Akkiles á hælum ljáir San Marínó rödd sína


Það blása ferskir vindar um brattar hlíðar smáríkisins San Marínó um þessar mundir en þar var nú haldin í fyrsta sinn keppnin Una voce per San Marino (Rödd fyrir San Marínó). Þótt útlitsleg umgjörð keppninnar hafi verið nokkuð einföld er óhætt að segja að um sérstaklega metnaðarfulla og ítarlega leit að fulltrúa hafi verið að ræða og lauk henni þann 19. febrúar með því að ítalska ungstirnið Achille Lauro sigraði með laginu Stripper.

Það voru margar vörður á leiðinni og miðað við höfðatölu hafa líklega aldrei komið fleiri að borðinu þegar fulltrúi þjóðar er valinn fyrir Eurovision; á þriðja hundrað fóru í áheyrnarprufur og keppendur urðu á endanum 76.

San Marinóbúar hafa lært ýmislegt af stóru frænku sinni, hinni ítölsku Sanremo, t.d. listina að teygja lopann en einnig að skipta keppendum í flokka nýrra og upprennandi listamanna (Emergin Artists) annars vegar og vel þekktra listamanna (Big) hins vegar. Þau gengu reyndar skrefinu lengra og voru með sérstakt undanúrslitakvöld fyrir innfædda, en þeir voru einungis 6 af 66 í hópi nýrra og upprennandi listamanna. Hinir voru langflestir frá Ítalíu en einnig komu við sögu keppendur frá Bretlandi, Frakklandi, Tékklandi, Portúgal, Brasilíu, Möltu, Þýskalandi og Noregi. Eftir röð undanúrslitakvölda fengu nýir og upprennandi listamenn 9 pláss í úrslitum á móti 9 lengra komnum listamönnum.

Á meðal stórfiskanna sem fengu að synda í litlu sanmarínósku tjörninni voru stjörnur á borð við Ivana Spagna sem best er þekkt fyrir smellinn Call Me frá 1987. Á Íslandi þekkja þó flestir betur lagið Gente Come Noi sem hún keppti með í Sanremo árið 1995 en hefur hlotið titilinn Þú og ég og jól í meðförum Svölu Björgvins. Annar keppandi var svo Valerio Scanu sem sigraði Sanremo árið 2010. Hljómsveitin Miodio, fyrsti fulltrúi San Marínó í Eurovision árið 2008, tók einnig þátt en þó ekki í framlínu heldur sem sem undirleikarar fyrir flytjendurna Fabry & Labriuese. Líkt og Spagna og Scanu er sigurvegarinn sjálfur, Achille Lauro, ekki alls ókunnur Sanremo en hann keppti í þeirri keppni í þriðja sinn nú í byrjun febrúar, með laginu Domenica. Hann hefur reyndar aldrei komist nálægt því að sigra þá keppni en nýtur þó töluverðra vinsælda í heimalandinu.

Úrslit voru ákvörðurð af fimm manna dómnefnd, en í henni sat meðal annars Susann Georgi sem var fulltrúi Andorra í Eurovision árið 2009. Hún var langt í frá eini engill gamalla Eurovision-keppna sem sveif yfir vötnum. Al Bano, fulltrúi Ítalíu árin 1976 og 1985, tróð upp og flutti meðal annars lag sitt Ci Sará, sem Íslendingar þekkja betur í flutningi Höllu Margrétar og Eiríks Haukssonar sem jólalagið Þú og ég. Valentina Monetta, fulltrúi San Marínó 2012, 2013, 2014 og 2017 tók einnig lagið, sem og Senhit, fulltrúi San Marínó 2011 og 2021 (og ætlaður fulltrui 2020), sem jafnframt var kynnir.

Töluverð óreiða einkenndi lokamínútur keppninnar og ekki laust við að hugurinn reikaði til ársins 1991 þegar Eurovision-keppnin var haldin í Róm með eftirminnilega klaufalegum hætti. Þeir sem höfðu hafnað í efstu þremur sætunum og komust á verðlaunapall voru kallaðir á svið en þar á meðal var Bretinn Aaron Sibley, sem skildi hvorki upp né niður þegar nafn hans var kallað upp. Kann hann að hafa trúað því í stundarkorn að hann hafi sigrað en meðkeppandi hans bjargaði málunum með því að útskýra að hann hefði lent í þriðja sæti með því að sýna honum þrjá fingur. Tvíeykið Burak Yeter og Alessandro lentu svo í öðru sæti og spár veðbanka um sigur Achille Lauro rættust.

Í sigurlaginu Stripper kveður við nokkuð kunnuglegan tón og margt við lagið og flytjendurna leiðir hugann að krúnuberunum í Måneskin, en yfirbragð Achille og lagsins hans er þó glysgjarnara, litríkara og léttara. Ekta glamrokk og háhælaðir herraskór greinilega ekki á leið úr Eurovision enn sem komið er.

San Marínó tekur þátt í Eurovision í þrettánda sinn í ár en þetta er þó einungis í fjórða sinn sem Valentina Monetta, Senhit eða Serhat verða ekki á meðal flytjenda. Landið hefur þrisvar sinnum komist í úrslit en þeir sem elska ítalska Eurovision-tónlist hljóta að vona að nýsýndur áhugi ítalskra stjarna gefi fyrirheit um að héðan í frá verði San Marínó eins og Kýpur fyrir grískar stjörnur – hjáleið að besta giggi í Evrópu!

Hér má horfa á úrslitakeppnina í heild sinni.