Hugljúf og sakbitin sæla frá Króatíu


Undankeppni Króata, Dora, fór fram í fjórða sinn þann 19. febrúar. Það var Mia Dimšić sem bar sigur úr býtum með laginu Guilty Pleasure. Um eins kvölds viðburð var að ræða þar sem 14 lög kepptu til sigurs en þau höfðu verið valin úr hópi 184 innsendra framlaga. Umgjörðin var hin glæsilegasta og gekk framleiðendum HRT vel að bæta upp fyrir skort á áhorfendum, en salurinn var tómur í boði Covid-19.

Fyrirkomulagið var auðskiljanlegt og aðgengilegt fyrir erlenda áhorfendur þar sem stuðst var við Eurovision-formúluna; 50% dómnefndir og 50% símakosningu. Dómnefndirnar voru 10 og var hver og ein fulltrúi ákveðins landsvæðis. Úrslitin voru jafnframt kynnt með þeim hætti sem við þekkjum úr Eurovision, það er að segja fyrst hlýtt á dómnefndir og síðar stig úr símakosningu þar sem byrjað var á þeim sem fæst stig fékk frá dómnefndinni og svo koll af kolli. Það var því ekki fyrr en í blálokin sem hægt var að slá því föstu að Mia Dimšić bæri sigur úr býtum, þó svo að hún hafi vissulega sigrað örugglega; fékk 257 stig en sá næsti á eftir 179.

Mia þessi er 29 ára gömul og nýtur nokkurra vinsælda í heimalandinu. Átti hún meðal annars mest seldu innlendu plötu ársins 2021 í Króatíu og hefur unnið til ýmissa tónlistarverðlauna.

Í öðru sæti lenti hinn 18 ára Marko Bošnjak sem söng á frummálinu og hefði eflaust verið uppáhaldskandídat þeirra ófáu Eurovision-aðdáenda sem haldnir eru blæti fyrir Balkanballöðum, þótt nútímaleg væri.

Í þriðja sæti var svo önnur Mia með eftirnafnið Negovetić sem ballöðuna Forgive Me (Oprosti) sem mestmegnis er sungin á ensku, að orðinu oprosti aðskildu.

Það væri synd að segja að kvöldið hafi verið Eurovision-stjörnum stráð og fáar auðsjáanlegar tengingar við fortíð Króatíu í keppninni. HRT bætti þó vel upp fyrir það með einkar glæsilegri syrpu með fyrri framlögum Króatiu í flutningi tveggja fyrrum fulltrúa þjóðarinnar; Franka (Crazy – 2018) og  Albina Grčić (Tick-Tock 2021)

Króatía keppir nú í 28. sinn í Eurovision en hefur samkvæmt flestum mælikvörðum gengið allbrösulega, í það minnsta á þessari öld. Þau náðu 4. sæti árin 1996 (Sveta ljubav) og 1999 (Marija Magdalena) og því 5. árið 1998 (Neka mi ne svane) og svo 9. sæti árið 2000. Síðan þá hafa þau aldrei náð í topp 10 og einungis tvisvar náð í úrslit síðasta áratuginn. Þetta svekkelsi kann að hafa átt sinn þátt í því að landið tók sér tveggja ára hlé frá keppninni árin 2014 og 2015. Með hagsmuni Eurovision-aðdáenda í huga skulum við því vona að Króatir gangi sáttir frá borði í ár svo við þurfum ekki að horfa á eftir þeim á ný!

Hér má sjá keppnina í heild sinni.