamannahöllinni í Lissabon eftir frammistöðu Kýpverja sérstaklega þegar þeir bættu við flugeldum í lokarennslinu.