Þau keppa í seinni undanúrslitum Söngvakeppninnar


Söngvakeppnin 2022 fór vel af stað síðasta laugardagskvöld í Söngvakeppnishöllinni í Gufunesi. RÚV hefur greinilega unnið stórvirki við að breyta gömlu áburðarverksmiðjunni, þar sem nú er kvikmyndaver RVK Studios, í eins og eitt stykki glamúrhöll með speglasviði. Stórglæsileg umgjörð! Á stokk stigu Amarosis, Stefán Óli, Haffi Haff, Stefanía Svavarsdóttir og Sigga, Beta og Elín. Í lok kvölds kom í ljós að áhorfendur höfðu kosið Stefán Óla og systurnar Siggu, Betu og Elínu áfram í úrslit Söngvakeppninnar sem fara fram 12. mars. En nú er komið að síðara undanúrslitakvöldi keppninnar og því ekki úr vegi að kynnast þessum sannkallaða kvennafans, með alþjóðlegu tvisti, sem keppir í kvöld.

Markéta Irglová syngur lagið Mögulegt (Possible) eftir hana sjálfa en texti er einnig eftir Sturla Mio Þórisson, eiginmann Markétu. Markéta er frá Tékklandi en hefur búið hér á landi um árabil. Hún er þekktust fyrir að hafa hlotið Óskarverðslaun og kvikmyndaverðlaun Sundance fyrir lagasmíðina Falling Slowly sem hún skrifaði með fyrrverandi manni sínum Glen Hansard. Lagið birtist í myndinni Once árið 2008. Markéta hefur sagt í viðtölum að hún hafi ekkert þekkt til Eurovision áður en hún flutti til Íslands 2012 en nú sé hún gjörsamlega komin á júrólestina með fjölskyldunni sinni. Maður hennar Sturla sagði að lagið Mögulegt hafa orðið til í einni atrennu hjá Markétu við píanó og markmiðið hafi verið að búa til lag sem allir gætu tengt við, ljós og hlýju.

Suncity (Sólborg Guðbrandsdóttir) og Sanna Martinez flytja lagið Hækkum í botn (Keep it cool) eftir Svein Rúnar Sigurðsson og Valgeir Magnússon en texti lagsins er eftir Valgeir og Davíð Guðbrandsson, bróður Sólborgar. Sólborg keppti 2018 í Söngvakeppninni með Tómasi Wehmeier, þar sem þau sungu lagið Ég og þú, en kannski muna einhverjir eftir henni sem hluti af bandinu White Signal sem var skemmtiatriði í Söngvakeppninni 2013. Sólborg er samt án vafa þekktust fyrir að halda út samfélagsmiðlareikningnum Fávitar, átaki gegn stafrænu og annars konar kynferðisofbeldi, hefur skrifað bækur um sama efni og nú er Fávitar orðið að sjónvarpsþætti sem sýndur er á Stöð 2 um þessar mundir. Sanna tók þátt í Söngvakeppninni 2020 sem lagahöfundur lagsins Echo sem Nína söng. Lesendur FÁSES þekkja að sjálfsögðu til Sveins Rúnars og Valgeirs frá fyrri aðkomu þeirra að Söngvakeppninni og Eurovisionframlögum Íslands. Valgeir er að sjálfsögðu þekktastur fyrir að hafa verið umboðsmaður margra Eurovisionstjarna eins og Heru Björk, Chiöru frá Möltu og Pollapönks. Sveinn Rúnar tekur aftur þátt í Söngvakeppninni eftir að hafa tekið sér leyfi árið 2020 en hann er ef til vill þekktastur fyrir að hafa samið Eurovisionframlögin Heaven, sem keppti 2004 í Istanbúl, og Valentine Lost sem keppti í Helsinki 2007. Lagið Hækkum í botn er nútímalegt danspopp og er um það hvernig þú átt að byrja samband á þínum forsendum. Þetta verður vafalaust spilað á Júróklúbbnum á Bryggunni eftir úrslitin 12. mars!

