Loreen er húðflúruð á hjörtu Svía – Jafnar hún leik Johnny Logan?


Sextugustu og þriðju útgáfu sænsku Melodifestivalen lauk í Stokkhólmi í gærkvöldi með því sem í augum flestra var bara formsatriði – það er að segja með sigri lagsins Tattoo og krýningu Loreen til ríkjandi drottningar Melló. En sænska þjóðin vill meir. Loreen skal verða drottning Eurovision og jafna stöðu Svía og Íra í keppninni um flesta sigra!

Loreen þarf ekki að kynna, en nú 11 árum eftir sigur hennar með Euphoria er hægt að fullyrða að leitun sé að sigurvegurum sem hafa komið sér jafn örugglega fyrir í frægðarhöll Eurovison. Ferill hennar hófst með þátttöku í sænsku útgáfu Idol-keppninnar árið 2004, þá 21 árs, þar sem hún endaði í fjórða sæti en hvarf að mestu af sjónarsviðinu í framhaldinu. Það var ekki fyrr en árið 2011 sem hún þreytti frumraun sína í Melodifestivalen með laginu My Heart is Refusing Me. Lagið náði ekki í úrslit en varð síðar meir eitt af þeim lögum sem naut hvað mestra vinsælda á útvarpsstöðvum að keppni lokinni. Hún var því mátulega vel þekkt þegar Euphoria-ævintýrið hófst ári síðar og má færa rök fyrir því að sé enn ólokið. Loreen hefur sjálf sagt að það hafi verið aðdáendur Melodifestivalen og Eurovision sem voru fyrstir til að taka henni eins og hún er og kallar þau „fólkið sitt“. En samband hennar við fólkið sitt dugði þó skammt árið 2017 þegar hún tók þátt í þriðja sinn með laginu Statements. Það komst ekki í úrslit og var slegið út í einvígi við hinn 19 ára Anton Hagman í andra chansen (sem í dag er kallað undanúrslit).

Nú er Svía hins vegar farið að lengja eftir sigri á nýjan leik. Markmiðið um að jafna met Íra sem sigursælasta þjóð Eurovision virtist á næsta leiti eftir sigur Måns Zelmerlöw árið 2015 og Cornelia Jakobs vakti vonir um að biðinni lyki í fyrra. Væntingarnar til Loreen eru því gríðarlegar og ekki minnkar pressan við það að Loreen yrði sú eina fyrir utan Johnny Logan sem gæti státað af því að hafa unnið Eurovision tvisvar – og fyrsta konan!

Tattoo er samið af einvala liði smellahöfunda; Thomas G:son (Euphoria, Invincible, In a Moment Like This, Quédate conmigo ofl.), Peter Boström (Euphoria, In the Club o.fl.), Jimmy Joker Thörnfeldt (Voices, El Diablo, Adrenalina, Run to the Hills o.fl.), Cazzi Opeia (I Can‘t Get Enough), Jimmy Jansson (In The Middle) í samvinnu við Loreen sjálfa. Framsetningin þykir hin glæsilegasta en Loreen flytur lagið á milli tveggja risavaxinna LED-skjá, eins og hún sé í eins konar samlokugrilli, en skjárinn sem hangir yfir henni ku vega 1,8 tonn. Lagið sjálft mætti að mörgu leyti kalla frænku Euphoria og koma þar mörg sömu frumefni við sögu, t.d. drama og mystík í bland við rafpopp og strokuhljóðfæri.

Leiðin að sigri gekk ekki alveg áfallalaust fyrir sig en frægt varð þegar aðgerðarsinni ruddist á svið á meðan frumflutningi lagsins stóð í forkeppninni í Malmö. Sá vildi hvetja til endurheimtingar votlendis í Svíþjóð. Rjúfa þurfti flutninginn og vonbrigðastuna Loreen skar sig í hjörtu áhorfenda.

Eftir á hefur Loreen talað af mikilli hlýju um unga manninn sem hún kallar „litla fallega aðgerðarsinnann sinn“ og segir hann hafa sýnt mikið hugrekki í viðleitni sinni til þess að bjarga okkur öllum.

