Allt um keppendur Söngvakeppninnar – seinni undankeppni


Það er gaman að velta fyrir sér hvað einkennir Söngvakeppnirnar frá ári til árs. Í 2020 árganginum er til dæmis mikill meirihluta lagahöfunda í keppninni enn gjaldgengur í ungliðahreyfingar stjórnmálaflokkanna (sumsé undir 35 ára). Það eru helst Dimma og Jón Ólafsson sem hækka meðalaldurinn. Árið 2020 er ár kvenkyns flytjendanna en þær taka yfir sex atriði á móti fjórum atriðum með karla í frontinum. Þrír keppendur í ár eiga foreldri sem tilheyrir Eurovisionfarafjölskyldunni (Elísabet, Nína og Birgir Steinn), einn er Eurovisionfari (Matti Matt) og einn keppandi á konu sem er Eurovisionfari (Silli í Dimmu). Þrír keppendur hafa reynt sig áður í Söngvakeppninni, sumir margoft áður en við nefnum engin nöfn (Matti Matt!).

Þá skulum við halda áfram að kynnast betur flytjendum og höfundum laga í Söngvakeppninni 2020 og nú er komið að seinni undankeppninni sem fer fram í Háskólabíó þann 15. febrúar nk.

Gagnamagnið (Think About Things)

Flytjendur: Daði og Gagnamagnið

Lag: Daði Freyr

Texti: Daði Freyr

Daði Freyr skaust upp á Eurovision-stjörnuhimininn í Söngvakeppninni 2017 þegar hann og Gagnamagnið með Hvað með það? lentu í 2. sæti á eftir Svölu Björgvins og Paper. Erlendir Eurovision aðdáendur vissu ekki hvaðan á sig stóðu veðrið þegar þeir sáu þennan hávaxna fýr og peysuatriðið en við á FÁSES.is vorum bara rosalega glöð að fá svona mikið áhorf á viðtal sem við tókum við Gagnamagnið á Youtube! Eftir þátttökuna í Söngvakeppninni hefur Daði heldur betur gert það gott; út er komin platan &Co, hann átti geggjað lag í Áramótaskaupinu 2017, sjónvarpsþættirnir Árný og Daði í Kambódíu og Verksmiðjan litu dagsins ljós og hann hefur gert tónlistina að fullu starfi. Síðast en ekki síst gengu Daði Freyr og Árný Fjóla, einnig meðlimur í Gagnamagninu, í hjónaband og áttu dótturina Áróru Björgu en enska útgáfa lagsins sem Daði Freyr flytur í Söngvakeppninni 2020 fjallar einmitt um Áróru. Íslenska útgáfa lagsins fjallar um Gagnamagnið sem kemur utan úr geimnum til að bjarga mannkyninu og stendur vel undir merkjum að vera hresst partýlag sem gaman er að dilla sér við.

Einhver orðrómur var um að Daði og Gagnamagnið myndu snúa fljótt aftur í Söngvakeppnina, sér í lagi eftir frábært leynigestsatriði á úrslitum Söngvakeppninnar 2018. Þegar í ljós kom að Eurovision 2019 yrði haldið í Ísrael sló hljómsveitin það út af borðinu vegna deilna Ísraelsmanna og Palestínubúa. Daði Freyr lætur sér ekki nægja að vera með eitt lag í keppninni í ár heldur semur einnig íslenskan texta við lagið Elta þig sem Elísabet syngur. Við hlökkum til að komast að því hvaða auglýsingabrellur Daði Freyr kokkar upp fyrir Söngvakeppnina 2020. Síðast fengum fengum nýjan tölvuleik, fullt af Eurovision ábreiðum og svalar grænar peysur svo væntingarnar eru miklar!

 

Fellibylur

Flytjandi: Hildur Vala

Lag: Hildur Vala og Jón Ólafsson

Texti: Bragi Valdimar Skúlason

Hildi Völu þekkja margir eftir að hún vann aðra þáttaröðina af Idol Stjörnuleit fyrir hartnær 15 árum. Idol færði henni ekki bara frægð og frama heldur einnig eiginmanninn, Jón Ólafsson tónlistarmann, sem hún semur einmitt lagið Fellibylur með. Hildur Vala hefur gefið út þrjár sólóplötur og brallað ýmislegt annað; lært til kennara, tekið þátt í rokksumarbúðunum Stelpur rokka!, setið í stjórn Kítón, stundað nám við FÍH, átt þrjú börn og spilað fótbolta með FC Ógn. Í kynningarþætti RÚV kom fram hjá Hildi Völu og Jóni að Eurovision væri eins og að keppa á Ólympíuleikunum því nánast ómögulegt væri að semja lag á þremur mínútum. Þau voru sammála um að keppnin hefði breyst mikið síðustu ár og orðið fjölbreyttari með sigri Salvador Sobral 2017 og þátttöku Hatara í Eurovision. Út er komið myndband við lagið Fellibyl eftir Blair Alexander Massie.

