Chanel með SloMo danssmell fyrir Spán


Söngvakeppnin Benidorm Song Festival fór fram árlega með nokkrum undantekningum árin 1959-2006. Nú var ákveðið að endurvekja þessa keppni í samtarfi við spænska ríkissjónvarpið, RTVE, og nota hana til að velja Eurovisionlag Spánverja árið 2022. Alls kepptu þrettán lög til úrslita. Fjórtán lög voru reyndar valin í upphafi en eitt datt út. Tvær undankeppnir fóru fram í síðastliðinni viku. Á miðvikudagskvöldið kepptu sex lög og á fimmtudagskvöld kepptu sjö lög. Fjögur lög komust áfram hvort kvöld og kepptu því átta lög til úrslita í gærkvöldi, laugardagskvöldið 29. janúar.

Meðal keppanda á miðvikudagskvöldið var dúettinn Azúcar Moreno, en þær voru fulltrúar Spánar í Eurovision árið 1990 með lagið Bandido. Þær komust því miður ekki áfram og voru margir gamlir aðdáaendur þeirra sárir og svekktir yfir því.

Kosningakerfið var að þessu sinni í fjórum hlutum. Spænsk dómnefnd hafði 30% vægi og var hún skipuð þremur innlendum fagaðilum. Alþjóðleg dómnefnd hafði 20% vægi og var skipuð Martin Dietmann, sem er listrænn stjórnandi, og engum öðrum en Felix okkar Bergssyni, fararstjóra íslenska Eurovisionhópsins. Atkvæði þessara tveggja dómnefnda voru svo gefin upp í einu lagi undir atkvæðum fagdómnefndar. Einn fjórði af atkvæðunum kom frá lýðfræðilegri dómnefnd, skipuð 350 Spánverjum sem áttu að endurspegla spænskt samfélag. Síðasti fjórðungur atkvæða kom svo úr símakosningu.

Keppnin var stórglæsileg. Það var Pastora Soler sem opnaði kvöldið en hún söng lagið Quédate Conmigo í Eurovision fyrir 10 árum og endaði í 10. sæti. Hún flutti það lag ásamt Que hablen de mi. Einnig komu fram Mocadedes-hópurinn sem varð í 2. sæti 1973 og Blas Cantó sem keppti fyrir Spán í fyrra. Þetta var allt til viðbótar við stjörnum prýdd undanúrslitakvöld en Salvodor Sobral kom fram í fyrri undankeppninni og Ruth Lorenzo í þeirri síðari.

Mikil spenna lá í loftinu þegar nær dró úrslitum. Í þriðja sæti endaði tríóið Tanxugueiras sem kemur frá Gaicia sem er norð-vestast á Spáni. Tríóið skipa Aida Tarrío og tvíburasysturnar Olaia og Sabela Maneiro. Lagið heitir Terra og var atriðið þeirra í þjóðlegum stíl. Þetta atriði fékk í heildina 90 stig og var efst bæði hjá lýðfræðilegri dómnefnd og í símakosningunni.

Einu stigi meira eða 91 hlaut Rigoberta Bandini með lagið Ay Mamá. Rigoberta er söng- og leikkona og kemur frá Barcelona. Atriðið fjallar á afar listrænan og leikrænan hátt um móðurhlutverkið. Sjálf eignaðist Rigoberta sitt fyrsta barn í júní 2020.

En það var Chanel Terrero sem fór með sigur af hólmi. Hún söng lagið SloMo og vann með alls 96 stig og var í efsta sæti hjá fagdómnefnd. Chanel er fædd á Havana á Kúbu árið 1991 en fluttist til Katalóníu á Spáni þegar hún var þriggja ára. Chanel starfar sem söngkona, dansari og leikkona og nýtir hún það sannarlega allt í atriðinu. Hér er um að ræða ekta latínó-danssmell sem hægt er að dilla sér við með hækkandi sól. Eins og svo mörg nútíma Eurovisionlög er teymi á bak við það, en lagið er eftir Arjen Thonen, Ibere Fortes, Leroy Sanchez, Maggie Szabo og Keith Harris sem er líka framleiðandi lagsins.

Spánverjum hefur ekki gengið vel í Eurovision síðastliðin ár. Ruth Lorezo varð í 10. sæti árið 2014 með lagið Dancing in the Rain. Síðan þá hafa Spánverjar endað í neðstu sætum, eða 21-26. Blas Cantó var einn af fjórum flytjendum sem fékk eftirminnilega núll stig í símakosningunni í fyrra. Nú er að sjá  hvort Chanel haldi Spánverjum frá botninum í ár.