Björgvin Halldórsson 70 ára


Björgvin Helgi Halldórsson, oft nefndur Bó eða Bo Hall, fæddist í Hafnarfirði þann 16. apríl 1951 og fagnar því sjötugsafmæli í dag. Hann hefur komið víða við í íslenskri tónlist síðan hann var valinn poppstjarna ársins árið 1969. Hér verður eðli málsins samkvæmt farið yfir feril Björgvins í Söngvakeppninni og Eurovision.

Björgvin tók þátt í fyrstu Söngvakeppni Sjónvarpsins árið 1986. Þar flutti hann lögin Ef, Ég lifi í draumi og Með vaxtandi þrá sem Erna Gunnarsdóttir söng með honum.  Ári síðar flutti hann lögin Ég leyni minni ást, Mín þrá og Lífsdansinn sem hann söng líka með Ernu. Árið 1988 flutti hann lagið Í tangó ásamt Eddu Borg. Ári síðar var það einn dúettinn enn, en þá flutti hann lagið Sóley ásamt Kötlu Maríu Hausmann. Árið 1990 flutti hann lögin Sú ást er heit og Til þín. Björgvin keppti ekki árið 1991, en árið 1992 flutti hann lagið Mig dreymir. Það var fyrsta lagið sem Björgvin samdi sjálfur og sendi í Söngvakeppnina. Björgvin sagði sjálfur í viðtali nýlega að hann hafi verið hálfgert húsgagn hjá RÚV á þessum tíma. Mörg þessara laga urðu ofarlega í keppninni þótt þau hafi ekki unnið, en þarna eru margar perlur og mörg þessi lög hafa elst afar vel.

Björgvin var valinn af RÚV til að flytja framlag Íslands í Eurovision árið 1995. Fyrir valinu varð lagið Núna sem er eftir Björgvin og hinn breska Ed Welch. Jón Örn Marinósson samdi textann. Erna Þórarinsdóttir, Berglind Björk Jónasdóttir, Eyjólfur Kristjánsson, Guðrún Gunnarsdóttir og Stefán Hilmarsson sungu bakraddir með Björgvini á stóra sviðinu í Dublin. Lagið endaði í 15. sæti á úrslitakvöldinu og var Björgvin ósáttur með að þurfa að flytja lagið á íslensku. Ensku útgáfuna má finna hér. Þarna voru fjögur ár í það að tungumálareglan yrði afnumin í Eurovision. Björgvin tók þátt í fleiri söngvakeppnum víða um Evrópu eftir þetta, meðal annars á Írlandi, Slóvakíu og Tyrklandi. Björgvin var svo stigakynnir Íslands  í Eurovision árið 2017 þegar Svala dóttir hans tók þátt.

Á tímabili fóru Björgvin og fjölskylda oft í sumarfrí til Ítalíu. Hann rekur þar nefið inn í plötubúð og kaupir plötur og diska af lögum úr San Remo keppninni, sem er söngvakeppnin sem Eurovision er byggð á. Hann hefur tekið mörg lög úr San Remo, látið gera íslenska texta og hefur svo gefið þau út. Ýmist sungið þau sjálfur eða fengið aðra til þess. Flest þessi lög hafa endað sem íslensk jólalög sem við þekkjum vel.

Björgvin ætlar að sjálfsögðu að halda veglega upp á afmælið, með öruggum hætti og allir geta notið heima í stofu. Meðal þeirra sem koma fram eru Eurovisionstjörnurnar Jóhanna Guðrún Jónsdóttir og Svala Björgvinsdóttir. Í bakröddum verða einnig Eurovisionstjörnur, Friðrik Ómar, Regína Ósk og afmælisbarn morgundagsins, Eyjólfur Kristjánsson. Meira um það í pistili hér á FÁSES.is á morgun. Afmælisveislan hefst klukkan 20:00 í kvöld og hægt er að kaupa miða hér. FÁSES.is sendir Björgvini kærar afmæliskveðjur og ósk um góða skemmtun í kvöld.