Oculis Videre

Flytjandi: Iva

Lag: Íva Marín Adrichem og Richard Cameron

Texti: Íva Marín Adrichem og Richard Cameron

Íva Marín er nýliði í Söngvakeppninni en einhverjir gætu kannast við hana úr Söngkeppni framhaldsskólanna 2015 og sem þátttakanda í The Voice 2016. Hún er 21 árs og hefur lært klassískan söng frá unga aldri og stundar nú nám við listaháskóla í Rotterdam. Ættarnafnið Adrichem kemur frá hollenskum föður Ívu. Íva Marín, sem hefur verið blind frá fæðingu, brýtur niður ákveðna múra í Söngvakeppninni með þátttöku sinni því við munum ekki til þess að keppandi með fötlun hafi tekið þátt áður. Íva er ekki bara liðtæk í söng heldur einnig píanóleik, skíðaiðkun, sundi, tekið þátt í uppsetningu tveggja óperusýninga, er mikill Eurovision aðdáandi og var virk í réttindabaráttu fatlað fólks en hefur fjarlægst hana nú. Hún stefnir á nám í lögfræði eftir söngprófið. Bein þýðing á Oculis Videre er “augað sér” og að sögn Ívu lýsir það laginu vel. Það fjallar um spákonu sem er blanda af hinni íslensku völvu og grískri gyðju, sjáanda og gyðju réttlætis, sem spáir svartri sýn fyrir mannkyni nema við leyfum ást og kærleik að blómstra.

Dreyma

Flytjandi: Matti Matt

Lag: Birgir Steinn Stefánsson og Ragnar Már Jónsson

Texti: Matthías Matthíason

Dalvíkingurinn og Dúndurfréttameðlimurinn Matthías Matthíasson er Eurovision aðdáendum vel kunnugur sem einn af Vinum Sjonnna sem keppti í Dusseldörf 2011 með lagið Coming Home. Matti er heldur enginn nýgræðingur þegar kemur að Söngvakeppninni. Hann tók þátt 2006 þegar Söngvakeppnin hafði viðskeytið “sjónvarpsins” með lagið Sést það ekki á mér? en það komst ekki í úrslit það ár. Matti tók þátt strax árið eftir með lagið Húsin hafa augu og komst í úrslit. Matti reyndi sig í þriðja skiptið í Söngvakeppninni 2010 með sitt eigið lag Out of Sight sem einnig komst í úrslit. Árið 2011 var hann aftur mættur með sitt eigið lag og Erlu Bjargar Káradóttur, hið goðsagnakennda Eldgos. Júbb, það komst líka í úrslit Söngvakeppninnar það ár!

Matta Matt er margt til lista lagt og fyrir þessa yfirferð komumst við að því að hann er söngrödd Íþróttaálfsins í Latabæ. Þetta er annað af tveimur lögum Birgis Steins og Ragnars Más í keppninni í ár en þeir eru einnig höfundar lagsins Klukkan tifar í fyrri undankeppninni.

Ekkó (Echo)

Flytjandi: Nína

Lag: Þórhallur Halldórsson og Sanna Martinez

Texti: Þórhallur Halldórsson og Einar Bárðarson

Nína Dagbjört Helgadóttir er nýútskrifuð úr framhaldsskóla en hefur spreytt sig í hinum ýmsum söngkeppnum eins og Jólastjörnunni, Vælinu í Versló, Jarminu í FG og söngkeppni framhaldsskólanna 2018. Eurovision aðdáendur hafa eflaust gaman af því að vita að Nína er dóttir Rúnu Stefánsdóttur sem söng bakraddir fyrir Selmu í All Out of Luck 1999. Rúna er einmitt í bakraddateymi Nínu fyrir Söngvakeppnina í ár. Í fyrra gaf Nína út lagið Prove It með Javi Valiño og ThomDary svo Söngvakeppnin er eflaust góður stökkpallur fyrir þessa fínu söngkonu. Textahöfundinn Einar Bárðason þarf vart að kynna enda maðurinn á bak við Angel sem keppti fyrir Íslands hönd í Kaupmannahöfn 2001.

 

Allar myndir frá ruv.is.