Eistneskur hjartaknúsari vinnur Eesti Laul… enn og aftur


Eistar hafa valið sitt framlag til Eurovision 2022. Eftir að 40 lagaflytjendur komu sér í gegnum síu fjórðungsúrslita og undanúrslita voru það 10 lög sem flutt voru á sviði fyrir framan fullan sal af fólki 12. febrúar sl. en það hafði ekki verið leyft í undan- eða fjórðungsúrslitum. Dómnefnd skipuð 10 manns þar á meðal einum besta sigurvegara Eurovision sögunnar, Mr. Lordi, ásamt atkvæðum áhorfenda heima og í sal völdu þrjá keppendur áfram í lokaúrslitin þar sem símakosning réði úrslitum að fullu.

Margir voru um hitunina að komast áfram, þar á meðal margir sem áður höfðu unnið Eesti Laul og keppt fyrir hönd Eistlands í Eurovision, eins og Elina sem keppti 2018 í risakjólnum, hjartaknúsarinn Ott Lepland sem lenti í 6. sæti 2012, hinn afkastamikli Stig Rästa en auk þess að keppa fyrir Eistland 2015 með Elinu Born hefur hann líka verið lagahöfundur Eistlands í Eurovision 2016 og 2019. Og ekki má gleyma hinni sænsku Önnu Sahlene sem tók þátt fyrir hönd Eistlands 2002 og lenti í 3. sæti sem er annar besti árangur Eista í Eurovision nokkru sinni og það á heimavelli.

Þrátt fyrir alla þessa þekktu reynslubolta voru það þrír nýliðar sem komust áfram í lokaúrslitin. Elysa sem flutti heitt danspopplag í anda þeirra sem oft eru kölluð Fuegoklón eftir 2018 enda hét lagið hennar líka Fire og bauð upp á dillandi kroppa í eldglæringum á sviðinu.

Indípoppbandið MinimalWwind feat. Elisabeth Tiffany komst einnig áfram í úrslit mörgun að óvörum með hið afbragðs góða lag What to make of this. Hlutu þau meðal annars fullt hús stiga frá dómnefndinni.

En það var hinn eistnesk-armenski hjartaknúsari Stefan sem á endanum vann með yfirburðum og fékk tvöfalt fleiri atkvæði í símakosningunni en Minimal Wind feat. Elisabeth Tiffany sem lentu nokkuð örugglega í öðru sæti. Stefan hefur ekki áður unnið Eesti Laul en hann hefur svo sannarlega reynt það nokkrum sinnum. Hann tók fyrst þátt 2018 og komst áfram í lokaúrslitin en lenti í 3. sæti. Það sama gerðist 2019 en 2020 komst hann ekki einu sinni áfram í lokaúrslitin þannig að hann tók sér frí frá Eesti Laul í fyrra en kom sterkur til baka í ár með lagið Hope í flegnum bol og flexaði upphandleggsvöðvana enda Eistar ekki óvanir að velja hjartaknúsara sem sína flytjendur. Lagið er innblásið af bandarískri country tónlist og spagettívestrum og á sviðinu með honum voru tveir kúrekar í byssueinvígi. Mögulega í fyrsta sinn sem það mun sjást á Eurovisionsviðinu.