Eftir að hafa mistekist að komast í úrslit í Eurovision í fyrra hafa Ísraelar dregið fram stóru byssurnar og senda eina af sínum allra skærustu stjörnum, Noa Kirel, með lagið Unicorn.
Noa er 21 árs gömul en hefur þrátt fyrir ungan aldur þegar átt glæstan feril. Hún var einungis 14 ára gömul þegar hún sló í gegn á Youtube árið 2015. Eitt af hennar fyrstu lögum var lagið Killer sem olli nokkru fjaðrafoki þar sem mörgum þótti myndbandið hafa ögrandi og kynferðislegan undirtón, úr samræmi við ungan aldur söngkonunnar. Síðan þá hefur frægðarsól hennar haldið áfram að rísa og hefur hún jafnframt leikið í kvikmyndum, verið dómari í hæfileikakeppnum í sjónvarpi og slegið ísraelskt met í stærð útgáfusamninga við erlent útgáufyrirtæki.
Ferilskáin verður ekki minna glæsileg ef tekið er mið af því að hún þurfti að taka sér tveggja ára hlé til þess að sinna herskyldu, eins og mörg önnur ísraelsk ungmenni. Þar hlaut hún grunnþjálfun og hefur lýst því að hún hafi sinnt sömu verkum og aðrir, þar með talið þrifum á klósettum, og notið verksins. Síðar meir var hún þó færð í tónlistarsveit hersins en hlutverk hennar er meðal annars að taka þátt í stórviðburðum og að skemmta öðrum hersveitum og stuðla þannig að góðum anda og samheldni. Noa þótti einnig styrkja sína eigin ímynd á meðal landsmanna með því að reyna ekki að komast undan herskyldunni og vera hennar í hernum hefur eflaust einnig nýst í ímyndarvinnu hersins heima við. Hér fyrir neðan má sjá myndband þar sem Noa sinnir skyldu sinni sem meðlimur tónlistarsveitar hersins.
Engin undankeppni fór fram í Ísrael í ár heldur var Noa valin til þátttöku af valnefnd ísraelska ríkissjónvarpsins. Noa fékk fullt frelsi til að ákveða sjálf hvaða lag hún tæki með sér til Liverpool. Hún afþakkaði boð um að fá aðstoð erlendra lagahöfunda og ákvað að semja lagið í samstarfi við þungarvigtarmenn í ísraelskum poppiðnaði sem meðal annars komu að ísraelsku Eurovision-lögunum Golden Boy (2015), Made of Stars (2016) og Toy (2018).
Unicorn er kraftmikill sjálfsstyrkingaróður og hefur laginu verið vel tekið af aðdáendum jafnt sem veðbönkum. Sterklega má gera ráð fyrir því að Noa beri á borð glamúrinn og þokkadansinn sem Chanel bar ábyrgð á í fyrra – nokkuð sem verður að teljast mikilvægt hráefni í allar spennandi Eurovision-keppnir.
Ísraelar eru á meðal sigursælustu þjóða í Eurovision með fjóra sigra á bakinu. Þeir hafa þó alls ekki getað gengið að því vísu að komast upp úr undanúrslitum en Ísrael hefur sjö sinnum dottið út í undankeppni. Sé eitthvað að marka spár veðbankanna ætti Noa þó að ríða einhyrningnum sínum nokkuð örugglega í aðalkeppnina þann 13. maí.