Síðasta slóvenska pizzasneiðin til Tórínó


Slóvenar eru meðal þeirra sem þurfa að leggja fæsta kílómetra að baki á leið sinni til Tórínó, einungis eina landamærastöð. En hún var ekki endilega alveg eins greiðfær, slóvenska undankeppnin fyrir Eurovision, Evrovizijska Melodija eða EMA. Fyrst var nefnilega haldin keppnin EMA Freš til að velja fjóra nýliða til að keppa í EMA og var hún í gangi frá nóvember til janúar. Keppendur þar þurftu að vera undir þrítugu og með færri en þrjú útgefin lög undir beltinu. Sjálf undankeppnin, EMA, samanstóð síðan af tveimur undanúrslitakvöldum og einu úrslitakvöldi, sem voru allar haldnar í febrúarmánuði.

Úrslitakvöld EMA var haldið með pompi og prakt í gærkvöldi þar sem tólf keppendur stigu á stokk. Slóvenar hafa ekki riðið feitum hesti í Eurovision frá upphafi þáttöku sinnar árið 1993. Þeir hafa þó lent tvisvar sinnum í sjöunda sæti, 1995 og 2001. EMA keppnin hefur verið haldin síðan 1996 en eins og með Söngvakeppnina okkar tóku þeir sé frí í fyrra og völdu Ana Soklič beint til þáttöku í Rotterdam eftir hina alræmdu COVID aflýsingu Eurovision 2020 (sem við höfum ekki fyrirgefið!). Sigurvegari EMA er ákveðinn af dómnefndum sem hafa 50% vægi og símakosningu almennings sem hefur 50% vægi. Dómnefndin skiptist í fimm hópa og var þar að finna fulltrúa lagahöfunda, tónlistarflytjenda, útvarpsfólks og sjónvarpsfólks. Fimmti hluti dómnefndar var OGAE Slóvenía, systurklúbbur FÁSES, og kynnti Cvetko Miran, forseti slóvenska aðdáendaklúbbsins stig þeirra. Áfram Eurovisionaðdáendasamfélagið!

Tvítgárungar gáfu kynnum keppninnar ekki háa einkunn enda voru barnalegir brandarar víst ansi áberandi. En þá er nú stór kostur að skilja ekki tungumál þessara undankeppna sem Eurovisionaðdáendur eru sífellt að glápa á. Einn kynnanna, Bojan Cvjetićanin, átti þó að mati greinarhöfundar stórleik þegar hann, ásamt Eurovisionstjörnunni Amaya (Slóvenía 2011) söng sigurlag Eurovision í fyrra Zitti e buoni. Dæmi hver fyrir sig:

EMA keppnin í ár var ansi fjölbreytt. Þar var leðurklæddur feministi með girlpoweróð, fáguð sveit sígauna með hressandi dillilag og drengjadúettinn BQL sem lenti í þriðja sæti en lagið þeirra Maj var skrifað af góðkunningja Eurovision, Raay (Eurovision 2015). Batista Cadillac varð í öðru sæti með lagið Mim Pravil en sveitin vann dómnefndarkosninguna.

Það var svo bandið LPS sem er skammstöfun fyrir Last Pizza Slice, sem tók sigurinn með laginu Disko. Bandið var stofnað 2018 í menntaskóla bandmeðlima. Lagið, sem er blanda af einhvers konar þægilegu soulfunki með diskóívafi, er eftir bandið sjálft; Filip Vidušin, Žiga Žvižej, Gašper Hlupič, Mark Semeja og Zala Velenšek ásamt Jakob Korošec. LPS var einn þeirra flytjanda sem komu úr nýliðakeppninni EMA Freš, fóru þaðan í undankeppni EMA og rústuðu loks símakosningunni í úrslitunum og lentu í 2. sæti hjá dómnefndum. Vel gert hjá LPS og aðdáunarvert hjá slóvensku sjónvarpsstöðinni að hampa ungum og upprennandi tónlistarmönnum með sérstakri undankeppni fyrir söngvakeppnina sjálfa.

Með síðustu slóvensku pizzasneiðinni, lettneska salatinunorska bananalaginu og maltnesku söngkonunni sem ber eftirnafnið múskat verður ekki annað sagt en að það sé komið matarþema í Eurovision 2022. Við mælum ekki endilega með pizzu með salati, bönunum og múskati en bíðum spennt eftir fleiri áhugaverðum Eurovisionlögum!