Tékkland ríður á vaðið með We Are Domi og laginu “Lights Off”.


Ó, elsku Júróárið er LOKSINS runnið upp með öllum sínum dásamlegu viðburðum og nýjum lögum í minningarbankana okkar. Keppnin í Rotterdam fór fram úr okkar björtustu vonum (svona að mestu leyti) því Ísland náði 4. sæti og við erum á leiðinni til Ítalíu. En nýtt ár, ný lög og aldrei þessu vant voru það ekki Albanir sem hringdu inn jólin með fyrstu forkeppninni. Það voru Tékkar. Tékkið á því, haha…

Tékkland er eitt af nýrri viðbótum við keppnina, en þeir áttu fyrst leik árið 2007 í Helsinki. Ekki riðu þeir feitum hesti frá þeirri keppni, því þeir fengu heil núll stig úr símakosningu. Ekki gekk þeim mikið betur næstu tvö árin á eftir og tókst ekki að komast í aðalkeppnina. Frá 2010 til 2014 tóku Tékkar sér því pásu frá keppninni og endurhugsuðu strategíuna frá A-Ö. Eftir endurkomu þeirra 2015, hafa þeir þrisvar sinnum komist í aðalkeppnina og var besti árangur þeirra 2018, þegar bakflippsspaðinn Mikolas Josef landaði 6. sætinu með bravúr.

ESCZ, fyrsta forkeppni júróvertíðarinnar fór fram á netinu frá 7.-15. desember, og var sigurvegarinn kynntur þann 16. desember. Það var rafpopptríóið We Are Domi, sem fóru með sigur úr býtum, en stigagjöfin skiptist í 50% vægi alþjóðlegrar dómnefndar og alþjóðleg aðdáendakosning og tékknesk aðdáendakosning höfðu 25% vægi hvor um sig. We Are Domi unnu báðar alþjóðlegu kosningarnar og voru í 3. sæti hjá löndum sínum, unnu öruggan sigur og munu vera flaggskip Tékklands í Torino.

Hljómsveitin er samevrópskt samstarf, en hana skipa tékkneska söngkonan Dominika Hasková og Norðmennirnir Casper Hatlestad og Benjamin Rekstad. Krakkarnir hittust þegar þau voru öll nemar við Leeds College of Music árið 2018, og stofnuðu sveitina fljótlega upp úr því. Þau eru kannski ekki mjög þekkt í Evrópu ennþá, en við vitum nú öll að Eurovision getur verið heljarinnar stökkpallur fyrir listamennina. Allavega þurfa Måneskin, ABBA, Daði Freyr og Celine Dion, svo dæmi séu tekin, ekki að vera á atvinnuleysisbótum. Því er alveg líklegt að We Are Domi séu komin hingað til að vera, enda gera þau dansvæna, taktfasta og nútímalega tónlist sem smellpassar inn í klúbbasenuna… þegar við megum fara á klúbbana…

“Lights Off” fjallar að sjálfsögðu um ástina, eða öllu heldur það sem gerist þegar ástin er búin og annar aðilinn er einfaldlega skilinn eftir með sársaukann og hvernig honum/henni/hán reiðir af eftir sambandsslitin. Lagið sjálft er þvottekta rafpopp með smá teknóívafi og það er greinilegt að tríóið skemmtir sér konunglega á sviðinu, og eflaust utan þess líka. Sviðsmyndin þeirra í Prag var einföld en áhrifarík, og spurning hvort þau haldi henni eða útfæri eitthvað svaðalega flott í anda Eurovision. Það verður gaman að fylgjast  með og við hlökkum til að sjá We Are Domi rúlla upp ítalska sviðinu þegar þar að kemur.