Grétar Örvarsson 60 ára


Grétar Þorgeir Örvarsson fagnar 60 ára afmæli í dag, en hann fæddist 11. júlí 1959. Grétar ólst upp á Höfn í Hornafirði og stofnaði þar sína fyrstu hljómsveit árið 1978. Tíu árum síðan stofnaði hann aðra hljómsveit, Stjórnina, sem hann starfrækir enn þann dag í dag. Grétar hefur komið að mörgum öðrum tónlistarverkefnum í gegnum tíðina, en í þessum pistli verður áherslan á feril Grétars í Söngvakeppninni og Eurovision, eðli málsins samkvæmt.

Grétari sást fyrst bregða fyrir í Söngvakeppnninni árið 1987 þegar hann spilaði á hljómborð í lagi Geirmundar Valtýssonar, Lífsdansinn. Ári síðar eða 1988 átti hann sjálfur lag í keppninni, Í fyrrasumar sem hann flutti ásamt Gígju Sigurðardóttur og endaði lagið í sjöunda sæti.

Árið 1990 tók Stjórnin með Grétar og Sigríði Beinteinsdóttur í broddi fylkingar þátt í Söngvakeppnni með lögin Ef ekki er til nein ást og Eitt lag enn. Eins og flestir ættu að vita var það Eitt lag enn sem fór með sigur af hólmi hér heima. Lagið er eftir Hörð G. Ólafsson og textinn eftir Aðalstein Ásberg Sigurðsson. Það var Norðmaðurinn Jon Kjell Seljeseth sem útsetti og var einnig hljómsveitastjóri lagsins. Með Grétari og Sigríði á stóra sviðinu í Zagreb voru þáverandi meðlimir Stjórnarinnar; Jón Elvar Hafsteinsson, Þorsteinn Gunnarsson, Einar Bragi Bragason og Eiður Arnarsson. Lagið endaði í 4. sæti sem var langbesti árangur Íslands þá. Lagið er enn það sem hefur náð lengst af þeim sem hafa verið flutt á íslensku í Eurovision. Ef við deilum fengnum stigum í möguleg stig er þetta næstbesti árangur Íslands frá upphafi. Vakin er sérstök athygli á hneigingunni í enda atriðins sem er ein sú glæsilegasta í sögu keppninnar að mati pistlahöfundar.

Tveimur árum síðar eða árið 1992 snéri Stjórnin aftur í Söngvakeppnina með lagið Nei eða já og sigruðu. Hópurinn kallaði sig Heart 2 Heart þegar út til Malmö var komið. Sigríður Beinteinsdóttir og Sigrún Eva Ármannsdóttir voru í aðalhlutverki og sáu um sönginn. Lagið er eftir Grétar og Friðrik Karlsson sem voru einnig á sviðinu, auk Jóhanns Ásmundssonar og Halldórs Gunnlaugs Haukssonar, sem er hálfbróðir Friðriks Ómars. Lagið endaði í sjöunda sæti sem er í dag fjórði besti árangur Íslands.

Það liðu fimmtán ár þar til Grétar kom næst að Söngvakeppninni. Árið 2007 sendi hann lagið Eld til keppni. Lagið samdi hann ásamt Kristjáni syni sínum, gítarleikara Eurobandsins. Það var Friðrik Ómar Hjörleifsson sem flutti. Því miður finnst ekki útgáfa af laginu úr Söngvakeppninni, en hér er upptaka frá afmælistónleikum Friðriks Ómars árið 2011. Eldur endaði í öðru sæti í Söngvakeppninni.

Ári síðar eða 2008 var Grétar í bakraddasveit Íslands sem fór til Belgrad með lagið This is My Life. Það voru Friðrik Ómar Hjörleifsson og Regína Ósk Óskarsdóttir sem fluttu og í bakröddum ásamt Grétari voru Hera Björk Þórhallsdóttir, Pétur Örn Guðmundsson og Guðrún Gunnarsdóttir. Lagið er eftir Örlyg Smára. This is my life komst uppúr undankeppninni og var það í fyrsta sinn sem Íslendingum tókst það. Það varð í 14. sæti á lokakvöldinu.

Fyrir áhugasama er hægt að finna öll lögin sem nefnd eru í þessum pistli á tónlistarveitunni Spotify. Ritstjórn FÁSES.is óskar Grétari innilega til hamingju með afmælið!