Allt er vænt sem vel er grænt – Djarfur óður til salatsins frá Lettlandi


Lettneska forkeppnin Supernova hefur löngum þótt vinsæl, enda hafa Lettar verið duglegir við að bjóða upp á fjölbreytta tónlist í forkeppni sinni, sem og á stóra Eurovision-sviðinu. Í ár var þar engin undantekning.

Í ár samanstóð Supernova af undanúrslitum og úrslitum, auk sérstakrar netkosningar þar sem kosið var á milli tíu atriða um eitt sæti í undanúrslitunum. Eftir skemmtilega keppni og spennandi kosningu var það bandið Citi Zēni sem stóð uppi sem sigurvegari með lagið „Eat your salad“, fönk-skotnum og taktföstum óði til heiðurs umhverfisvænum lífsstíl.

Áður en úrslitin áttu sér stað hafði dómnefnd valið inn 16 lög til keppni, ásamt því að netkosning skar úr um sautjánda lagið til að keppa í undanúrslitunum. Í netkosningunni var það emo-rokkarinn Miks Galvanovskis með lagið „I’m not a sinner” sem fékk flest atkvæði og fékk því farmiðann í undanúrslitin. Gerði hann reyndar gott betur og komst alla leið í úrslitin.

Í undanúrslitunum var keppt um þau tíu sæti sem í boði voru í úrslitunum. Nokkrum dögum eftir undanúrslitin tilkynnti lettneska sjónvarpið að einu atriði til viðbótar hefði verið boðin þátttaka í úrslitunum vegna tæknilegra örðugleika á meðan undanúrslitunum stóð.

11 atriði stigu því á svið í úrslitum Supernova sem haldin voru þann 12. febrúar. Á meðal keppenda var góðkunningi Eurovision, Aminata. Hún flutti framlag Letta árið 2015, „Love Injected”, samdi framlag þeirra árið 2016, „Heartbeat”, ásamt því að vera meðhöfundur Samöntu Tinu í lögum hennar 2020, „Still Breathing“, og 2021, „The Moon is Rising“. Aminata þurfti að þessu sinni að sætta sig við annað sætið með lagið „I’m Letting You Go”.

Supernova 2022: Aminata - "I'm Letting You Go"

Sigurlagið „Eat your salad“ vann þó með þó nokkrum yfirburðum, en það vann bæði símakosningu og dómarakosningu. Í símakosningu fékk lagið 50,566 stig, hvorki meira né minna en 11,642 stigum meira en lagið „He, She, You & Me“ sem endaði í öðru sæti símakosningarinnar með 38,924 stig.
Benda verður á þennan stórskemmtilega diskóskotna teknósmell með ívafi níunda áratugs síðustu aldar.

Dómnefndin var þó ekki eins hrifin af þessu og áhorfendur og setti lagið í áttunda sæti, en Aminata fékk hins vegar þriðja sætið hjá dómnefnd og endaði því í öðru sæti samanlagt.

Ekki er hægt að segja annað en að Lettar hafi boðið okkur upp á stórskemmtilega forkeppni. Á meðal keppenda var gríntvíeykið Mēs Jūs Mīlam sem flutti lagið „Rich Itch“, en atriðið samanstóð af dragdrottningu, dönsurum, giftingu og söngvurunum sjálfum sem stóðu til hliðar í prestaklæðnaði og voru nánast ekkert í mynd.

Annað atriði sem vakti athygli, að minnsta kosti athygli höfundar, var lagið „Bad sem flutt var af öðru grínskotnu tvíeyki að nafni Bermudu Divstūris. Við þekkjum þessa kumpána þó hins vegar undir nafninu Musiqq, en þeir fluttu framlag Letta árið 2011 sem bar heitið „Angel in Disguise“.

 

Það má því með sanni segja að lettneska forkeppnin hafi verið uppfull af glensi og gríni í ár. Skemmtiatriði kvöldsins voru heldur ekki af verri endanum þar sem á svið stigu nágrannar Letta frá Eistlandi og Litháen í formi Uku Suviste og The Roop sem fluttu framlög heimalanda sinna í Eurovision árið 2021.

 

Supernova 2022: Full results show Citi Zeni topped both jury and televote | wiwibloggs

Lagið „Eat your salad“ er þó ekki óumdeilanlegt, en í stúdíóútgáfu lagsins má heyra strax í fyrstu línu lagsins orðið „pussy“, sem á hinu ástkæra ylhýra útleggst sem miður óhefluð útgáfa af orði yfir kynfæri. Þeir félagar hafa þó eflaust fengið eitthvað tiltal frá lettneska sjónvarpinu þar sem í lifandi flutningi mátti heyra saumnál detta þar sem orðinu var ætlað að heyrast, þar sem söngvarinn söng hreinlega ekki neitt. Á öðrum stað í stúdíóútgáfu lagsins má heyra orðið „fuck“, sem hlaut þó sömu örlög í lifandi flutningi. Því munu forsvarsmenn EBU ekki þurfa að slá á puttana á Lettunum í ár, að því gefnu að hljómsveitin skilji þessi orð eftir í stúdíóútgáfunni og taki þau ekki með sér upp á svið í Tórínó.

Við verðum þó að bíða og sjá hvort Lettar nái að grænkeravæða Evrópubúa, en Citi Zēni stígur á svið í fyrri undankeppni Eurovision þriðjudagskvöldið 10. maí ásamt okkur Íslendingum.