Fleiri keppendur – Bætist í hópinn í Rotterdam.


Það er svo gaman að kynna fólk til leiks. Við höfum nú þegar kynnt sex keppendur (og eitt lag) sem eru tilbúnir í slaginn í Hollandi,  og nú er komið að fjórum í viðbót, sem búið er að tilkynna sem fulltrúa síns lands, þó svo að lögin sjálf séu ekki komin út.

Forkeppnir eru komnar á fullt allstaðar í Evrópu, en innbyrðis valið er líka að koma sterkt inn í ár, eins og sjá má á fréttum úr júróheiminum. Gestgjafarnir, Frakkar, Spánverjar og Norður-Makedónar hafa allir valið sína keppendur innbyrðis og nú skulum við starta smá strákapartýi og kynnast þessum eðaldrengjum aðeins betur.

Spánn – Blas Cantó – Universo

Myndaniðurstaða fyrir blas canto

Blas Cantó er aðeins 28 gamall en hefur þó verið í bransanum í ein tuttugu ár. Hann byrjaði feril sinn í hæfileikakeppninni Veo Veo þegar hann var átta ára, og hefur síðan keppt í ýmsum hæfileikakeppnum vítt og breitt um Spán og var m.a einn af þeim sem komust í úrslit í spænsku forkeppninni fyrir Junior Eurovision Song Contest árið 2004 en laut í lægra haldi fyrir söngkonunni Mariu Isabel sem endaði á því að sigra JESC fyrir hönd Spánar það árið.

Blas var einnig meðlimur í strákabandinu Auryn, sem árið 2011 kepptu í Destino Eurovisión og freistuðu þess að vera fulltrúar Spánar í Düsseldorf, en töpuðu á lokametrunum fyrir Luciu Perez, sem fór til Þýskalands en mistókst að koma Spáni vinstra megin á stigatöfluna. En þrátt fyrir að hafa endað í öðru sæti, varð strákasveitin Auryn þó nokkuð vinsæl í heimalandinu og starfaði óslitið til ársins 2015 en þá tilkynntu þeir að sveitin ætlaði í smá pásu. Sú pása stendur ennþá en Blas sjálfur hefur gert það gott sóló og ásamt því að hafa komið nokkrum lögum ofarlega á vinsældarlistana á Spáni, sigraði hann 2017 útgáfuna af raunveruleika/skemmti/tónlistarþáttunum Tu cara me suena eða Your face sounds familiar eins og þeir heita á ensku. Blas er því ýmsu vanur greinilega.

Spænski ríkismiðillinn RTVE tilkynnti á dögunum að lagið sem Blas mun flytja í Rotterdam, beri titilinn “Universo” og verður fyrsta kitlan úr laginu gefin út þann 30. janúar nk. Undirrituð vonast að sjálfsögðu eftir eldhressum latínóslagara í anda “La Venda” og bíður, ásamt júróaðdáendum heims, spennt eftir “Universo”, og vonar að Blas fái skárri útreið heldur en elsku Miki Nunez gerði í fyrra.

Frakkland – Tom Leeb – Lag ekki komið.

Myndaniðurstaða fyrir tom leeb

Eftir ótal orðróma, óvissu og ágiskunarleiki, tilkynnti franska sjónvarpið loksins um miðjan janúar, að forkeppnin Destination Eurovision  hefði verið slegin út af borðinu (mörgum aðdáendum til mikilla vonbrigða) og söngvarinn Tom Leeb valinn innbyrðis til að keppa fyrir hönd Frakklands í Rotterdam.

Og Tom Leeb er fjölhæfur mjög. Þessi 31 árs gamli Frakki er ekki bara söngvari og lagahöfundur, heldur líka leikari og grínisti. Hann er fæddur í París og fyrir þá sem hafa gaman af franskri skemmtanalífs-ættfræði má geta þess að hann er sonur franska gamanleikarans Michel Leeb og hefur troðið upp með pápa gamla í ýmsum verkefnum, m.a. í franskri leikhúsuppfærslu á Mrs. Doubtfire, leikið í nokkrum bíómyndum og meira að segja leikið á móti sjálfum Jean Reno. Hann er einnig annar meðlimur gamandúettsins Kevin&Tom, þar sem hann fíflast með vini sínum Kevin Levy. Þeir félagar halda t.a.m. úti mjög vinsælli Youtube-rás þar sem þeir eru með ýmsa sketsa og almennt gamanmál.

En undanfarið hefur tónlistin átt hug og hjarta Tom og hefur hann troðið upp með bæði Sting og nafna sínum, Walesverjanum Jones. Hann segir sína helstu áhrifavalda vera Bon Iver, John Mayer, Matt Corby og Ben Howard, svo að við getum alveg gert okkur í hugarlund hvernig lag hann mun mæta með til Rotterdam. Samkvæmt frönskum fjölmiðlum (og Tom sjálfum) verður lagið alþjóðlegt og vel til þess fallið að sameina fólk. Úlala segjum við nú bara og bjóðum þennan fjallmyndarlega Fransmann til leiks og búum okkur undir (sennilega) alþjóðlegt og undurmjúkt gítarrokk í anda Bon Iver.

