50 ár í dag: Eini sigur Mónakó


Fyrir miðri mynd eru Dana Rosemary Scallon sem vann árið áður og Séverine sigurvergari Eurovision 1971

Eftir mikla velgegni Eurovisionlaganna árið 1970 bættust alls sex lönd í hóp þátttakenda Eurovision árið 1971, þar á meðal Malta í fyrsta skiptið. Malta varð í síðasta sæti eins og svo sem fleiri í fyrstu tilraun, en engin önnur þjóð hefur náð því tvö fyrstu árin sín. Þetta var hvorki meira né minna en 50% fjölgun þjóða milli ára sem er hlutfallslega met í Eurovisionsögunni! Keppnin fór fram í Dublin 3. apríl eða fyrir nákvæmlega hálfri öld í dag. Þetta var fyrsta Eurovisionkeppnin í Dublin en hreint ekki sú síðasta. Eins og staðan er núna hefur engin borg hýst keppnina oftar. Írska sjónvarpið átti ekki vélar til að mynda í lit og fékk lánaðar vélar hjá BBC. Keppnin var haldin í Gaiety Theatre sem var lítið leikhús, svona á Eurovisionmælikvarða. Kynnir var  Bernadette Ní Ghallchóir. Hún starfaði talsvert í sjónvarpi á þessum tíma og kynnti einnig undankeppni Eurovision í Írlandi tveimur árum síðar. Mikil pressa var nú á framleiðendur keppninnar að standa sig, enda mættir með enn eitt stigakerfið. Stigagjöfin tók reyndar ansi langan tíma og var áfram breytt. Einnig var í fyrsta skipti leyft að hópar tækju þátt, ekki bara einstaklingar og pör. Þarna var sett regla sem gildir enn um að hámark sex manns megi vera á sviðinu í hverju atriði, hvaða hlutverki sem þeir gegna. Í framhaldi af því fóru bakraddir að verða vinsælar og algengar þótt þær hafi reyndar sést fyrst árið 1963. Fyrsti kvartettinn var þetta árið, Family Four fyrir Svíþjóð. Kvartettar urðu mjög vinsælir í Eurovision þennan áratuginn.  Það er heldur ekkert nýtt að Svíar leggi línuna. Bobbysokkan Hanne Krogh er jafngömul Eurovisionkeppninni og var því 15 ára þegar hún söng lagið Lykken er og endaði í næstsneðsta sæti. Lukkan var hins vegar komin á hennar band í næstu tilraun 14 árum síðar. Svissneska tríóið Peter, Sue and Marc voru einnig að taka þátt í Eurovision í fyrsta skipti, en þau tóku þátt alls fjórum sinnum.

Mónakó vann keppnina og í eina skiptið hingað til, Séverine flutti lagið Un Banc, Un Arbre, Une Rue eða Bekkur, tré og gata. Lagið er eftir Yves Dessca og Jean-Pierre Bourtayre. Séverine eða Josiane Grizeau eins og hún heitir í raun, er frönsk, fædd í París árið 1948. Lagið var einnig gefið út á ensku, þýsku og ítölsku. Franska útgáfan náði 9. sæti á breska smáskífulistanum í maí 1971 og náði hátt á fleiri vinsældalistum í Evrópu. Séverne gerði tvær tilraunir í viðbót til að taka þátt í Eurovision og þá fyrir hönd Þýskalands, árin 1975 og 1982, en hafði ekki erindi sem erfði. Mónakó hætti reglulegri þátttöku í Eurovision árið 1979, en var svo aftur með árin 2004-2006. Við bíðum svo bara og vonum að þeir verði með 2022.

Katja Ebstein keppti fyrir Þjóðverja annað árið í röð eftir mikla velgegni árið áður og varð aftur í 3ja sæti. Lagið sem hún söng heitir Diese Welt. Hún keppti svo í þriðja sinn árið 1980 og hafnaði þá í öðru sæti. Katja er sá keppandi sem hefur gengið best í Eurovision án þess að vinna nokkurn tímann. Katja er orðin 76 ára í dag og hefur ekki gefið út efni lengi.

Bretar ákváðu að senda söngkonu frá Norður-Írlandi til leiks. Hún heitir Clodach Rodgers og er fædd árið 1947. Hún flutti lagið Jack in the Box. Lagið er til í íslenskri útgáfu og heitir Þú ert minn súkkulaðiís og það var Svanhildur Jakobsdótttir sem söng. Clodach varð einnig þekkt fyrir lögin Come Back and Shake Me og Goodnight Midnight sem urðu vinsæl. Jack in a Box endaði i 4. sæti.

Í fyrsta sinn voru landkynningar milli laga þar sem land komandi atriðis var kynnt. Nafn hvers lands sást líka á skjánum í fyrsta sinn bæði í byrjun og lok hvers atriðis, svona svo allir væru með á hreinu hvaða lag væri frá hvaða landi. Það voru þarna reyndar alveg 26-27 ár í símakosninguna. En mögulega var þetta hugsað fyrir svokallaða Eurovisionnörda sem voru örugglega til á þessum tíma. Þetta var virkilega gott ár í sögu Eurovision. Talið er að hvorki meira né minna en 250 milljónir manna hafi horft á keppnina og var keppnin aðalsjónvarpsviðburður ársins í mörgum Evrópulöndum. Keppninni var sjónvarpað í alls 29 löndum.