Foreldrar og börn þeirra í Söngvakeppninni og Eurovision


Nú þegar búið er að tilkynna um lögin í Söngvakeppninni 2020 kemur í ljós að eitt af því sem einkennir keppnina í ár er að önnur kynslóð er áberandi, það er að segja flytjendur og höfundar sem eiga foreldri sem hefur áður tekið þátt Söngvakeppninni.

Image may contain: 2 people, people smiling, glasses and indoor

Rúna G. Stefánsdóttir og Nína Dagbjört Helgadóttir

Nína Dagbjört Helgadóttir syngur lagið Ekkó/Echo í keppninni í ár. Móðir hennar er er Rúna G. Stefánsdóttir. Hún var í bakröddum hjá Selmu Björnsdóttur í laginu All out of Luck árið 1999 þegar við Íslendingar náðum okkar besta árangri. Tveimur árum síðar, 2001, söng hún lagið Í villtan dans í Söngvakeppninni og endaði í 5. sæti. Árið 2006 söng hún svo lagið 100% og komst í úrslit. Rúna verður einnig í bakröddum hjá Nínu dóttur sinni í ár.

Daði Freyr Pétursson tók fyrst þátt í Söngvakeppninni 2017 með lagið Is This Love og svo aftur í ár með lagið Gagnamagnið/Think about Things. Pabbi hans, Pétur Einarsson spilaði á bongótrommur í laginu Samba sem Katla María flutti í Söngvakeppninni 1993.

Image may contain: 2 people, people smiling

Stefán Hilmarsson og Birgir Steinn Stefánsson

Birgir Steinn Stefánsson er höfundur tveggja laga í keppninni í ár, Klukkan tifar/Meet me half Way og Dreyma. Faðir Birgis er Stefán Hilmarsson. Stefán á íslenska textann við Klukkan tifar og hefur vissulega átt þá marga fleiri í Söngvakeppninni. Sjálfur hóf hann ferilinn í Söngvakeppninni árið 1988 með lagið Sókrates sem fór alla leið til Dublin og einnig söng hann lagið Látum sönginn hljóma í Söngvakeppninni það ár. Þremur árum síðar tók hann aftur þátt ásamt Eyjólfi Kristjánssyni og sungu þeir þá lagið Nína sem fór alla leið til Rómar og er eitt þekktasta og vinsælasta Eurovisionlag okkar Íslendinga. Svo söng hann bakraddir í All out of Luck í Jerúsalem með áðurnefndri Rúnu. Skemmtileg tilviljun allt saman og að dóttir hennar heiti Nína.

Image may contain: 2 people, people smiling

Helga Möller og Elísabet Ormslev

Að síðustu er meðal þátttakenda í ár Elísabet Ormslev sem flytur eigið lag Elta þig/Haunting. Hún hefur áður tekið þátt, bæði sem bakrödd og þegar hún söng lagið Á ný eftir Gretu Salóme Stefánsdóttur árið 2016. Móðir Elísabetar er Helga Möller sem var hluti af Icy tríóinu sem tók þátt í Gleðibankaævintýrinu 1986. Hún tók nokkrum sinnum þátt eftir það, til dæmis var hún ein af þeim sem söng lagið Í dag árið 1991 og varð í öðru sæti þegar Stefán sigraði með Nínu.

Tvenn íslensk feðgin hafa bæði tekið átt í Söngvakeppninni og Eurovision. Björgvin Halldórsson hafði tekið þátt í flestum Söngvakeppnunum þar til árið 1995 þegar hann fór út með lagið Núna. Svala dóttir hans hefur tekið þátt sem lagahöfundur oftar en einu sinni og sigraði svo sem flytjandi árið 2017 með lagið Paper. Feðginin Ólafur Gaukur Þórhallsson og Anna Mjöll Ólafsdóttir hafa einnig bæði tekið þátt í Söngvakeppninni og Eurovision og fóru alla leið með lagið Sjúbídú árið 1996. Anna Mjöll er elsta „barnið“ í þessum hópi og varð fimmtug um daginn. Í pistli á FÁSES.is í tilefni af afmælinu var farið yfir feril Önnu og Ólafs í Söngvakeppninni og Eurovision.

Myndaniðurstaða fyrir anna mjöll ólafsdóttir og ólafur gaukur

Anna Mjöll Ólafsdóttir og Ólafur Gaukur Þórhallsson

Magnús Kjartansson keppti í Söngvakeppninni árið 1987 með lagið Sólarsamba. Hópurinn kallaði sig Bræðrabandalagið og meðal þeirra sem voru á sviðinu var dóttir hans Margrét Gauja Magnúsdóttir. Þórir Úlfarsson átti lagið Eva í Söngvakeppninni 1992 sem Arnar Freyr Gunnarsson flutti, árið 2013 átti hann lagið Sá sem lætur hjartað ráð för sem Edda Viðarsdóttir söng. Árið 2016 söng Pálmi Gunnarsson lagið Ég leiði þig heim eftir Þóri í Söngvakeppninni. Sonur Þóris, Eyþór Úlfar var svo einn af höfundum lagsins Fighting for love árið 2019 sem Tara Mobee söng.

