Anna Mjöll 50 ára


Anna Mjöll Ólafsdóttir fæddist í Reykjavík þann 7. janúar 1970 og fagnar því hálfrar aldar afmæli í dag. Anna Mjöll var dugleg að taka þátt í söngvakeppnum í lok níunda og byrjun tíunda áratugarins. Hún tók til dæmis þátt í Látúnsbarkakeppni Stuðmanna og sigraði í Landslaginu, söngvakeppni á vegum Stöðvar 2 með lagið Ég aldrei þorði árið 1991. Anna hefur búið í Bandaríkjunum um árabil og starfað við tónlist og fleira þar.

Anna Mjöll tók fyrst þátt í Söngvakeppninni árið 1993. Lagið sem hún flutti heitir Eins og skot og er eftir föður Önnu, Ólaf Gauk Þórhallsson. Þess má geta að hann á líka íslenska textann við lagið Heyr mína bæn sem upphaflega hét Non Ho L´Etá, ítalska sigurlagið í Eurovision 1964. Anna kemur annars úr mikilli tónlistarfjölskyldu, en móðir hennar er Svanhildur Jakobsdóttir söngkona. Eins og skot endaði í 2. sæti.

Ári síðar var Anna aftur mætt í Söngvakeppnina og núna með lagið Stopp sem hún samdi og flutti sjálf.

Árið 1996 var engin Söngvakeppni, en RÚV tilnefndi Önnu Mjöll sem fulltrúa Íslands í Eurovision. Þar flutti hún lagið Sjúbídú eftir hana og Ólaf Gauk föður hennar. Ólafur var einnig hljómsveitastjóri lagsins. Með Önnu á sviðinu voru bandarískir vinnufélagar hennar. Á þessum tíma fór fram einhvers konar forval þar sem ekki var pláss fyrir öll atriðin á lokakvöldinu, aðeins mismunandi milli ára. Sjúbídú endaði í 10. sæti í forvalinu og 13. sæti á lokakvöldinu. Hlutfallslega er þetta sjöundi besti árangur Íslands í Eurovision og sá besti af þeim lögum sem ekki hafa náð inn á topp tíu.

Ritstjórn FÁSES.is sendir Önnu Mjöll kærar afmæliskveðjur í tilefni dagsins.