Hálf öld í dag: Vicky Leandros sigraði með Aprés Toi


Eftir að farsælli Eurovisionkeppni lauk árið 1971 gekk illa að ákveða stað til að halda keppnina árið 1972. Ríkissjónvarpið í Mónakó reyndi að finna nógu góðan stað í heimalandinu og einnig í Frakklandi með hjálp franska ríkissjónvarpsins, en varð á endanum að leita til BBC eins og hafði gerst nokkrum sinnum áður. Niðurstaðan varð því Eurovision í Usher Hall í Edinborg og fór keppnin fram 25. mars eða fyrir nákvæmlega hálfri öld í dag. Mónakó er eina sigurland Eurovision hingað til sem hefur ekki haldið keppnina. Kynnir keppninnar var Moira Shearer sem lengst af starfaði sem balletdansari og leikkona. Þetta er eina árið sem Írar hafa ekki sungið á ensku, þeir sungu á írsku. Þeim gekk ekki vel og hafa haldið sig við enskuna síðan.

Þjóðverjar urðu í þriðja sæti þriðja árið í röð. Í þetta sinn var það Mary Roos eða Rosemarie Schwab eins og hún hét réttu nafni sem flutti lagið Nur die Liebe läßt uns leben eða Aðeins ástin leyfir okkur að lifa. Hún hafði reynt að komast í Eurovison tveimur árum fyrr þegar hún keppti í þýsku undankeppninni með lagið Bei jedem Kuss og varð þá í öðru sæti. En það gekk semsagt betur þarna tveimur árum síðar.

Breski flokkurinn The New Seekers varð í öðru sæti með lagið Beg, Steal or Borrow. Flokkurinn var upphaflega stofnaður árið 1969 og hafa verið talsverðar mannabreytingar í hópnum, sem var starfandi til ársins 1985 í einhverri mynd. Meðlimir á þessum tíma voru Eve Graham, Lyn Paul, Marty Kristian, Peter Doyle og Paul Layton. Hópurinn er ekki síður þekktur fyrir lagið I´d Like to Teach The World to Sing sem  var notað í auglýsingu fyrir þekktan gosdrykk. Mörgum finnst jólin ekki koma nema þeir sjái og heyri þessa auglýsingu. Íslensk Eurovisonstjarna, Páll Óskar Hjálmtýsson, hefur einnig gefið lagið út sem jólalag sem heitir Mig langar til. Beg, Steal or Borrow er einnig til íslenskri útgáfu með Svanhildi Jakobsdóttur og heitir þá Betlað, rænt og ruplað.

Sigurvegarinn var Vicky Leandros fyrir Lúxemborg með lagið Aprés Toi eða Á eftir þér. Þetta var þriðji sigur Lúxemborgara. Aprés Toi er eftir Mario Panas, Klaus Munro og Yves Dessca. Lagið var upphaflega gefið út á þýsku, en franska útgáfan fór í Eurovision. Vicky fæddist í Grikkandi árið 1949 en býr í dag í Þýskalandi. Fimm árum áður, 1967, keppti Vicky líka í Eurovison með lagið L´amour est bleu og endaði í 4. sæti. Það lag varð vinsælt um allan heim í byrjun árs 1968 í annarri, ósunginni útgáfu. Aprés Toi varð líka vinsælt og komst meðal annars í fyrsta sæti á vinsældalistum í Belgíu, Hollandi, Suður-Afríku og Sviss. Vicky lét heldur ekki þar við sitja og gaf lagið einnig út á ensku, ítölsku, grísku og japönsku. Það var einnig gefið út af öðrum á tékknesku, slóvakísku, finnsku, serbnesku, sænsku, norsku, búlgörsku, tyrknesku og eflaust fleiri tungumálum. Við eigum að sjálfsögðu okkar eigin íslensku útgáfu. Það var líka Svanhildur Jakobsdóttir sem söng það og heitir lagið þá Ekkert svar með texta eftir Ólaf Gauk Þórhallsson, höfund íslenska Eurovisionlagsins Sjúbídú frá 1996. Lögin í tveimur efstu sætunum í þessari keppni komu því út með Svanhildi og hjómsveit Ólafs Gauks á plötunni Ég kann mér ekki læti sem SG hljómplötur gáfu út árið 1972.

Árið 1972 var í fyrsta sinn haldin söngvakeppnin OTI Festival sem var haldin árlega í 28 ár. Þessi keppni er ein af fáum keppnum sem eru sambærilegar Eurovision. Þetta var söngvakeppni milli landa og fyrirkomulagið svipað og í Eurovision. Keppnin var fyrir spænskumælandi þátttakendur og þátttökulönd. Löndin sem kepptu voru Spánn, Portúgal, Bandaríkin, Kanada og lönd í Mið- og Suður-Ameríku. Fyrsta keppnin var haldin í Madrid 25. nóvember 1972. Alls tóku 27 lönd einhvern tímann þátt í keppninni og mest 25 lönd í einu. Eins og í Eurovision var það landið sem vann sem hélt keppnina næst, með einni undantekningu þegar Níkaragva vann. Spánn og Mexíkó unnu þessa keppni oftast eða sex sinnum hvor þjóð. Alls unnu níu þjóðir keppnina einhvern tímann. Síðasta keppnin fór fram í Acapulco í Mexíkó þann 20. maí 2000.