Image may contain: 2 people

Margrét Gauja Magnúsdóttir og Magnús Kjartansson

Guðrún Gunnarsdóttir hefur margoft tekið þátt í Söngvakeppninni bæði sem aðal- og bakrödd. Þekktasta lagið hennar er líklega Dag eftir dag sem hún flutti árið 1988. Lagið er eftir Valgeir Skagfjörð sem þá var eiginmaður Guðrúnar. Guðrún var svo í bakröddum á stóra sviðinu fyrir Ísland árin 1993, 1995 og 2008. Valgeir hefur einnig átt fleiri lög í keppninni, eins og lagið Söknuður sem Páll Rósinkranz söng árið 2000. Dóttir Guðrúnar og Valgeirs, Ólöf Jara Skagfjörð flutti lagið Hugur minn fylgir þér í Söngvakeppninni 2009 en Valgeir er höfundur lagsins. Núverandi sambýlismaður Guðrúnar, Hannes Friðbjarnarson hefur einnig tekið þátt í Söngvakeppninni og fór út sem bakrödd árið 2013 þegar Eyþór Ingi Gunnlaugsson söng lagið Ég á líf.

https://m2.mbl.is/UlWRaFtouJRMWWzxjfNjs5zC76M=/970x647/smart/frimg/4/52/452235.jpg

Valgeir Skagfjörð og Ólöf Jara Skagfjörð

Grétar Örvarsson hefur margoft komið að Söngvakeppninni. Í fyrrasumar skrifaði pistlahöfundur grein um Grétar í tilefni af sextugsafmæli hans þar sem farið var yfir Söngvakeppnisferil hans. Árið 2007 átti hann lagið Eldur í keppninni sem Friðrik Ómar Hjörleifsson söng. Lagið samdi Grétar ásamt syni sínum Kristjáni Grétarssyni og textann átti þáverandi eiginkona hans, Ingibjörg Gunnarsdóttir. Kristján hefur komið að keppninni eftir þetta, aðallega sem gítarleikari, og Ingibjörg hefur samið fjölmarga texta við fleiri Söngvakeppnislög.

Sigurjón Brink tók nokkrum sinnum þátt í Söngvakeppninni. Fyrst árið 2006 með lagið Hjartaþrá, tveimur árum síðar með You Knocked on My Door og Waterslide. Árið 2011 sendi hann svo lagið Aftur heim sem varð Coming Home þegar það hafði sigrað og fór alla leið í úrslitakeppnina í Dusseldorf. Eins og kunnugt er lést Sjonni í janúar 2011 áður en hann náði að flytja lagið sitt en vinir hans tóku það að sér. Ekkja Sjonna, Þórunn Erna Clausen átti textann við lagið. Árið 2018 átti hún lagið Our Choice í keppninni sem fór alla leið til Lissabon og Ari Ólafsson söng. Hún hefur átt nokkur önnur lög í Söngvakeppninni og einn fleiri texta. Sonur Sjonna, Aron Brink flutti lagið Hypnotised í Söngvakeppninni 2017 og var í bakröddum í einu lagi ári síðar.

Einnig eru til fjölmörg dæmi um þátttöku foreldra og barna þeirra í Eurovisionkeppninni sjálfri. Feðginin Jacques Pills og Jacqueline Boyer kepptu fyrir sína þjóðina hvort árin 1959 og 1960. Jacques Pills keppti fyrir Mónakó en dóttir hans Jacqueline Boyer var fulltrúi Frakklands ári síðar. Þjóðverjar sendu mæðgur í keppnina árið 1988 en þá fluttu þær Maxine og Chris a Garden lagið Lied für einen Freund. Benny Anderson úr ABBA keppti í Eurovision árið 1974 eins og frægt er orðið og sonur hans Peter Grövall átti lagið Den Vilda í keppninni 1996, sem við heyrðum trúlega síðast í íslenskri útgáfu í jólamánuðinum. Árið 1985 tóku hjónin Kirsten Siggard og Søren Bundgaard þátt í Eurovision fyrir Dani undir nafninu Hot Eyes. Með þeim á sviðinu var meðal annars 9 ára dóttir Sørens, Lea. Þremur árum síðar tóku þau hjónin líka þátt og þá var Kirsten ólétt. Árið 2003 keppti furðufuglinn Alf Poier fyrir Austurríki og var með mömmu gömlu í bakröddum. Knez frá Svartfjallalandi var með dóttur sína í bakröddum þegar hann flutti lagið Adio árið 2015.

Þessi upptalning er ekki tæmandi. Þeir sem hér eru nefndir hafa sumir komið að fleiri atriðum. Einnig eru einhverjir sem vantar í þessa upptalningu, að minnsta kosti í stóru Eurovision keppninni. Allar ábendingar um fleiri sem passa í þennan flokk eru vel þegnar. Þið megið senda línu á netfangið ogae.iceland@gmail.com.