Leyndó! – Ronela Hajati til Torino með “Sekret” fyrir Albaníu.


Venjulega koma Albanir með jólin til júróþyrstra aðdáenda á vesturhvelinu, en það bar til um þessar mundir að albanska sjónvarpið ákvað að halda Festival i Kenges, eða FiK eins og við þekkjum hana, þann 28. desember, en ekki daginn fyrir Þorlák eins og undanfarin ár. Allt í lagi, við erum alveg róleg. Fínt að fá smá nýárskeppni í staðinn. En auðvitað var öllu til tjaldað í Tirana, eins og vanalega, og það var boðið upp á dásamlega glamúrkeppni af bestu gerð. 17 lög stóðu eftir á lokakvöldinu, eftir tvær undankeppnir og að lokum var það söngkonan Ronela Hajati sem söng sig til sigurs með laginu “Sekret”.

Albanía hefur svo sannarlega stimplað sig rækilega inn í hjörtu Evrópubúa síðan þeir mættu með krúttmonsuna Anjezu Shahini til Istanbul 2004 og sigldu seglum þöndum rakleiðis í 7. sætið. Síðan þá hefur saga þeirra í Eurovision vissulega verið þyrnum stráð en alltaf hafa Albanir haldið sínum sérkennum og verið duglegir við að krydda lögin sín með mismunandi kryddum. En eitt er þó alveg víst. Þessi litla Balkan-þjóð ELSKAR dívurnar sínar af ástríðu og það er sko ekkert glerþak í Albaníu þegar kemur að því að velja listafólk til keppni, en af 18 framlögum þeirra, hafa 14 þeirra verið flutt af kraftmiklum og raddsterkum söngkonum þar sem dramað er á yfirsnúningi. Já… takk!

Söngkona ársins er engin undantekning, því hún er svo sannarlega kraftdíva af bestu gerð. Hún heitir Ronela Hajati og er 32 ára gömul. Hún er fædd og uppalin í Tirana og meðfram söngnum hefur hún starfað sem afkastamikill lagahöfundur og dansari. Ronela er sjálf ein af höfundum “Sekret” sem er algjör sprengja. Glöggir júróspekúlantar hafa líkt því við “Wild Dances” og ekki að furða, því það er keyrsla frá byrjun til enda með sterkum þjóðlegum áhrifum í bland við nútíma teknótakta. Lagið er á albönsku enn sem komið er en Ronela segir mjög líklegt að einhverjar smávægilegar breytingar verði gerðar á textanum, og jafnvel að einhver hluti lagsins verði á ensku. Hún segist alltaf semja allt sitt efni á ensku, og “Sekret” er þar engin undantekning. En hún fullvissar okkur um að lagið muni einungis innihalda brot af textanum á ensku, og það muni alls ekki tapa sjarmanum sem kom laginu í fyrsta sæti í FiK.

Ronela er einstaklega fjölhæf listakona og ef rennt er yfir feril hennar má sjá að hún er óhrædd við að prófa nýja hluti og nýjar nálganir í listsköpun sinni. Það er ekkert sem hræðir hana í þeim efnum. Einnig er hún mikil og góð talskona fyrir jákvæðri líkamsímynd og lætur fátt hagga sér, þar með talið frægðina. “Ég vil ekki verða einhver súperstjarna. Ég vil fyrst og fremst vera hér fyrir fólkið og gera það sem mér lætur best. Án fólksins er listamaður einskis virði” segir hún. Ronela er lítið milli tannana á albönsku slúðurpressunni enda mjög vör um sig og sitt einkalíf. En í texta “Sekret” lofar hún að létta aðeins leyndinni… fyrir réttan aðila auðvitað. En ekki hvað. Það verður því albönsk loftárás að vanda, sem mun láta allt flakka í Torino, og satt að segja erum við hér alveg hrikalega spennt fyrir Ronelu og “Sekret”.