Reykjavíkurdætur syngja Tökum af stað (Turn This Around) eftir bandið sjálft. Dæturnar eru ef til þekktustu flytjendur Söngvakeppninnar í ár og löngu áður en keppendur voru kynntir voru komnar fram sögusagnir um þáttöku þeirra. Að eigin sögn hafa þeir verið á leiðinni að taka þátt í Söngvakeppninni í mörg ár en verið of uppteknar. Lagið þeirra Tökum af stað eða Turn This Around er femínistavænt danslag og óður gegn feðraveldinu eins og þeirra er einni lagið. Lagið var samið af þeim öllum saman með börnunum í kommúnu í einbýlishúsi í Vesturbænum. Miklar vangaveltur hafa verið yfir fjölda Reykjavíkurdætra, sem eru telja allt frá þremur til níu í hverri sviðsframkomu, og sex manna Eurovision reglunni. Okkur skilst að sex dætur muni koma fram í keppninni í kvöld en tvær verði á bakgrunnsskjám. Reykjavíkurdætur hafa gert geggjað myndband við lagið sitt sem við hvetjum ykkur til að kíkja á.

Katla Þórudóttir Njálsdóttir flytur lagið Þaðan af (Then Again) eftir Jóhannes Damian Patreksson, Kristin Óla S. Haraldsson, Hafstein Þráinsson og Snorra Beck en textinn er eftir Kristin Óla S. Haraldsson. Jóa P og Króla þarft vart að kynna fyrir lesendum en þess má geta að þeir áttu lagið Ævintýri í Söngvakeppninni 2020. Jói sagði í viðtali að lagið hafi byrjað sem popplag með miklu af teknó en varð síðar að dramatískri vonarballöðu – áhugavert tvist það. Katla er ekki bara hörku söngkona heldur líka leikkona og gætu einhverjir kannast við hana úr kvikmyndinni Hjartasteinn eða sjónvarpsþáttunum Fangar en þau Króli kynntust í leiksýningunni We will rock you í Háskólabíói og varð vel til vina eftir það.

Hanna Mia and The Astrotourists syngja lagið Séns með þér (Gemini) eftir Hönnu Miu Brekkan og Sakaris Emil Joensen en texti lagsins er eftir Nínu Richter. Hanna Mia er sænsk-íslenskur lagahöfundur og semur lagið Séns með þér með Sakaris Emil sem er frá Færeyjum. Hanna og Sakaris kynntust í Listaháskólanum og eftir útskrift 2020 stofnuðu þau lagahöfundaband sem semur lög fyrir aðra flytjendur. Lagið er sixtís sumarlag sem var samið sem brandari upphaflega en rennur nú ljúflega í gegnum vitund hlustenda. Hanna söng inn á demó lagsins því þau náðu ekki að taka upp söngkonuna sem ætlaði að flytja lagið. Eftir að hafa fengið símtal frá RÚV fimm dögum eftir fæðingu barns síns sló Hanna þó til vegna tímaskorts og mun standa á sviði Söngvakeppninnar með geimferðalöngunum sínum. Astrotourist bera með sér alþjóðlegan blæ því fimm mismunandi þjóðerni eru í atriðinu; báðar systur Hönnu en önnur er þýsk-íslensk og ein alsænsk, Sakari frá Færeyjum og svo kærasta hans frá Noregi.

Reglur Söngvakeppninnar kveða á um að lögin í undanúrslitum skuli flutt á íslensku en í úrslitum á því tungumáli sem til stendur að flytja það í Eurovision, sigri lagið Söngvakeppnina. Fyrirkomulagið í kvöld verður þannig að efstu tvö lögin í símakosningu fara í úrslitin 12. mars nk. Kynnar keppninnar eru Björg Magnúsdóttir, Jón Jónsson og Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir og við höfum heyrt að í kvöld muni m.a. GDRN koma fram. Í kvöld verður einnig tilkynnt ef framkvæmdastjórn Söngvakeppninnar ætlar að hleypa Einu lagi enn (wild card) áfram í úrslitin næsta laugardag.

Við mælum með að lesendur kíki á hlaðvarpið Með Söngvakeppnina á heilanum.