60 ár í dag: Fyrsti sigur Norðurlandanna í Eurovision


Miðað við meginregluna um að þjóðin sem vinnur Eurovision heldur keppnina á næsta ári, þá áttu Frakkar að halda Eurovisionkeppnina árið 1963. Þeir hefðu þá haldið keppnina í þriðja sinn á fimm árum en treystu sér einfaldlega ekki til þess af fjárhagsástæðum. Bretar tóku það að sér og var keppnin haldin í BBC Television Centre í London þann 23. mars 1963 eða fyrir nákvæmlega 60 árum í dag. Að hafa keppnina í stúdíói BBC gerði hana öðruvísi en fyrri keppnir – og bara allar aðrar Eurovisionkeppnirnar – og sviðsetning var frábrugðin því sem var árin á undan. Í þessari keppni fengum við líka að sjá evrópskt landakort í kynningu hvers lags. Það var í fyrsta sinn sem það var, en hefur verið oft eftir þetta. Kynnir keppninnar var hin eina sanna Katie Boyle sem var kynnir þarna í annað sinn af fjórum skiptum alls. Þetta var áttunda Eurovisionkeppnin.

Sextán þjóðir kepptu í Eurovision að þessu sinni. Bakraddir voru í fyrsta sinn, í breska laginu Say Wonderful Things. Carmela Corren keppti fyrir Austurríki með lagið Vielleicht Geschieht Ein Wunder eða Kannski gerist kraftaverk. Hún prófaði að skipta yfir í ensku í miðju lagi. Þetta var í fyrsta sinn sem lag var á fleiri en einu tungumáli og það átti síðar eftir að verða vinsælt. Á þessum tíma var engin tungumálaregla.

Hin gríska Nana Mouskouri keppti fyrir Lúxemborg með lagið A force de prier eða Með því að biðja. Nana er vel þekkt söngkona og afkastamikil. Hefur komið að um 200 hljómplötum og á þeim hefur hún sungið á tólf tungumálum. Þekktasta lagið henner er Je chante avec toi Liberté sem kom út árið 1981. Hún kom einnig fram sem gestur á Eurovision í Grikklandi árið 2006 og var að brasa með að koma stundarglasinu fyrir talninguna af stað ásamt Sakis Rouvas.

Í þriðja sæti Eurovision þetta árið var Ítalinn Emilio Pericoli með lagið Uno per tutte eða Einn maður fyrir allar konur. Sviðsetning lagsins var einstök á þeim tíma, sýndar voru myndir af konum í bakgrunni. Lagið var eftir Toni Renis, Mogol og Alberto Testa. Emilio hafði sjálfur gefið út eigin útgáfu af laginu Al di lá sem Betty Curtis flutti sem framlag Ítala í Eurvisionkeppninni tveimur árum áður. Einnig tók hann þátt í Sanremo árið áður með lagið Quando, quando, quando sem hann samdi einnig með Tony Renis. Það lag er heimsþekkt og til í ótal útgáfum, til dæmis með íslensku Eurovisionstjörnunni Páli Óskari og Milljarðamæringunum. Emilio lést árið 2013.

Hundraðasta Eurovisionlagið var í þessari keppni. Það heitir T´En Vas Pas eða Ekki fara með Esther Ofarim og varð það í öðru sæti fyrir Sviss. Esther er af ísraelskum og sýrlenskum uppruna, en Ísraelar kepptu fyrst tíu árum síðar. Esther starfaði ekki síður sem leikkona en söngkona og er frægasta mynd hennar Exodus, söguleg mynd Otto Preminger um stofnun Ísraelsríkis sem kom út árið 1960. Lék hún þar með Paul Newman og Evu Marie Saint (sem lifir enn tæplega tíræð). Esther lék á sviði og var líka í þýskum myndum og sást í dönsku sjónvarpi. T´En Vas Pas náði 39. sæti á vinsældarlista í Þýskalandi.

Fyrsti sigur Norðurlandanna var í þessari keppni, en Danir sigruðu og voru það hjónin Grethe og Jørgen Ingmann með lagið Dansevise. Hinum Norðurlöndunum gekk hins vegar afar illa, en Noregur, Svíþjóð og Finnland fengu öll núll stig ásamt Hollandi. Það fengu því fjögur lönd núll stig í þessari keppni, alveg eins og árið áður. Dansevise er eftir Otto Francker og Sejr Volmer-Sørensen og á sá síðarnefndi einnig textann. Grethe og Jørgen gerðu einnig enska útgáfu af laginu sem hét þá I Loved You. Lagið var einnig gefið út á sænsku og finnsku og sungið af þarlendum söngkonum. Danska hip-hop bandið Outlandish gerði svo remix af laginu undir nafninu Kom igen sem var notað í tölvuleikinn FIFA07 og kom út árið 2006. Dansevise var líklega síðast notað í einum þætti af dönsku sjónvarpsþáttunum Carmenrúllur sem voru sýndir á RÚV í kringum síðustu áramót. Lagið gengur fallega í gegnum allan þáttinn þannig að tekið var eftir. Grethe lést úr krabbameini árið 1990, en Jörgen lést  árið 2015, þá tæplega níræður.