Þá er liðin vika frá Söngvakeppninni 2023 og pistlahöfundur að ranka við sér eftir törnina; maraþon viðburði FÁSES og bónus-törnina að úthluta forkaupsréttum á Eurovision í Liverpool. En það þýðir ekki að gráta Björn bónda heldur safna skemmtilegu efni á blað um Söngvakeppnina 2023!
Hin 21 árs gamla Kópavogsmær Diljá Pétursdóttir kom sá og sigraði með lagi hennar og Pálma Ragnar Ásgeirsssonar, Power. Diljá sigraði hvoru tveggja dómnefndarkosninguna í úrslitunum og símakosninguna í fyrri hluta og einnig í síðari hluta, einvíginu. Reyndar sigraði hún ansi sannfærandi, með rúmlega 68 þúsund atkvæðum. Í öðru sæti voru Langi Seli og Skuggarnir með lagið OK, þrátt fyrir að hafa raðast í neðsta sæti hjá dómnefndinni.
Á eftir Power og Ok, sem fóru í einvígið, voru Celebs og lagið Doomsday Dancing í 3. sæti, Bragi og Sometimes the world’s against you í 4. sæti og Sigga Ózk með Dancing Lonely í 5. sæti.
Það var mál manna að Söngvakeppnin hefði aldrei verið glæsilegri en þetta árið. Útlit keppninnar, framleiðsla, handrit og utanumhald var í hæsta gæðaflokki samanborið við aðrar Eurovision undankeppnir. Kynnar keppninnar; Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir, Sigurður Þorri Gunnarsson og Unnsteinn Manúel Stefánsson, fá líka 12 stig fyrir fagmannlega og líflega framkomu. Aðstandendur Söngvakeppninnar 2023 eiga öll hrós skilið fyrir stórglæsilegan sjónvarpsviðburð.
Það voru ekki eingöngu keppendur sem stigu á stokk í Söngvakeppnishöllinni í Gufunesi þann 4. mars sl. Systur, Eurovisionfarar Íslands 2022, stigu á stokk með nýju lagi sínu, Furðuverur, og júróframlaginu Með hækkandi sól. Norsku geimúlfarnir úr Subwoolfer heiðruðu líka nærstadda með hressandi útgáfu af laginu sínu Give That Wolf A Banana.
Júrókaraoke, JúróZumba, Júrókrús & Júróklúbburinn 2023
Líkt og undanfarin ár hefur FÁSES gert heljarinnar partý úr úrslitahelgi Söngvakeppninnar. Herlegheitin hófust föstudagskvöldið 3. mars með Eurovision karaoke á Gauknum. Kynnir var enginn önnur en Agatha P. sem fór á kostum allt kvöldið, hvort sem var við söng, gamanmál eða halda velsæmi keppenda innan marka. Að venju var gerður góður rómur að Gleði(karoke)banka FÁSES enda sá klúbbur sem á stærsta Eurovision karaoke lagasafn í heimi. Sá sem kom, sá og sigraði þetta kvöld var samt enginn annar en Eyvindur, vindvél FÁSES, sem bætti heldur betur við glamúrframmistöðu flytjenda.
En það þýddi ekkert að sofa út þó það hefði verið gaman kvöldið áður því okkar eini sanni Flosi Jón Ófeigsson, fyrrum formaður FÁSES, var með Eurovision Zumba í hádeginu laugardaginn 4. mars þar sem hitað var vel upp í mjöðmunum fyrir kvöldið. Um það bil 80 manns mættu í Reebok Fitness Lambhaga og er Zumbað fyrir löngu orðinn fastur liður í hátíðarhöldum Söngvakeppnisaðdáenda.
Fyrirpartý FÁSES var í formi litlu systur Eurovision Cruise sem frændur okkar í Finnlandi halda í ágústmánuði ár hvert. Litla júrókrús FÁSES er enda bara úr Reykjavíkurhöfn yfir í Gufunesið þar sem Söngvakeppnin er haldin en það er alveg jafn mikið stuð og í hinu krúsinu! Hera Björk sá til þess að fólk komst öruggt úr höfn enda þurfum við öll að heyra Je ne sais quoi og Someday með reglulegu millibili. Ykkar einlæg spreytti sig síðan á DJ græjunum en við höldum að enginn hafi beðið varanlegan skaða af því.
Eftir glæsta Söngvakeppnin þar sem vel var klappað fyrir sigurvegaranum var öllum FÁSES-liðunum húrrað í langferðabíl á Iðnó þar sem Júróklúbburinn 2023 fór fram í samstarfi FÁSES, Pink Iceland, Saga Events og RÚV. Lady Zadude var kynnir eftirpartýsins og DJ Hulda Luv úr Gagnamagninu var sérvalinn Eurovision DJ. Til að hafa Söngvakeppnina í heiðri voru Eyjólfur Kristjánsson og Sigga Beinteins fengin til að starta kvöldinu og maður minn, hvílík lög sem þau tvö hafa tekið í gegnum tíðina í keppninni!
Þar sem um var að ræða opinbert eftirpartý Söngvakeppninnar í samstarfi við RÚV leið ekki á löngu þar til allir keppendur þessa árs birtust í Iðnó á Söngvakeppnisstrætóinum. Þvílík innkoma! Norsku geimúlfarnir voru að sjálfsögðu á Júróklúbbnum, eflaust að njóta þess í botn að komast í almennilegt júrópartý enda var ekkert svoleiðis fyrir þá á Eurovision í Tórínó þegar halda þurfti því leyndu hverjir voru á bak við gulu grímurnar. Einn úlfanna trúði fréttaritara fyrir því að þeir þrír, úlfarnir tveir og DJ Astronaut, hefðu leikið sér að því að skiptast á hlutverkum á Eurovision í Tórínó, svona til að halda þessu öllu saman spennandi. Og við segjum bara; það hlaut að vera!
Eins og hefðin segir til um stigu margir keppenda Söngvakeppninnar á stokk á Júróklúbbnum. Við þökkum Úlfari, Benedikt, Silju Rós & Kjalari, Kristínu Sesselju, Braga, Siggu Ózk, Langa Sel og Skuggunum, Celebs, Diljá, bakröddunum, dönsurunum og kynnunum fyrir að koma upp á svið í Iðnó og leyfa okkur að njóta tónlistarinnar. Það var reyndar altalað í græna herberginu að sjaldan hafi eins samheldin hópur keppt saman í Söngvakeppninni eins og í ár. Takk fyrir okkur!
Til hamingju Diljá – við getum ekki beðið eftir að sjá þig á sviðinu í Liverpool!