Open Up – Fyrstu keppendur Eurovision 2020 eru mættir á svæðið.


Nýtt ár, nýr áratugur og síðast en ekki síst, glæný júróvertíð, vúhú!! Við erum að vísu (flest) ennþá í í smá Hatara vímu, enda ekki annað hægt, en það er komið að því að gíra sig almennilega upp fyrir Rotterdam og undirbúa sig fyrir flóðbylgjuna af nýjum lögum, nýjum uppáhöldum og 2020 partýútgáfunni af Eurovision.

Þótt það séu einungis nokkrir dagar liðnir af 2020, er júróvertíðin komin í gang og við erum nú þegar búin að græða sex flytjendur, eitt framlag og titilinn á öðru framlagi. Vel gert á ekki lengri tíma. Okkur er því ekkert að vanbúnaði með að starta fyrsta kynningarpistlinum, sem er þó að sjálfsögðu ekki tæmandi og verður uppfærður eftir því sem lengra líður. Í anda slagorðs Hollendinga opnum við upp á gátt og bjóðum fyrstu keppendurna velkomna!

Albanía – Arilena Ara – Shaj

Að sjálfsögðu var það albanska forkeppnin Festivali i Kenges sem hringdi inn jólin fyrir júróvisjónþyrsta aðdáendur, en úrslitakvöldið fór fram með pompi og prakt í höfuðborginni Tirana þann 22.desember sl. Að vanda var öllu tjaldað til og keppnin hið skæslegasta áhorf, en í lok kvölds var það hin 21 árs gamla söngkona Arilena Ara, sem stóð uppi sem sigurvegari eftir að hafa heillað dómnefnd (sem m.a innihélt hann Felix okkar Bergsson) algerlega upp úr skónum með kraftballöðunni “Shaj”, og hafði þar með betur en aðdáendauppáhaldið Elvana Gjata, sem flestir höfðu spáð sigri í undanfara FiK. Elvana veitti samt Arilenu harða samkeppni en einungis þrjú stig skildu þær stöllur að á endanum.  “Shaj” er ekkert að finna upp hjólið því hér er á ferðinni strangheiðarleg albönsk dívuballaða á la Eurovision og Arilena er alveg hreint skínandi söngkona, en þar sem Albanir eru nú þekktir fyrir að skvera lögin upp, breyta, bæta, toga og teygja áður en þau mæta á fyrstu æfingu í stóru keppninni, ætlum við ekki að kryfja “Shaj” til mergjar alveg strax. Hver veit, það gæti verið glænýtt lag sem þeir hrista fram úr erminni áður en haldið verður til Rotterdam. Sjáum til, en þangað til skulum við bara óska Arilenu til hamingju með þessa útgáfu af laginu.

Austurríki – Vincent Bueno – Alive

Myndaniðurstaða fyrir vincent bueno

Austurríkismenn voru ekkert að tvínóna við hlutina og um miðjan desember tilkynnti ORF að þeir hefðu valið söngvarann Vincent Bueno til að halda uppi heiðri landsins í Rotterdam. Þeir eru m.a.s tilbúnir með lag, eða öllu heldur titilinn á laginu, en það mun heita “Alive” og verður gefið formlega út einhverntímann á næstu vikum. Austurríki reið ekki feitum hesti frá keppninni í fyrra en partýpinninn Pænda sat eftir með sárt ennið í undanúrslitunum, þrátt fyrir tilfinningaríkan flutning á lagi sínu “Limits”. Við getum hreinlega ekkert sagt til um hvort sú verði raunin í ár, þar sem ekki er komið lag ennþá en Vincent þessi Bueno virðist hinsvegar ágætis tappi og sérdeilis hæfileikaríkur. Hann er 34 ára gamall, og fæddur af filippískum foreldrum en alinn upp í Vínarborg, þar sem hann hefur stundað tónlistarnám af fullum krafti síðan í barnæsku og spilar á trommur, bassa, gítar og píanó, ásamt því að syngja R n´B, popp og danstónlist. Á meðan við bíðum eftir því að “Alive” verði gefið út, mæli ég með að þið tékkið á öðrum verkum Vincents í millitíðinni, en hann hefur gefið út þó nokkuð mikið af efni og hefur afskaplega mjúka og áheyrilega rödd. Ef “Alive” verður eitthvað í anda þess sem Vincent hefur verið að gera, að þá gætum við átt von á grjóthörðum R n´B slagara í anda The Weeknd, Timberlake og Usher. Hlökkum til!

