Finnar bjóða upp í dans undir áhrifum


Finnar buðu upp á eina skemmtilegustu undankeppni þessa Eurovision árs, ef ekki sögunnar. Sjö lög kepptu til úrslita í Uuden Musiiki Kilpailu og varla hægt að segja annað en öll þeirra hefðu sómað sér vel á stóra sviðinu í Liverpool. Það var hins vegar rapparinn og söngvarinn Käärijä sem stóð uppi sem sigurvegari með lag sitt „Cha Cha Cha“. Verður þetta í fyrsta skiptið síðan 2015 sem Finnar syngja á móðurmáli sínu á stóra sviðinu.

Atkvæðagreiðsla keppninnar var tvískipt, þar sem 25% atkvæða kom frá alþjóðlegri dómnefnd og 75% atkvæða frá símakosningu. Sigraði lagið „Cha Cha Cha“ með fáheyrðum yfirburðum og segja má að á Finna hafi lagst eins konar Käärijä-æði. Enda lítið annað hægt þegar maður mætir á sviðið í neongrænum Hulk-ermum, sem eiga að tákna karlmennskuna, og leðurbuxum og rappar um það að sleppa sér á dansgólfinu eftir sirka einn eða tvo. Ekki skemmdu bleikklæddir samkvæmisdansarar fyrir sem skælbrosandi tóku chachacha-sporin sín. Lagið er reyndar ádeila á finnska karlmenn sem geta ekki talað um tilfinningar sínar, þ.e. hleypt sínum innri Cha Cha Cha manni út, nema undir áhrifum áfengis.

Lagið fékk flest atkvæði dómnefndar, sem reiknaðist sem 72 stig en lagið með næstflest atkvæði hlaut 46 stig.Yfirburðirnir voru enn meiri á meðal almennings og fékk lagið rétt yfir 50% atkvæða úr símakosningu. Í heildina endaði lagið með 539 stig, hvorki meira né minna en 387 stigum meira en lagið sem endaði í öðru sæti.

Þrátt fyrir þessa yfirburði var gæðastig keppninnar gífurlegt, eins og áður hefur verið nefnt. Á meðal hinna laganna mátti meðal annars finna glamrokk þar sem vísað er í formúlugoðsögnina Kimi Raikkonen, diskópopp um bólfarir (sjá meðfylgjandi myndband) og óð til stúlku þar sem söngvarinn hoppaði á trampólíni af ást.

Skemmtiatriðin voru heldur ekki af verri endanum. Kynnirinn Samu Haber flutti lag sitt „Syödään sieniä“, þar sem sjá mátti áhugaverðan náttúrugjörning með sveppaívafi. Einnig stigu The Rasmus, sigurvegararnir frá því í fyrra á svið, og fluttu nýjasta lag sitt „Live and Never Die“.

Það var þó drottningin Bess sem byrjaði sýninguna. Flutti hún skemmtilega blöndu af lögunum „Lähtee käsistä“ og „Ram pam pam“, en það síðarnefnda lenti í öðru sæti í UMK 2022 og komst á topp finnskra vinsældarlista það ár.

Í heildina buðu Finnar okkur upp á stórskemmtilegt sjónarspil og er orðið á götu Eurovision-aðdáenda að UMK sé orðið að þeirri undankeppni Norðurlandanna sem helst eigi að fylgjast með.

Käärijä er sviðsnafn Jere Pöyhönen og hann er 29 ára gamall rappari, söngvari og lagahöfundur. Hann heillaðist ungur af trommum og fyrsta lagið kom út 2016. Käärijä gaf út sína fyrstu plötu árið 2020 sem ber heitið Fantastista. Käärijä er ekkert sérstaklega hrifinn af því að skilgreina tónlist sína og vill gjarnan bræða saman ólík þemu í lögin sín; rapp, metal og raftónlist. Það sést ef til best á laginu Cha Cha Cha sem hann hefur sjálfur lýst sem partý metal og “It’s crazy, it’s party” hafa orðið að einkunnarorðum finnska framlagsins í ár.

Finnar kepptu fyrst í Eurovision árið 1961 en það var ekki fyrr en 2006 sem fyrsti sigurinn kom og það voru að sjálfsögðu Lordi með Hard Rock Hallelujah sem unnu það ár. Eftir sigur Käärijä í UMK hafa Finnar farið með himinskautum í veðbönkunum og þegar þetta er skrifað sitja þeir í 2. sæti á eftir Svíum. Það skyldi þó aldrei vera að í fyrsta skipti í sögu Eurovision sigraði lag á finnskri tungu?