Eiríkur Hauksson sextugur


Eiríkur Hauksson fæddist í Reykjavík 4. júlí 1959 og fagnar því sextugsafmæli sínu í dag. Tónlistarferill Eiríks fór á fullt uppúr 1980 og hann varð stórstjarna árið 1985 þegar hann flutti lögin Gull og Gaggó vest á plötu Gunnars Þórðarsonar, Borgarbragur. Ferill Eiríks í tónlistinni er langur og hann hefur komið víða komið við en í þessum pistli verður eðlilega aðeins fjallað um aðkomu hans að Söngvakeppninni og Eurovision.

Fyrsta Söngvakeppni Sjónvarpsins var haldin þann 15. mars 1986 og var þá bara eitt úrslitakvöld. Þá var hafður sá háttur á að fjórir söngvarar voru valdir til að syngja öll lögin, Pálmi Gunnarsson, Björgvin Halldórsson, Erna Gunnarsdóttir og afmælisbarnið Eiríkur Hauksson. Eiríkur flutti lögin Gefðu mér gaum, Mitt á milli Moskvu og Washington og Þetta gengur ekki lengur.  Eins og flestum ætti að vera kunnugt var það lagið Gleðibankinn sem fór með sigur af hólmi. Í Söngakeppninni flutti Pálmi lagið einn, en laginu var breytt fyrir förina til Bergen og höfðu þá Helga Möller og Eiríkur bæst við í flytjendahópinn og komu fram sem ICY tríóið. Eiríkur tók því þátt í fyrsta Eurovisionævintýri Íslendinga. Niðurstöðuna, hið rómaða 16. sæti, ættu flestir einnig að kannast við.

Ári síðar eða 1987 var Eiríkur mættur aftur í Söngvakeppnina með lagið Lífið er lag, en þar fór hann fyrir súpergrúppunni Módel. Aðrir meðlimir Módel voru Eva Ásrún Albertsdóttir, Erna Þórarinsdóttir, Edda Borg, Friðrik Karlsson og Gunnlaugur Briem. Lagið endaði í 2. sæti og fannst mörgum að það hefði átt að vinna.

Árið 1988 flutti Eiríkur til Noregs og býr þar enn. Hann hefur meðal annars sungið þar með hljómsveitinni Artch, en bassaleikari þeirrar sveitar er Bernt Jansen, betur þekktur sem Flash, bassaleikari Wig Wam sem tók þátt í Eurovision 2005. Eiríkur hefur þó komið til Íslands reglulega og tekið þátt í tónleikahaldi og fleiri tónlistartengdum verkefnum. Ellen Kristjánsdóttir flutti lagið Ég læt mig dreyma í Söngvakeppninni árið 1990 og var Eiríkur í höfundahópi lagsins.

Eiríkur tók þátt í Eurovision fyrir hönd Noregs árið 1991. Hann var þá hluti af kvartettinum Just 4 Fun en hann skipuðu auk Eiríks Marianne Antonsen, Jan Groth og Hanne Krogh, en hún var annar helmingur dúettins Bobbysocks sem sigraði keppnina árið 1985 með lagið La det swinge. Lagið sem kvartettinn flutti heitir Mrs. Thompson og endaði í 17. sæti.

Í fjögur ár, 2004 – 2007 tók Eiríkur þátt í samnorrænum upphitunarþætti fyrir Eurovision, Inför Eurovision Song Contest, sem er fyrirmynd Alla leið á RÚV. Sænska ríkissjónvarpið hafði yfirumsjón með þessum þáttum og á þessum árum var einn álitsgjafi frá hverju Norðurlandanna í þeim og gegndi Eiríkur því hlutverki fyrir hönd Íslands.

Eiríkur snéri svo aftur í Söngvakeppnina með látum árið 2007 þegar hann flutti lag Sveins Rúnars Sigurðssonar, Ég les í lófa þínum og sigraði örugglega. Enskur texti var gerður við lagið og Valentine Lost var lagið sem var flutt á sviði í Helsinki. Kristján Hreinsson á íslenska textann en Peter Fenner þann enska. Lagið komst því miður ekki upp úr undankeppninni, en fékk 77 stig og endaði í 13. sæti. Þess má geta að undankeppnin hefur aldrei verið stærri en einmitt þetta ár. Ef árangur er skoðaður með því móti að deila fengnum stigum í mögulegan stigafjölda er Valentine Lost tíundi besti árangur Íslands í dag þrátt fyrir að hafa ekki komist áfram í úrslitakeppnina.

Tveimur árum síðar eða árið 2009 gerði Eiríkur texta við lagið Undir regnbogann sem varð í 2. sæti í Söngvakeppninni. Hallgrímur Óskarsson á lagið og það var Ingólfur Þórarinsson eða Ingó veðurguð sem flutti.

Eiríkur ætlar að sjálfsögðu að halda upp á afmælið með pompi og prakt og blæs til stórtónleika í Eldborg í Hörpu í kvöld þar sem farið verður yfir ferilinn. Það er staðfest að allavega eitt Eurovisionlag verður flutt. Með fyrirvara um að ekki sé orðið uppselt, þá er hægt að næla sér miða í afmælisveisluna hér.

Ritstjórn FÁSES.is óskar Eiríki innilega til hamingju með afmælið.