Nína Eyjólfsdóttir og öll sú æsispennandi keppni 30 ára


Það var líf og fjör þegar 36. Eurovisionkeppnin fór fram í Studio 15 di Cinecittà í Róm 4. maí 1991, eða fyrir nákvæmlega 30 árum í dag. Það var lögð áhersla á  öryggismál vegna Persaflóastríðsins sem þá var í gangi. En að mörgu leyti virkaði keppnin óskipulögð. Kynnar voru ítölsku sigurvegararnir, Gigliola Cinquetti og Toto Cutugno. John O´Connor vill meina í bók sinni um sögu Eurovision að það sé versta ákvörðun Eurovisionsögunnar að gera Toto að kynni. Eins og lög Gigliolu og Totos eru dásamleg, þá hefur hann kannski eitthvað til síns máls. Þau töluðu nær eingöngu ítölsku og voru ansi mikið í eigin heimi. Frank Naef sem þá var framkvæmdastjóri keppninnar þurfti að grípa inní nokkrum sinnum, sérstaklega í stigagjöfinni. Sinfoníuhljómsveitin var heldur ekki með þetta, eins og kemur best fram í gríska laginu. Og ekki förðunarfólkið heldur. En póstkortin voru samt skemmtileg þar sem keppendur spreyttu sig á þekktum, ítölskum perlum. Okkar menn fengu til dæmis að syngja lagið Se bastasse una canzone sem Eros Ramazzotti gerði frægt þá árið áður. Hin júgóslavneska Baby Doll fékk að spreyta sig á sigurlaginu Non ho l´etá og hin írska Kim Jackson söng Nel blu di pinto di blu. Thomas Forstner var að keppa í annað sinn fyrir Austurríki en hann hafði líka keppt 1989 og varð þá í fimmta sæti. Þetta skipti fékk hann aftur á móti núll stig. Malta var með í fyrsta sinn eftir 16 ára fjarveru.

Þarna keppti Eiríkur Hauksson fyrir Noreg sem hluti af kvartettinum Just 4 Fun ásamt Marianne Antonsen, Jan Groth og Hönnu Krogh með lagið Mrs. Thompson. Eiríkur okkar var að keppa í annað sinn, hann keppti fyrst með ICY-hópnum 1986 og svo aftur árið 2007. Hanna er eins og Eiríkur þekkt Eurovisionstjarna, en hún keppti líka 1971 og sigraði sem hluti af Bobbysocks-dúettinum árið 1985. Groth, sem var aðalsöngvari hópsins lést aðeins 68 ára í ágústmánuði árið 2014. Lagið um frú Thompson endaði í 17. sæti.

Framlag Íslendinga var lagið Nína, sem hét Draumur um Nínu þegar það keppti í Söngvakeppninni. Lag og texti er eftir Eyjólf Kristjánsson. Lagið söng hann með Stefáni Hilmarssyni sem flutti einnig framlag Íslands árið 1988, Sókrates. Aðrir sem voru með þeim á sviðinu voru Erna Þórarinsdóttir, Eva Ásrún Albertsdóttir, Richard Scobie og Eyþór Arnalds. Hljómsveitastjóri var Jón Ólafsson sem hafði starfað með Eyjólfi í hjómsveitinni Bítlavinafélagið. Stebbi og Eyfi eins og þeir eru jafnan kallaðir eru enn að starfa saman og hafa gefið út tvær plötur og stök lög. Þeir endurútgáfu meðal annars Nínu á 15 ára afmælinu. Við Íslendingar höfum ítrekað valið Nínu besta Eurovisionframlag okkar og er varla hægt að halda gott partý án Nínu. Lagið fjallar samt um mann sem syngur til látinnar konu. Stebbi og Eyfi hafa sjálfir talað um að hér sér á ferðinni sorglegasta stuðlag allra tíma.

Það þurfti svo einmitt að enda þannig í þessari brokkgengu keppni að jafnar og efstar urðu hin sænska Carola og hin franska Amina. Amina Al-Annabi fæddist í Cathage í Túnis árið 1962 og starfar sem söngkona, lagahöfundur og leikkona, enda má sjá leikræn tilbrigði í atriðinu hennar. Amina kemur úr mikilli tónlistarfjölskyldu, en hún flutti með móður sinni til Parísar árið 1975, þá 13 ára. Þremur árum síðar var hún búin að stofna hljómsveit og ferillinn kominn á fullt. Lagið sem hún söng heitir Le Dernier qui a parlé… eða „Sá sem síðast talar“ og er eftir Aminu og Wasis Diop.

Carola Maria Häggkvist er fædd árið 1966. Carola hóf tónlistarferilinn árið 1981, aðeins 15 ára gömul. Hún hefur starfað sem söngkona, bæði í popp- og gospeltónlist síðan. Hún tók fyrst þátt í Eurovision árið 1983, þá á 17. ári, með lagið Främling og endaði þá í 3ja sæti. Lagið sem hún sigraði með 1991 heitir Fångad av en stormvind og er eftir Stephan Berg. Þetta er fyrsta sigurlagið sem notaði vindvél í atriði sínu. Hún keppti svo í 3ja sinn árið 2006 með lagið Invincible og endaði þá í 5. sæti. Carola á því ansi farsælan feril í Eurovison. Carola, Eiríkur og Hanna eru einu keppendurnir í Eurovision sem hafa keppt á þremur áratugum og skemmtilegt að þau hafi öll keppt sama árið í eitt skiptið.

Eins og áður segir enduðu Carola og Amina jafnar, báðar með 146 stig eftir svolítið brokkgenga en æsispennandi stigagjöf. Stigataflan var líka óvenju sjaldan í mynd. Amina fékk tólf stig í lokin. Þær fengu báðar fjórar tólfur, en Carola var úrskurðuð sigurvegari þar sem hún fékk fimm tíur meðan Amina fékk aðeins tvær. Carola fékk stig frá 16 löndum, en Amina 18. Í dag gildir að fá fleiri stig úr símakosniningu en frá dómnefndum og ef það er enn jafnt gildir að fá stig frá fleiri löndum. Margir voru eðlilega ósáttir við þessa niðurstöðu. En aðrir voru auðvitað hæstánægðir með úrslitin og er það eitt af endalausum þrætuefnum okkar Euronördana, hvor átti að vinna, Carola eða Amina.