Norður Makedónía – Vasil – Lag ekki komið 

Myndaniðurstaða fyrir vasil garvanliev

Eftir brjálæðislega flottan flutning Tamöru Todevska á laginu “Proud” sem vann dómnefndakosninguna og skilaði Norður Makedóníu 7. sætinu í fyrra, og þar með sínum besta árangri í keppninni frá því landið tók fyrst þátt árið 1998, er baráttuhugur í þjóðinni. Ríkismiðillinn MRT tilkynnti þann 15. janúar að söngvarinn Vasil Garvanliev hefði verið valinn til að vera fulltrúi þjóðar sinnar í Rotterdam. Lagið hefur ekki enn verið gefið út en við eigum von á því á allra næstu vikum.

Vasil sjálfur er nú ekkert blautur á bakvið eyrun þegar kemur að tónlist og Eurovision. Hann var einmitt partur af bakraddateymi Tamöru í fyrra og veit því alveg hvernig það er að vera í júróbúbblunni víðfrægu. Hann er fæddur í Norður Makedóníu fyrir 35 árum en þegar Balkanstríðið braust út flúði fjölskylda hans til Bandaríkjanna og þaðan fluttu þau til Kanada. Þar hóf Vasil nám í söng og hefur komið sér ágætlega á kortið sem hæfileikaríkur óperusöngvari. En hann einskorðar sig ekki bara við óperusöng, heldur hefur einnig getið sér gott orð sem bakraddasöngvari og söng m.a. inn á plötu með Chance the Rapper. Undanfarið hefur Vasil unnið að sínu eigin sólóefni og gaf í haust út sitt fyrsta lag sem ber heitið “Patuvam” og er balkanskotið popplag. Tónlistargagnrýnendur í Norður Makedóníu hafa keppst við að dásama lagið, og segja það vera hugrakkt og djarft innlegg í hinsegin tónlistarmenningu landsins.

Það er bara ekkert annað! Vasil er því brautryðjandi og við fílum svoleiðis alltaf í botn. Hvort framlag Norður Makedóníu verði eitthvað í líkingu við “Patuvam” er of snemmt að segja til um en við hvetjum ykkur til að tékka á laginu engu að síður, því Vasil er flottur söngvari og spennandi að fylgjast með honum.

Holland – Jeangu Macrooy – Lag ekki komið

Myndaniðurstaða fyrir jeangu macrooy

Þá eru það gestgjafarnir! Ríkismiðillinn AVROTROS sem og hollenskir fjölmiðlar fóru, líkt og Frakkarnir,  í nettan ágiskunarleik þegar leið að því að tilkynna hver myndi verða fulltrúinn á heimavelli. Það eina sem aðdáendur og blaðamenn vissu var að nafn keppandans byrjaði á stafnum “J”. Og í byrjun janúar var það loksins gefið út að söngvarinn Jeangu Macrooy hefði verið valinn innbyrðis af AVROTROS. Valið á Jeangu var svo sannarlega ekkert út í loftið, því samkvæmt Eric van Stade, einum meðlima í valnefndinni, hefur söngvarinn verið á kortinu hjá þeim síðan 2016, og nú loksins er komið að honum að skína.

Jeangu Macrooy er fæddur í Súrínam fyrir hartnær 27 árum, en flutti til Hollands árið 2014 til að koma sér á framfæri sem tónlistarmaður. Það er óhætt að segja að það hafi gengið glatt hjá honum, því hann hefur nú þegar gefið út tvær stúdíó plötur, eina plötu tekna upp live, sem og eina stuttskífu (EP album) og nokkur stök lög, ásamt því að hafa túrað um Holland, Belgíu og Þýskaland. Hann hefur einnig gert mikið af því að troða upp með tvíburabróður sínum Xilli og er yfir höfuð einstaklega vinsæll og vel liðinn tónlistarmaður og afskaplega vel gerð manneskja. Jeangu er nefnilega mikill baráttumaður fyrir réttindum samkynhneigðra og hinsegin fólks í heimalandi sínu Súrínam, en þar í landi eru þessi málefni hálfgert tabú. Jeangu, sem er sjálfur kominn út úr skápnum fyrir alllöngu síðan, vill vera góð fyrirmynd fyrir allt ungt fólk í Súrínam, sem er að uppgötva kynhneigð sína og sýna þeim að það sé ekkert rangt við þau. “Ég hef tækifæri í gegnum tónlistina og frægðina sem henni fylgir, til að gera breytingar” segir hann og við segjum bara: “Áfram Jeangu!”

Og já, ef þið eruð að spá í hvernig nafnið hans er borið fram, þá hefur hann sjálfur gefið út skýringarmyndband á Youtube, þar sem hann kennir réttan framburð á nafninu sínu. Takk fyrir takk. Jeangu Macrooy er flottur fýr og við óskum honum alls hins besta.