Á lokakvöldi Melodifestivalen var svo engu líkara en að reykvélarfulltrúi SVT hefði fest bensíngjöfina í botni og samhliða flutningi birtust fréttir á æsimiðlum um að Loreen væri nær ósjáanleg. Hvort þetta var með vilja gert er óvíst en það kom í öllu falli ekki að sök. Loreen átti þegar hug og hjörtu alþjóðlegu dómnefndarinnar og áhofenda og stýrði sigrinum örugglega í höfn. Sem fyrr höfðu atkvæði alþjóðlegu dómnefndarinnar helmingsvægi en Loreen hlaut 12 stig frá sjö af átta fulltrúum í henni. Hún sigraði kosningu áhorfenda einnig örugglega og lokaniðurstaðan var 177 stig en lagið Air, flutt af Marcus og Martinus, hafnaði í öðru sæti með 138 stig.

En voru engir aðrir þátttakendur í Melló?

Líkt og ofangreind umfjöllun gefur til kynna þá fór ekki sérstaklega mikið fyrir öðrum þátttakendum í umræðunni um Melodifestivalen í ár. Þar kenndi þó ýmissa grasa.

Norsku tvíburarnir Marcus og Martinus njóta mikilla vinsælda í heimalandinu en eins og oft vill verða á Norðurlöndunum hafa vinsældirnar ekki lekið mikið yfir landamærin. Góður árangur þeirra í Melló ætti því að vera miklar gleðifréttir fyrir áhugafólk um Norðurlandasamvinnu. Því er þó ekki að leyna að þjóðerni þeirra kann að hafa flækst fyrir að einhverju leyti og sumir spurðu sig hvort ekki væri eðlilegast að framlag Svíþjóðar væri flutt af íbúum landsins. Lagið þeirra, Air, er nútímalegt rafpopp, samið af Joy og Linneu Deb (sem meðal annars sömdu Heroes og áttu aðild að lagi Braga í Söngvakepninni í ár) auk Jimmy Joker Thörnfeldt.

Hljómsveitin Smash Into Pieces var líklega fagri blakkur keppninnar í ár en hana skipa sérlega vel snyrtir sænskir rokkarar og fluttu þeir lagið Six Feet Under sem lenti í þriðja sæti.

Kunnugleg andlit úr sögu Melodifestivalen komu víða fyrir í hinum framlögunum og má þar nefna samíska hjartaknúsarann Jon Henrik Fjällgren, dreddadrottninguna Mariette, samfélagsmiðlastjörnuna Theoz, förðunaráhrifavaldinn Tone Sekelius, stuðpinnana í Panetoz, þjóðlagarokkarana í Nordman og Paul Rey – sem lenti í þriðja sæti hjá dómnefnd en fékk einungis eitt stig frá áhorfendum.

Sérstaka athygli vakti einnig Maria Sur, 18 ára stúlka frá Úkraínu sem flúði til Svíþjóðar í fyrra vegna innrásarstríðs Rússa.

Síðast en ekki síst þótti hin unga Kiana stíga af miklum krafti og öryggi inn í heim Melodifestivalen og þykir ljóst að við eigum eftir að sjá meira af henni.

Á meðal þekktra nafna sem ekki komust í úrslit má nefna Victor Crone (sem keppti fyrir hönd Eistlands árið 2019), LouLou Malotte (úr The Mamas) og Wiktoriu sem tók þátt í fjórða sinn.

Hér má sjá stigatöfluna úrslitakeppninnar í heild sinni:

1. Tattoo – Loreen (177 stig)
2. Air – Marcus & Martinus (138 stig)
3. Six Feet Under – Smash Into Pieces (112 stig)
4. Where You Are (Sávežan) – Jon Henrik Fjällgren, Arc North feat. Adam Woods (81 stig)
5. Mer av dig – THEOZ (78 stig)
6. Where Did You Go – Kiana (76 stig)
7. Royals – Paul Rey (57 stig)
8. One Day – Mariette (51 stig)
9. Never Give Up – Maria Sur (47 stig)
10. On My Way – Panetoz (47 stig)
11. Släpp alla sorger – Nordman (44 stig)
12. Rhythm Of My Show – Tone Sekelius (20 stig)

Þá er stóra spurningin bara hvort hér sé komið atriðið sem færir Svíum sjöunda sigurinn og hvort nýtt sameinað Eurovision-konungsdæmi Svíþjóðar og Írlands verði til þar sem Loreen mun mun ríkja við hlið Johnny Logans. Hvað haldið þið?