Ítalskir rokkarar freista gæfunnar fyrir San Marínó


Það er eitthvað mjög passandi við það að eitt minnsta þátttökuríkið í Eurovision haldi stærstu forkeppnina. Alls kepptu 106 lög um að vera valið sem framlag San Marínó í ár í keppni sem taldi sex kvöld á einni viku. Og í ár þarf að feta í fótspor Achille Lauro sem keppti fyrir San Marínó í fyrra með lagið Strippers með hreint út sagt stórglæsilegri frammistöðu sem verður lengi í minnum höfð meðal Eurovision aðdáenda sem margir hverjir hafa sérstakt dálæti á vélkvígunni Robertu sem var tekin til handagagns af hr. Lauro sjálfum. Eftir heljarinnar valferil, fjórar undankeppnir, eitt “eitt lag enn” undankvöld og eitt úrslitakvöld stóðu Piqued Jacks uppi sem sigurvegarar og munu flytja lagið Like An Animal í Liverpool.

Tvö lög úr valferlinu komust beint í úrslitakeppnina þar sem þau voru einu framlögin frá San Marínó. Alls kepptu 104 lög í undankeppnunum og þar af var eitt frá Íslandi, lag Arnars Ástráðssonar sem Erna Hrönn Ólafsdóttir söng en því miður komst lagið Your Voice ekki upp úr undankeppninni. Aðrir þekktir flytjendur sem tóku þátt voru m.a. Eiffel 65 sem gerðu Blue (Da Ba Dee) frægt um árið og hin albanska Ronela sem keppti í Eurovision 2022 með laginu Sekret. Það er rétt að geta þess að í undankeppninni í San Marínó er ekki skilyrði að flytjendur verði að vera af tilteknu þjóðerni eða reglur um á hvaða tungumáli texti laga verður að vera.

Tuttugu og tvö lög kepptu til úrslita laugardagskvöldið 25. febrúar sl. og áttu 16 þeirra uppruna sinn í Ítalíu. Enginn önnur en Freaky drottningin okkar hún Senhit var kynnir keppninnar (San Marínó 2011, 2020 og 2021) ásamt sjónvarpsmanninum Jonathan Kashanian. Eins og hefðin býður upp á var eitthvað um gestakomur á sviðinu og tróðu fyrstu keppendur San Marínó upp, Miodio.

Í lok kvölds kom í ljós að sex manna dómnefndin, sem hafði 100% vægi, valdi Like An Animal sem framlag San Marínó til Liverpool. Reyndar er rétt að geta þess að Al Bano, ítalska Eurovision goðsögnin (Ítalía 1976 og 1985) var formaður dómnefndarinnar. Flytjendur lagsins, Piqued Jacks, er ítalsk rokkband sem var stofnað 2006 og hefur þá Andrea Lazzeretti, Francesco Bini, Tommaso Oliveri og Marco Sgaramella innanborðs. Bandið hefur gefið út heilar fjórar plötur og fjöldann allan af smáskífum. Hljómsveitarnafnið er æði sérstakt en kemur frá upphafsdögum sveitarinnar þegar einn bandmeðlima braut og beygði jack hljóðsnúru. Sveitin segir sjálf að “Piqued” þýði áhugasamur en geti einnig þýtt hreinskiptinn og hvatvís. Við lestur texta lagsins Like An Animal má sjá að þar er á ferðinni hefðbundið ástarlag þar sem karlkynið eltist við kvenkynið á dansgólfinu, dáist að mjöðmum þess og langar að þefa af því eins og af dýri. Ef til vill eitthvað sem virkar betur á enskri tungu.

San Marínó tók fyrst þátt í Eurovision 2008 og þau hafa þrisvar komist áfram upp úr undankeppnunum í aðalkeppnina, 2014, 2019 og 2021. Piqued Jacks keppa í seinni undankeppninni fyrir Eurovision þann 11. maí og deila því sviðinu með okkar bestu Diljá. Það verður gaman að sjá hvernig til tekst hjá San Marínó í ár!