Eyjólfur Kristjánsson sextugur


Eyjólfur Kristjánsson eða Eyfi, fæddist í Reykjavík 17. apríl 1961 og fagnar því 60 ára afmæli í dag. Eyjólfur kom fyrst fram í Söngvakeppni Sjónvarpsins árið 1987 þegar hann flutti lagið Norðurljós eftir Gunnar Þórðarson og Ólaf Hauk Símonarson. Ári síðar átti hann sjálfur lag í keppninni, lagið Ástarævintýri, einnig þekkt sem „Ég er vindurinn sem þýtur“  sem hann flutti ásamt Inga Gunnari Jóhannssyni. Í því atriði sáum við vindvél í fyrsta sinn í Söngvakeppninni. Einnig flutti hann lagið Mánaskin ásamt Sigrúnu Waage í sömu keppni. Lagið er eftir Guðmund Árnason og Aðalstein Ásberg Sigurðsson. Árið 1989 flutti hann lagið Alpatwist ásamt félögum sínum í Bítlavinafélaginu, en sú hljómsveit var starfandi á þessum tíma. Árið 1990 flutti hann lögin Ég er að leita þín og Austur eða vestur.

Það kom svo að því árið 1991 að Eyjólfur sigraði í Söngvakeppninni.  Þá flutti hann lagið Draumur um Nínu, sem síðar var stytt í Nína, ásamt Stefáni Hilmarssyni. Stefán hafði sungið framlag Íslands í Eurovision þremur árum áður, lagið Sókrates. Nína sigraði með þónokkrum yfirburðum. Lagið endaði svo í 15. sæti í aðalkeppninni Róm. Afmælispistill um keppnina 1991 er væntanlegur á FÁSES.is á 30 ára afmælidaginn, 4. maí. Lagið um hana Nínu hefur verið afar vinsælt hjá þjóðinni síðastliðin 30 ár og hefur ítrekað verið valið besta Eurovisionlag Íslendinga. Samstarf Stebba og Eyfa hefur einnig verið farsælt og eru þeir enn að spila og syngja saman. Þeir gáfu til dæmis Nínu út aftur árið 2006.

Þetta var ekki í eina skiptið sem Eyjólfur stóð á stóra sviðinu í Eurovision fyrir Íslands hönd. Hann var í bakröddum árin 1993, 1994, 1995 og 2000.  Eyjólfur sneri svo aftur í Söngvakeppnina árið 2001 með lagið Aftur heim sem hann samdi sjálfur. Birgitta Haukdal flutti lagið með honum. Fimm árum síðar tók hann næst þátt þegar hann söng lagið Lífið ásamt Bergsveini Arilíussyni og er það lag líka eftir Eyjólf. FÁSES.is sendir Eyjólfi innilegar hamingjuóskir í tilefni dagsins.