Finnland: The Rasmus komin úr skugganum og inn í júróbúbbluna


Undankeppni Finna fyrir Eurovision, Uuden Musiikin Kilpailu 2022 eða UMK, fór fram á laugardagskvöldið. Það voru engar forkeppnir, aðeins eitt kvöld og sjö lög kepptu til úrslita um miðann á stóru keppnina í Tórínó. Hljómsveitin Blind Channel opnaði keppnina með trukki og dýfu. Þeir fluttu lagið Dark Side sem þeir fóru með til Rotterdam í fyrra og frumfluttu svo í sjónvarpi lagið Bad Idea sem kom út í vikunni. Hljómsveitin varð í 6. sæti í Eurovision í fyrra, jafnaði þar með næstbesta árangur Finnlands í keppninni frá upphafi og náði næstbesta árangri í símakosningu frá upphafi, en þar urðu þeir í fjórða sæti. Úrslit UMK réðust í símakosningu sem gilti 75% á móti alþjóðlegum dómnefndum sjö Evrópulanda, sem gilti 25%.

Niðurstaða kvöldsins var að í þriðja sæti varð söngkona sem kallar sig BESS með lagið Ram Pam Pam. Lagið samdi hún ásamt Jonasi Olsson og Tomi Saario. Lagið fjallar um að fólk þurfi frelsi til að lifa lífinu eins og það kýs. BESS er ung að árum og gaf út fyrstu plötuna sína árið 2019 sem hefur verið vel tekið. Margir töldu hana sigurstranglega í UMK í ár.

En rokkið hafði betur eins og stundum áður í þúsund vatna landinu, þar sem flestar rokksveitir eru miðað við höfðatöluna frægu. Í öðru sæti varð rokkbandið Cyan Kicks. Lagið þeirra heitir Hurricane og er tónlist bandsins einstök blanda nútímarokks. Meðlimir sveitarinnar eru Susanna Alexandra, Niila Perkkiö, Leevi Erkkilä og Pietari Reijonen. Sveitin hefur verið starfandi síðan árið 2016 og gefið út tvær stúdíóplötur á ferlinum.

Það var annað rokkband sem sigraði og það ansi örugglega; hljómsveitin The Rasmus með lagið um Jezebel. Sveitin er sannarlega vel reynd og þekkt, hefur verið starfandi síðan árið 1994 eða í 28 ár. Árið 2003 gaf bandið út lagið In the Shadows sem varð svokallaður „monsterhittari“ eða kannski „skrímslasmellur“ um allan heim og er þeirra frægasta lag. Fyrir sveitinni fer söngvarinn Lauri Ylönen. Mannabreytingar hafa orðið á bandinu í gegnum árin en í dag eru aðrir meðlimir Eero Heinonen, Aki Hakala og Emilia Suhonen. Emilia er nýjasti meðlimur sveitarinnar, gekk í bandið á síðasta ári. Hún er fædd árið 1985 en strákarnir eru allir fæddir árið 1979.

Eins og þekkt er unnu Finnar Eurovisionkeppnina með rokklagi árið 2006 þegar rokksveitin Lordi sigraði með laginu Hard Rock Hallelujah. Þetta er fimmta rokklagið sem Finnar senda í Eurovision eftir það, en þau eru samt ansi ólík. Jezebel telst líklega helst til glysrokks og er það fyrsta af þessum rokklögum sem fjallar um ástina jafnvel þótt litið sé á það í ansi víðum skilningi. Tilurð lagsins má trúlega rekja til þess að söngvarinn Lauri hafi fengið í sig Euro-Veiruna eftir góðan árangur Finna í Eurovision í fyrra. Strax í byrjun júní var hann búinn að gefa út eigin útgáfu af Dark Side og fékk söngvara Blind Channel, Niko Moilanen og Joel Hokka til aðstoðar við flutninginn. Í framhaldinu fékk hann hugmynd að því að senda sjálfur lag í UMK. Lauri er búsettur á Hawaii og lagði á sig langt ferðalag til annarrar eyju, hinnar grísku Santorini þar sem hann hitti fyrir vin sinn Desmond Child. Saman sömdu þeir lagið þar. Desmond Child er heimsþekktur lagahöfundur, hefur meðal annars samið lög fyrir Aerosmith, Alice Cooper, Bon Jovi, Kiss og Eurovisionstjörnuna Bonnie Tyler. Hann samdi einmitt Eurovisionlagið hennar Believe in Me sem hún flutti fyrir hönd Bretlands árið 2013.

Tvö rokklög kepptu í Eurovision í  fyrra og náðu mjög góðum árangri. Jezebel er þriðja rokklagið sem er valið inn í Eurovisionkeppnina í ár þannig að þau er orðin fleiri en í fyrra. Áður voru komin rokklög frá Búlgaríu og San Marínó. Það verður spennandi að sjá í maí hvort Evrópubúar eru jafn þyrstir í rokk í ár eins og í fyrra.