Gáfnarokk með 80´s ívafi frá Búlgaríu.


Það er nokkuð ljóst að rokkið deyr aldrei eins og Måneskin og Blind Channel sýndu og sönnuðu í fyrra. Og eins og alltaf, þegar ákveðin tónlistartegund vinnur Eurovision, er alltaf slangur af lögum í sama stíl árið eftir. Búlgarir ætla allavega að reyna að feta í fótspor sigurvegarana í fyrra og mæta með grjóthart og strangheiðarlegt glamrokk með sterka skírskotun í áttubönd eins og Poison, Halloween og Skid Row. Dömur mínar og herrar, hér koma Intelligent Music Project og lagið “Intention”.

Tékkar voru með fyrstu forkeppnina en Búlgaría var fyrst á svæðið með lag og flytjendur. Tilkynningin um að Intelligent Music Project hefði verið valin innbyrðis af búlgarska sjónvarpinu kom 5. desember síðastliðinn og myndu þau flytja rokkslagarann “Intention” í Torino í maí. Alltaf gott að vera fyrstur á staðinn og merkja sér svæði, ekki satt?  Hér er sannkölluð súpergrúppa á ferðinni en hún er skipuð hvorki meira né minna en níu manns, sem öll eru vel þekkt og vinsælt tónlistarfólk í Búlgaríu. Þeirra á meðal er trommuséníið Stoyan Yankulov, en hann þekkja júróaðdáendur vel. Hann hefur tvisvar sinnum keppt í Eurovision árin 2007 og 2013, en í bæði skiptin var hann með fyrrum eiginkonu sinni Elitsu Todorova og fluttu þau lögin “Voda” annarsvegar 2007 og lentu í 4. sæti og hinsvegar “Shamo Shampioni” árið 2013, en þá komust þau ekki í aðalkeppnina. Stoyan þekkir því vel hvernig það er að keppa í Eurovision.

Intelligent Music Project eru engir byrjendur í faginu, en þau hafa nú þegar gefið út 6 plötur og unnið náið með ótrúlegum fjölda alþjóðlegra listamanna á borð við John Lawton úr Uriah Heep, Todd Sucherman úr Styx og Bobby Rondinelli úr Black Sabbath. Þau fá eflaust ekki stjörnuryk í augun við að hitta Måneskin, það er nokkuð ljóst. Og talandi um alþjóðlega listamenn. Núverandi forsprakki sveitarinnar, Ronnie Romero, er fæddur og uppalinn í Chile og státar af nokkuð tilkomumiklum ferli sjálfur. Hann hafði áður unnið með Intelligent Music Project á einni af plötum þeirra en núna ætlar hann að fylgja sveitinni alla leið til Torino, og er það vel. Hann fær allavega pottþétt að standa á sviðinu, en þar sem meðlimir sveitarinnnar eru níu talsins, verða þrír þeirra að bíða baksviðs því ekki mega vera nema sex manns á sviðinu í einu samkvæmt reglum EBU. Þau hljóta að redda því í góðu tómi.

Eins og áður sagði, er “Intention” grjótharður rokkslagari af gamla skólanum og fjallar texti lagsins í grunninn um þetta daglega amstur sem getur valdið streitu hjá besta fólki, og hvernig hægt er að takast á við þessa streitu og lífsins hindranir svona almennt. Við getum nú öll tengt við þetta! Það er gaman að segja frá því, að þó að lagið heiti “Intention”, kemur það orð aðeins einu sinni fram í textanum, en orðin “Safety Zone” koma fyrir aftur og aftur, og því nefna aðdáendur lagið oftast “Safety Zone”. Skiptir ekki nokkru máli svo sem, en þetta var bara gagnslausa staðreynd dagsins. En hvað sem  þið kjósið að nefna lagið, þá er þessi fjölþjóðlega rokksveit á leiðinni til Torino, hvað sem tautar og raular. Er því ekki bara málið að skella á sig smá glimmermaskara, blása hárið í anda Skid Row og njóta búlgarsks áttuslagara af bestu gerð? Við hefðum nú haldið það!