Veganistar og kanínur, hip hop og ballöður: Undankeppnin í Tékklandi


Tékkar tilkynntu á síðasta ári að þeir myndu endurreisa undankeppnina fyrir Eurovision eins og hún var á árunum 2007- 2009 eftir ágætis gengi í aðalkeppninni síðustu ár. Það breyttist svo á síðustu stundu hvort sem um er að ræða sparnað hjá tékkneska sjónvarpinu eða því að Jan Bors, sem gert hefur frábæra hluti með tékknesku keppendunum síðustu ár er hættur og við tók Cyril Hirsch. Tékkneska keppnin í ár er því með sama sniði og síðustu tvö ár, haldin á netinu, keppendur setja inn myndbönd af lögunum og gefst öllum kostur að kjósa á netinu, óháð hvar þeir búa. Þannig að ef ykkur langar til að hafa áhrif þá getið þið kosið með því að niðurhala appinu á Eurovision.tv og finnið ESCZ 2020 · VOTE NOW og þannig kosið ykkar uppáhalds lag til miðnættis í kvöld 2. febrúar. 

Netkosningin gildir 50% á móti alþjóðlegri dómnefnd en eins og við munum þá var okkar eigin Ari Ólafsson meðlimur hennar í fyrra. Í alþjóðlegu dómnefndinni eru 10 einstaklingar hvaðanæva úr Evrópu og verða úrslit netkosningarinnar og dómnefndarinnar kynnt mánudaginn 3. febrúar. En skoðum hvaða keppendur eru að keppa í ár.

Barbora Mochowa snýr aftur með draumapoppið White & Black Holes. Barbora vann dómnefndarkosninguna í fyrra og er gríðarlega vinsæl meðal margra aðdáenda sem vilja sjá hana vinna í ár. Lagið hennar er seiðandi draumkennt Lönu Del Rey-legt gæðapopp sem við sjáum ekki oft í Eurovision og spurning hvort virki í keppni þar sem gildir að ná athygli áhorfandans strax en ekki eftir nokkur skipti. 

Benny Cristo er ekki aðeins vinsæll hip hop tónlistarmaður sem hefur átt góðu gengi að fagna í Tékklandi allt frá því að hann gaf út sína fyrstu plötu 2010, hann er einnig frambærilegur jiu-jitsu íþróttamaður og hefur unnið nokkrar medalíur á því sviði. Hann á ættir að rekja til Angólu og heyrast þau áhrif greinilega í lagi hans Kemama sem spinnir saman á skemmtilegan hátt hip hop tónlist hans og áhrif frá þjóðlagatónlist Angólabúa. 

Poppsöngkonan Elis Mraz ákvað að leyfa Slóvökum að spreyta sig við að komast í Eurovision eftir margra ára fjarveru því hip hop tónlistarmaðurinn Čis T sem flytur lagið Wanna be like með henni kemur einmitt frá Bratislava í Slóvakíu. Og hver veit nema að þetta útspili tryggi Elis og Čis T yfirburði í netkosningunni og leiði til þess Tékkar tefli fram hip hop/poppi a la USA í ár. 

Karelll með þremur “L” fetar í fótspor Duncans Laurence og flytur fallega ballöðu spilandi á lítið píanó. Hann er þrælmenntaður í tónlist og lærði tónsmíðar við þekktan tónlistarháskóla í Bretlandi. Hann tók einnig þátt í MUSEXPO í Los Angeles fyrstur tékkneskra tónlistarmanna. Hann hefur verið iðinn við að koma sér á framfæri undanfarið í Tékklandi en hefur lítið fengist spilaður á sjónvarpsstöð föður síns sem samkvæmt heimamönnum gengur aðallega út á sjónvarpsmarkað fyrir eldri borgara og hörmungartónlist. Mögulega eru það góð meðmæli með Karelll að hann fæst ekki spilaður þar. 

Olga Lounová var þekkt leikkona þegar hún ákvað að leggja undir sig tónlistarheiminn líka. Ekki nóg með það heldur er hún einnig menntuð sem tónlistakennari. En nú er komið að röðinni að Eurovision hjá Olgu. Og til þess að sigra í tékknesku undankeppnina og seinna meir væntanlega Eurovision bikarinn sjálfan í Rotterdam fékk hún til liðs við sig þekktan bandarískan útsetjara sem meðal annars hefur unnið með Lady Gaga og JLo og Aleena Gibson sem margoft hefur samið lög fyrir Melodifestivalen og á meðal annars lag í áströlsku undankeppninni í ár (Lessons of love með Vanessu Amorosi). 

Pamela Koky, betur þekkt undir listamannsnafninu Pam Rabbit er að taka þátt í annað skipti í tékknesku undankeppninni en í fyrra flutti hún lagið Easy to believe sem lenti í 4. sæti. Nú er hún mætt með töff indípopp sem myndi smellpassa inn í íslenska tónlistarheiminn sem kannski er ekki furða þar sem annar lagahöfundurinn Boris Carloff þekkir mætavel íslenska tónlist. Hann gaf út plötuna Morphosis árið 2014 sem Barði Jóhannsson tók upp og útsetti með honum. Þess má geta að Pam Rabbit var ein af bakraddasöngkonunum í laginu Lie to me, framlagi Tékka 2018. 

Sjöunda lagið í tékknesku undankeppninni hefur þegar vakið mikla athygli með Eurovision aðdáenda. Aktívistarnir í hljómsveitinni We All Poop settu bandið saman sérstaklega fyrir undankeppnina í Tékklandi og ekki ólíklegt að þar séu Hataraáhrif að verki enda einn mest áberandi aktívismi sem sést hefur í Eurovision. Meðlimir We All Poop eru nefnilega veganistar og markmið þeirra er að vekja athygli á veganisma og grimmd þeirra sem borða dýraafurðir. Myndband lagsins kemur þessum skilaboðum vel til skila en ekki ólíklegt að það sé einnig unnið undir áhrifum frá Apaplánetunni. Burtséð frá því hvaða skoðun fólk hefur á veganisma eða kjötáti þá er lagið hörkugott Britpop lag sem væri skemmtilegt framlag til Eurovision í Rotterdam. Vonandi er þó Jon Ola Sand tilbúinn með reglulegt fundarplan með meðlimum We All Poop því þeir líta ekki út fyrir að vera neitt þægari en Hatari. 

Sjö lög keppa sem sé til úrslita og gæði laganna eru slík að öll atriðin væru verðugur fulltrúi Tékka í Rotterdam. Tékkum hefur tekist að endurvekja undankeppnina á óvenjulegan hátt með því að hafa allt á netinu en hugsanlega er það einnig skýringin. Lögin höfða til breiðs hóps fólks ekki síst þeirra yngri og áhugi Tékka á Eurovisionkeppninni hefur aldrei verið meiri en í ár. 

Við minnum á að hægt er að kjósa í tékknesku undankeppninni til miðnættis í kvöld 2. febrúar með því að niðurhala appinu á Eurovision.tv og finna ESCZ 2020 · VOTE NOW.