Belgía – Hooverphonics – Lag ekki komið.

Myndaniðurstaða fyrir hooverphonics

Eftir þrjú topp tíu ár hjá Belgum upphófst annað þurrkatímabil þegar þjóðin komst ekki áfram í aðalkeppnina í Tel Aviv í fyrra, en það var í annað árið í röð sem það gerðist. Að sjálfsögðu voru Belgarnir ekki par sáttir, enda búnir að bragða á því að vera vinstra megin á stigatöflunni og ekki tilbúnir að gefa drauminn um annan belgískan sigur upp á bátinn. Það er flæmski hlutinn sem sér um framlagið í ár, og í október tilkynnti ríkismiðillinn VRT að þeir hefðu valið tríóið Hooverphonics til að keppa fyrir hönd landsins í Rotterdam. Hooverphonics eru svo sannarlega engir nýgræðingar en sveitin hefur starfað óslitið síðan hún var stofnuð árið 1995 af þeim Alex Callier, Raymond Geerts og þáverandi söngkonu Geike Arnaert. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þá, en Geike sagði skilið við bandið árið 2008, og tók þá önnur söngkona við og starfaði með Alex og Raymond til ársins 2015, þegar að hún hélt á vit nýrra ævintýra og söngkonan Luka Cruysberghs tók við keflinu og er núverandi söngkona bandsins. Hooverphonics hafa í gegnum tíðina ekki viljað binda sig alfarið við eina sérstaka tegund tónlistar, en kannski er einfaldast að lýsa stefnu þeirra sem einhverskonar tilraunakenndri blöndu af raftónlist og rokki. Lagið sem Hooverphonics mun taka með sér yfir landamærin verður gefið formlega út í febrúar næstkomandi og verður spennandi að sjá hvað í boði verður. Hooverphonics eru nefnilega pínu óútreiknanleg þegar kemur að tónlist!

Búlgaría – Victoria – Lag ekki komið.

Myndaniðurstaða fyrir victoria georgieva

Búlgaría er komin aftur! Englasöngur, konfettí og kampavín! Búlgarir tóku sér árspásu í fyrra eftir fremur (óverðskuldað) slakt gengi Equinox sextettsins í Lissabon. Það fór kaldur hrollur um aðdáendur, enda voru allir ennþá með netta áfallastreituröskun eftir “pásuna” sem Ítalir tóku sér hérna um árið og við tók 13 ára bið eftir endurkomu þeirra. Engin vildi sjá á eftir Búlgaríu enda hafði þjóðin séð okkur fyrir nokkrum af eftirminnilegustu framlögum Eurovision síðan þeir þreyttu frumraun sína í Kænugarði árið 2005. En Gvöðsélof, þeir eru mættir aftur til leiks og nú með söngkonuna Victoriu Georgievu í fararbroddi. Victoria er 22 ára gömul og sló í gegn í heimalandinu eftir að hafa tekið þátt í 2015 rennslinu af X-Factor Bulgaria, þrátt fyrir að hafa ekki lent í topp þremur. Victoria er svolítið óskrifað blað, enda kornung ennþá, en hefur þó gefið út nokkur lög síðan 2016 sem kíkt hafa inn á vinsældarlistana í Búlgaríu. Lagið sem Victoria kemur til með að flytja í Rotterdam verður gefið út í mars, en ekki er enn komið á hreint hverjir munu semja lagið, en við (lesist: ég) bindum vonir við að einhverstaðar sé hin almáttugi Borislav Milanov að leggja lokahönd á eitthvað svívirðilega flott lag handa Victoriu, jafnvel með dyggri aðstoð Trey Campell. Kemur allt í ljós en þangað til má láta sig dreyma. Allavega bjóðum við Búlgaríu velkomna aftur í búbbluna.

