All Out of Luck 20 ára


Þá er komið að afmælisdeginum. Það eru 20 ár í dag síðan Eurovisionkeppnin fór fram í International Convention Center í Jerúsalem í Ísrael eða þann 29. maí 1999. Þess má geta að Eurovisonkeppnin sem var haldin 20 árum fyrr eða árið 1979 var einnig í sama húsnæði. Þessa keppni er búið að rifja upp ansi oft síðastliðna mánuði og verður það nú gert hér í tilefni dagsins. Það muna líka flestir ef ekki allir sem voru orðinir 5 ára þennan dag eftir honum, enda er þetta ein af merkisstundum Íslandssögunnar.

Tvær stórar breytingar á reglum Eurovision voru gerðar þetta árið. Í fyrsta lagi var engin sinfóníuhljómsveit lengur heldur öll tónlist leikin af bandi. Í öðru lagi var tungumálareglan svokallaða felld niður og máttu keppendur nú syngja á hvaða tungumáli sem er. Það voru 23 lönd sem tóku þátt í Eurovision þetta ár. Kynnarnir voru þrír sem var ekki algengt þá, Yigal Ravid, Sigal Shachmon og Dafna Dekel, sem var fulltrúi Ísraela í Eurovision árið 1992 með lagið Ze Rak Sport. Lag númer 800 var í þessari keppni og heitir No Quiero Escuchar og er frá Spáni. Það lenti hins vegar í síðasta sæti. Fólk man helst eftir kjól söngkonunnar, Lydiu, en hann var eins og regnbogi. Sigurvegarar Ísraels frá áttunda áratugnum, Izhar Cohen og Gali Atari voru meðal áhorfenda í salnum en áhorfendur voru óvenju fáir.

Fyrir utan Döfnu voru tvær aðrar söngkonur að koma fram í Eurovision í annað sinn. Doris Dragovic keppti fyrir hönd Króata með lagið Maria Magdalena og er þetta eins og staðan er núna besti árangur Króatíu í Eurovision. Hún var fulltrúi Júgóslavíu árið 1986 með lagið Zeljo moja. Darja Svajger var fulltrúi Slóveníu með lagið For a Thousand Years, en hún hafði áður flutt lagið Prisluhni mi árið 1995. Dino Merlin tók þátt ásamt Béatrice fyrir hönd Bosníu og Hersegóvínu árið 1999 með lagið Puntnici en hann snéri svo aftur árið 2011 með lagið Love in Rewind. Einnig verður að minnast á atriði heimamanna sem hét Yom Huledet og er eina Eurovisionafmælislagið og er algengt að við Euronördarnir sendum hvort öðru afmæliskveðju með þessu lagi.

Í þriðja sæti varð hópur sem kallaði sig Sürpriz og keppti fyrir Þýskaland. Hópurinn var skipaður Tyrkjum sem búa í Þýskalandi. Meðlimir voru Cihan Özden, Deniz Filizmen, Yasemin Akkar, Filiz Zeyno, Savaş Uçar og Bülent Ural. Lagið heitir Reise Nach Jerusalem og er eftir Ralph Siegel og Bernd Meinunger sem hafa samið talsvert af Eurovisionsmellum. Sürpriz hópurinn vann reyndar ekki söngvakeppnina í Þýskalandi heldur varð í öðru sæti. Hins vegar kom í ljós að sigurlagið hafði verið gefið út með öðrum söngvara árið 1997 og var því vísað úr keppni.

Í öðru sæti varð svo Selma “okkar” Björnsdóttir með lagið All Out of Luck. Lagið er eftir Selmu, Þorvald Bjarna Þorvaldsson og Sveinbjörn I. Baldvinsson. Laginu var vel fagnað í salnum og var mikið klappað. Ef fengnum stigafjölda er deilt með mögulegum stigafjölda er þetta það íslenska lag sem er með besta hlutfallið og í eina skiptið sem við höfum átt raunverulegan möguleika á sigri þegar stigagjöfin var í gangi. Stigagjöfin var lengi vel ansi spennandi og undirrituð man eftir að hún var komin undir sófaborð með stigablað þar sem hún var að reyna að skrifa hjá sér stigin, enda birtist ekki allt um leið á netinu í þá daga. Stigin urðu alls 146. Selma tók aftur þátt í Eurovision árið 2005 með lagið If I Had Your Love og komst þá ekki upp úr forkeppninni.

Fyrir Íslendinga er þetta ekki bara söguleg keppni þar sem okkar besti árangur til þessa er þar heldur vorum við að taka þátt í símakosningu í fyrsta skiptið. Við settum strax línuna fyrir það sem koma skyldi og gáfum frændum vorum Dönum 12 stig fyrir lagið This Time I Mean It. Þeir launuðu okkur greiðann og gáfu okkur líka 12 stig.

Sigurvegarinn varð svo Charlotte Nilsson, síðar Charlotte Perelli, með lagið Take Me to Your Heaven fyrir hönd Svíþjóðar. Lagið er eftir Lars Diedicson. Charlotte fékk 163 stig. Hún hefur tekið þátt í Melodifestivalen, undankeppninni í Svíþjóð, nokkrum sinnum eftir þetta og fór aftur með sigur af hólmi þar árið 2008 með lagið Hero sem hún fór með í Eurovision. Það árið komst hún upp úr forkeppninni fyrir tilstilli dómnefnda og endaði í 18. sæti á lokakvöldinu. Charlotte hefur, eins og Selma reyndar, verið dugleg að koma fram á Eurovisiontengdum viðburðum, eins og EuroClub, troða upp og flytja sín lög.

Eitt af eftirminnilegustu atriðum keppninnar er svo þegar Dana International, sigurvegarinn 1998, afhendir Charlotte sigurlaunin og dettur með þau. Endirinn á þessari keppni var líka óvenjulegur þar sem allir keppendur sungu saman lagið Hallelujah, sigurlagið frá 1979 eftir að Charlotte hafði flutt sigurlagið aftur. Þetta var gert til minningar um þá sem áttu um sárt að binda eftir stríðið á Balkanskaga. Við Íslendingar munum svo alltaf minnast keppninnar með stolti þó spennan hafi verið mikil og ekki ólíklegt að við höfum sett heimsmet í sjónvarpsáhorfi þetta kvöld.