Fjörtíu ár frá fyrstu fatafækkuninni


Eurovisionkeppni númer 26 var haldin í RDS Simmonscourt Ballsbridge í Dublin þann 4. apríl 1981 eða fyrir nákvæmlega 40 árum í dag. Kynnir var Doireann Ní Bhriain og sjálfur Noel Kelehan stjórnaði hljómsveitinni. Tuttugu þjóðir tóku þátt, alveg eins og árið 1978. Í Eurovisionvikunni fyrir keppni var sýnt myndband frá undirbúningi hennar og mögulega er þetta í fyrsta sinn sem er farið að tala um Eurovisionvikuna yfir höfuð.

Kýpur var með í fyrsta skipti og sendi hópinn Island til keppni. Jean-Claude Pascal sem hafði unnið 20 árum áður fyrir Lúxemborg prófaði aftur, en lenti í 11. sæti. Tríóið Peter, Sue og Marc kepptu í 3ja sinn fyrir Sviss. Norðmenn fengu núll stig í þriðja sinn. Það hefur mögulega ekki hjálpað að þeir voru númer 13 í röðinni. Alls voru það 10 aðilar sem tóku þátt í Eurovision í að minnsta kosti í annað skipti árið 1981 en það er samt ekki metár hvað það varðar.

Það komu upp smá vandræði í stigagjöfinni oftar en einu sinni, til dæmis voru fleiri en einn stigakynnir ekki með það á hreinu í hvaða röð átti að kynna stigin. Og Júgósalvía var bara ekki tilbúin með atkvæðin sín. Svo var þetta æsispennandi í lokin og allt opið þegar Svíþjóð gaf stigin síðust þjóða. En allt reddaðist þetta að lokum.

Það voru stóru þjóðirnar sem röðuðu sér í efstu sætin. Frakkar urðu í 3ja sæti, Jean Gabilou með lagið Humanahum. Lagið er eftir Jean-Paul Cara og Joe Gracy sem sömdu líka síðasta sigurlag Frakka, hvort sem miðað er við þá eða núna, lagið L’oiseau et l’enfant frá 1977. Jean var fyrsti maðurinn til að taka þátt fyrir Frakkland frá yfirráðasvæði Frakka utan landsins sjálfs, en Jean er frá Tahiti.

Þjóðverjar urðu í öðru sæti annað árið í röð og má segja að þeir hafi verið farnir að finna sigurlyktina, enda var þarna stutt í fyrsta sigurinn. Sigurlagið fékk fjórum stigum meira. Það var Lena Valaitis sem flutti lagið Johnny Blue. Lena fæddist í Memel í Litháen. Hún var barn þegar hún flutti til Þýskalands. Þegar kom að því að taka þátt í Eurovision hafði Lena átt vinsæl lög í Þýskalandi og hafði tekið þátt í undankeppni Eurovision árið 1976. Lagið er eftir Ralph Siegel og Bernd Meinunger og fjallar um blindan dreng. Lagið var einnig gefið út á ensku.

En það voru Bretar sem unnu, Bucks Fizz hópurinn með Making your mind up. Kvartettinn var þá nýstofnaður og hann skipuðu þau Bobby G, Cheryl Baker, Mike Nolan og Jay Aston. Cheryl stóð líka á stóra Eurovisionsviðinu fyrir hönd Breta þremur árum áður, þá sem hluti af Co-Co hópnum. Making Your Mind Up varð gríðarlega vinsælt. Þetta var í fyrsta skiptið sem fólk prófaði að klæða sig úr í Eurovisionatriði. Það átti eftir að verða vinsælt síðar. Cheryl vildi vera í síðu pilsi, sagðist ekki hafa leggi í annað. Jay var lágvaxnari og vildi styttra pils. Danshöfundurinn heyrir þessa umræðu og fær þá hugmyndina að fataskiptunum. Cheryl segist aldrei hafa verið jafn stressuð á ævinni og þegar atriðið byrjaði. En snemma í laginu segir Mike: „Here we go“ og þá hugsaði hún með sér að þau væru bara mætt til að hafa gaman. Þá losnaði um stressið og allt gekk glimrandi. Vissulega þótti mörgum fataskiptin ekki við hæfi, ekki síst mörgum kaþólskum Írum.

Þann 22. ágúst 1981 var haldið sérstaklega upp á 25 ára afmæli Eurovision í Mysen í Noregi. Sigurvegararnir frá liðnum árum mættu flestir og fluttu sín atriði.