Georgía – Tornike Kipiani – Lag ekki komið.

Myndaniðurstaða fyrir tornike kipiani

Elsku Georgía. Afslappaðasta austantjaldsþjóð sem til er, allavega þegar kemur að Eurovision, en samt svo fáránlega dásamleg eitthvað. Þeir eru bara aldrei að stressa sig eitthvað þarna í Tblisi og koma alltaf með nýja nálgun á hverju einasta ári. Sitt sýnist kannski hverjum um gæði laganna, en það er klárt mál að Georgía heldur okkur alltaf á tánum, en á góðan hátt. Í fyrra var það gúrmegæinn (já, ég segi það og skrifa. Gúrme!) Oto Nemsadze sem mistókst að koma Georgíu í úrslitin en þjóðin tók því með stóískri ró að vanda, yppti öxlum og ákvað að negla þetta næst. Nú er “næst” komið í höfn, því að það er hin 32 ára gamli söngvari Tornike Kipiani sem mun mæta með rauðvín og lekkerheit til Rotterdam í maí. Georgíumenn hafa ákveðið að nota hæfileikakeppnina Georgian Idol til að velja sér flytjanda síðustu tvö skipti, en fyrrnefndur Oto sigraði einmitt þá keppni í fyrra. Nú er það hinsvegar Tornike sem mun halda heiðri Georgíu á lofti, en ekki er ennþá komið á hreint hvenær framlagið sjálft verður opinberlega gefið út. Ekkert stress í Tblisi einsog áður sagði. Tornike sjálfur er engin nýliði, en áður en hann sigraði Georgian Idol, var hann þegar búinn að vinna X-Factor Georgia, þar sem þjálfarinn hans var engin önnur en sjálf Tamta. Hann keppti svo í georgísku forkeppninni árið 2017 með iðnaðarteknóslagarann “You are my sunshine” en þurfti að lúta í lægra haldi fyrir skyndibitadrottningunni Tamöru “Tako” Gachechiladze. Nú er hans tími kominn og spurning hvaða bræðing Georgía býður upp á í ár. Spennum beltin, krakkar. Þetta verður eflaust eitthvað.

Kýpur – Sandro – Lag ekki komið.

Myndaniðurstaða fyrir sandro nicolas

Kýpverjar eru nú sú þjóð sem lengst hefur keppt í Eurovison án þess að hafa landað sigri, en þeir hafa verið með síðan 1981, með öööörfáum undantekningum. Þetta eru næstum 40 ár gott fólk og Kýpverjar orðnir langþreyttir á biðinni. Við Íslendingar skiljum þá svo vel! Kýpverska sjónvarpið hefur heldur aldrei farið troðnar slóðir og ekki viljað hengja sig eitthvað sérstaklega við borna og barnfædda Kýpverja þegar kemur að því að senda lag í Eurovision, sérstaklega ekki á seinustu árum. Tamta er t.a.m frá Georgíu, Eleni Foureira albönsk, Hovig armenskur og svo mætti lengi telja. Þeir eru ekkert að breyta út af vananum með það í ár og hafa valið hinn 23 ára gamla þýsk/grísk/ameríska söngvara Sandro til að keppa fyrir hönd landsins í Rotterdam. Sandro þessi er agalegt krútt og heitir fullu nafni Alessandro Rütten, en hefur komið fram undir listamannsnafninu Sandro Nicolas síðan hann hóf feril sinn. Hann er fæddur og uppalinn í Þýskalandi og á gríska móður og bandarískan föður. Sandro hefur aðallega daðrað við þvottekta popp á ferli sínum og vafalítið mun hann mæta til Hollands með eitthvað í þá áttina í farteskinu. Ekki hefur ennþá verið gefin endanleg dagsetning á útgáfu kýpverska framlagsins, en reglur EBU kveða á um að allt slíkt skuli vera klappað og klárt ekki seinna en mánaðarmótin mars/apríl. Svo við gætum átt von á því á næstu átta vikum. Þangað til skellum við bara “Fuego” og “Replay” á fóninn og vonumst eftir einum kýpverskum Zumbaslagara í í viðbót í safnið.