Maltnesk sjónhverfing til Tórínó


Það var ekki fyrir neina byrjendur að horfa á forval Maltverja, Malta Eurovision Song Contest, eða MESC eins og hún er oftast kölluð. Keppnin sú er sérstakt dæmi, því það virðist sem þetta sé bara rosalangur auglýsingatími sem gert er hlé á öðru hverju til að kynna lögin sem eru að keppa, og það verður að viðurkennast að fréttaritari var mjög oft skuggalega nálægt því að gefast upp og fara að sofa. En Maltverjar elska Eurovisionið sitt, alveg eins og við, og þeim er alltaf fúlasta alvara með þátttöku sinni í keppninni. Og í ár var engin breyting þar á, því þrátt fyrir mýgrút af auglýsingum um laserháreyðingu, kaffi og þvottaefni, þá splæsti maltneska sjónvarpið í bilaðslega flott show þar sem engu var til sparað til að gera það sem glæsilegast.

Malta: Emma Muscat to Eurovision 2022

22 lög hófu leik á fimmtudaginn og eftir sólarhringskosningu, stóðu 16 lög eftir, sem og einn svartipétur. Hann kom í hlut söngkonunnar Jessiku, sem við munum öll eftir síðan í Lissabon 2018, en þar keppti hún fyrir hönd San Marino, ásamt þýska rapparanum Jenifer Brening, með lagið “Who We Are”. Það framlag er kannski minnistæðast fyrir þær sakir að á sviðinu var vélmenni sem auglýsti líkamsvirðingu. En Jessika flutti lagið “Kaleidascope” og hafði því miður ekki erindi sem erfiði, þar sem hún vermdi botnsætið með aðeins eitt stig í lok kvöldsins. Baráttan stóð hins vegar milli söngkonunnar Emmu Muscat og söngvarans Aidans, en þegar samanlögð stig dómnefndar og almennings höfðu verið talin, var það Emma sem rúllaði dæminu endanlega upp með 92 stig, meðan að aumingja Aidan þurfti að láta sér lynda 72 stig og annað sætið.

Emma Muscat þarf ekki að ferðast langt, því þessi 22 ára gamla söngkona og fyrirsæta býr og starfar einmitt á Ítalíu. Þar hefur hún byggt upp ansi góðan feril, m.a. með þátttöku sinni í ítalska raunveruleika/söngþættinum Amici di Maria de Filippi, þar sem hún landaði 4. sætinu og samningi við Warner Music Italia.  Hún hefur sungið og starfað með ekki ómerkara fólki en Jason Derulo, Eros Ramazotti, Hailee Steinfeld og Bebe Rexha, og ætti Eurovision því ekki að vera neitt mál fyrir hana. Lagið “Out of Sight” er samið af Emmu sjálfri í samstarfi við fjóra ítalska lagahöfunda. Lagið er hin ágætasta poppballaða og ætti að skila Möltu nokkrum stigum í kassann. Það vakti mikla athygli að í lok lagsins, kemur lítil stúlka inn á sviðið sem á að vera einhverskonar yngri útgáfa af Emmu. Það er spurning hvort EBU leyfir það, þar sem aldurstakmarkið fyrir keppnina er 16 ár, hvort sem þú ert flytjandi eða ekki. Kemur allt í ljós þegar nær dregur. En Emma er klárlega á leiðinni til Tórínó, hvað sem tautar og raular, og er það vel.

Ferill Möltu í Eurovision hefur verið brokkgengur og skammt milli hláturs og gráturs, eins og hjá öðrum þjóðum. Þeir snéru aftur til keppni árið 1991 eftir 16 ára hlé, og hafa óslitið verið með okkur síðan. Líkt og okkur Íslendinga, ÞYRSTIR þá í sigur, og hafa nokkrum sinnum komist nálægt því, þó aldrei eins nálægt og 2002, þegar Ira Losco rétt svo missti af 1. sætinu á allra allra seinustu metrunum og þótti mörgum það miður. Ofurdívan Chiara landaði einnig 2. sætinu árið 2005 og hafði þá þegar eitt 3. sæti á ferilskránni. En jafnoft og Malta hefur verið í topp tíu, hafa þeir jafnoft setið eftir með sárt ennið, ekki síst í fyrra þegar elsku stelpan hún Destiny náði ekki að tryggja þjóð sinni sigur, þrátt fyrir blússandi gengi í veðbönkum og endaði í 7. sætinu. En nýtt ár og nýjar vonir, ekki satt? Emma er allavega tilbúin í slaginn.