60 ár: Þriðji sigur Frakka á fimm árum


Sjöunda Eurovisionkeppnin fór fram í Villa Louvigny í Lúxemborg sunnudagskvöldið 18. mars 1962 eða fyrir nákvæmlega 60 árum síðan.  Þetta var í síðasta sinn, hingað til allavega, sem lokakeppni Eurovision er ekki á laugardagskvöldi. Kynnir var Mirelle Delannoy og byrjaði hún eins og algengt var þá á að bjóða öll löndin velkomin á þeirra tungumáli. Sextán lönd kepptu til úrslita, alveg þau sömu og árið áður. Hin finnska Marion Rung var fyrst á svið með lagið Tipi-Tii. Níu árum seinna var keppnin líka haldin í Lúxemborg, Marion var þá líka að keppa fyrir Finnland og var líka fyrst á svið. Greinarhöfundur rakst um daginn á upptöku þar sem verið var að draga um röð keppanda  á þessari keppni. Það var ungur drengur sem var í því hlutverki ásamt konu sem var í einskonar aðstoðarhlutverki. Þó nokkur fjöldi blaðamanna fylgdist með ásamt ljósmyndurum sem munduðu forláta myndavélar.

Það var talsvert verið að hringla með stigakerfið þessi fyrstu ár keppninnar og þetta árið var í fyrsta skiptið mögulegt að fá núll stig og fengu fjögur lönd strax þann vafasama heiður; Belgía, Spánn, Austurríki og Holland. Margir voru hissa á að fjögur lönd fengu núll stig í símakosningunni síðastliðið vor, en það gerðist semsagt líka fyrir 60 árum. Stigakerfið var þó vissulega ólíkt og eins fjöldi þjóða sem gaf stig. Tæknilegir örðugleikar settu svip sinn á keppnina. Rafmagninu sló út í augnablik meðan hollenska lagið var flutt. Það fékk já engin stig, en varð vinsælt eftir á.

Lúxemborgarar urðu sjálfir í 3ja sæti, Camillo Felgen með lagið Petit bonhomme eða Lítill drengur. Felgen fæddist árið 1920. Hann hóf ferlinn sem kennari, en starfaði lengst af í sjónvarpi. Hann hafði einnig keppt fyrir Lúxemborg tveimur árum áður með lagið So laang we’s du do bast. Hann varð þá fyrsti karlmaðurinn til að taka þátt fyrir Lúxemborg og söng þá fyrsta lagið sem var sungið á lúxemborgísku í Eurovision. Hann endaði reyndar í síðasta sæti þá. Felgen lést árið 2005.

François Deguelt varð í öðru sæti fyrir Mónakó með lagið Dis rien eða Segðu ekkert. Deguelt hafði eins og Felgen tekið þátt tveimur árum áður. Þá með lagið Ce soir-là og endað í 3ja sæti. Cliff Richard, Katja Ebstein, Zeljko Joksimovic og Chiara Siracusa hafa eins og Deguelt bæði hlotið brons og silfur í Eurovision, en aldrei tekist að ná í gullið. Deguelt fæddist árið 1932 og var söngurinn hans aðalstarf alla tíð. Hann lést árið 2014.

Þessa sjöundu Eurovision keppni unnu Frakkar og það í þriðja skiptið á fimm árum. Þeir höfðu líka farið með sigur af hólmi árin 1958 og 1960. Frakkar voru fyrsta þjóðin til að vinna keppnina þrisvar og því aðal Eurovision stórveldið á þessum tíma. Isabelle Aubret sigraði með 26 stig með lagið Un Premier Amour eða Fyrsta ástin. Isabelle Aubret eða Thérèse Coquerelle eins og hún heitir í raun fæddist í Lille í Frakklandi árið 1938 og verður 83 ára á þessu ári. Hún keppti svo aftur árið 1968 með lagið La source og varð þá í 3ja sæti. Isabelle reyndi í fleiri skipti að taka þátt í Eurovision, tók þátt í undankeppni í Frakklandi fyrir 1962 og eftir 1968. Un Preimer Amour er eftir Claude-Henri Vic og textann gerði Roland Stéphane Valade.