All Kinds of Everything 50 ára


Eins og kom fram í pistli sem var skrifaður um Eurovision keppnina árið 1969 fyrir um það bil ári síðan var sú keppni gagnrýnd, sérstaklega stigakerfið, enda unnu þá fjögur lönd. Því einsetti EBU sér að laga stigakerfið í keppninni árið 1970 og næstu ár þar á eftir. Samt sem áður ákváðu Noregur, Svíþjóð, Finnland, Portúgal og Austurríki að draga sig úr keppni. Portúgalir reyndar á síðustu stundu því þeir voru búnir að velja lag þegar þeir hættu við. En Eurovisionkeppnin árið 1970 var haldin í Amsterdam þann 21. mars 1970 eða fyrir nákvæmlega 50 árum. Það er einmitt ástæðan fyrir því að við rifjum þessa keppni upp í dag. Það voru aðeins 12 þjóðir með og höfðu ekki verið svo fáar í meira en áratug og framtíð Eurovision var á þessum tímapunkti frekar óljós. Menn reyndu vissulega hvað þeir gátu, m.a. með flottri sviðsmynd. Þar sem keppnin var styttri en síðustu ár vegna þess að þátttakendur voru færri, var ákveðið að hafa svokölluð póstkort frá hverju landi fyrir hvert atriði. Það varð að hefð og hafa póstkortin verið á einhverju formi flest árin síðan. Keppnin var haldin í RAI Theatre í Amsterdam og kynnir var Willy Dobbe. Hún var svo ráðin áfram sem kynnir í söngvakeppnunum í Hollandi næstu tvö ár á eftir.

Meðal keppanda voru hinn franski Guy Bonnet, sem flutti lagið Marie-Blanche. Hann hafði verið höfundur franska lagsins 1968 og var fyrsti maðurinn til að nota þráðlausan hljóðnema í Eurovision árið 1983. Fyrir Spán keppti enginn annar en Julio Iglesias með lagið Gwendolyne. Þetta var byrjunin á glæstum ferli Julios sem gerði síðar garðinn frægan með lögum eins og To All The Girls I´ve Loved Before, My Love og Caruso. Marie-Blanche, Gwendoline og svissneska lagið Retour urðu í 4.-6. sæti jöfn að stigum.

Í þriðja sæti varð hin þýska Katja Ebsein með lagið Wunder gibt es immer wider eða Kraftaverkin gerast aftur og aftur. Hún keppti aftur árið á eftir og varð þá líka í 3. sæti með lagið Diese Welt. Svo mætti hún að lokum til keppni árið 1980 með lagið Theater og endaði í öðru sæti. Katja á því ansi góðan Eurovisionferil að baki.

Í öðru sæti varð velska söngkonan Mary Hopin fyrir Bretland með lagið Knock, Knock, (Who´s There)? Mary, sem er núna rétt að verða sjötug, sló fyrst í gegn með laginu Those Were The Days árið 1968. Mary er enn að vinna í tónlist og hefur unnið með mörgum þekktum tónlistarmönnum, eins og Paul McCartney og John Lennon.

En síðust á svið var sú sem sigraði, Dana Rosemary Scallon frá Írlandi með lagið All Kinds Of Everything. Lagið varð gríðarlega vinsælt um alla Evrópu, náði víða toppsætinu á vinsældarlistum og seldist í yfir 100.000 eintökum. Dana var tæplega 19 ára skólastelpa þarna og hafði skólabækurnar með sér til Amsterdam. Dönu var vel tekið þegar hún kom heim. Flugvélin flaug beint til Derry, sem var hennar heimabær, og þar tóku um 5.000 manns á móti henni. Í viðtali við Dönu árið 2017 er hún enn hissa og hrærð yfir viðtökunum. Þetta var fyrsti sigur Íra í Eurovision. Í dag hafa þeir sigrað ofast eða sjö sinnum.

Mikið hefur verið rætt um sigurformúluna í Eurovision. Ef við tökum létta tölfræði yfir það hvernig lag hefur oftast unnið er það:
Ballaða
Frá Írlandi
Sungin á ensku
Um ástina
Af ungri konu
Hún er dökkhærð með sítt hár
Í hvítum kjól
Og heitir María eða eitthvað skylt því

Þarna má auðveldlega sjá að All Kinds of Everything er lagið sem tikkar í öll box og er kannski hið fullkomna sigur-Eurovisionlag. Enda er þetta lag enn þann dag í dag í miklu uppáhaldi hjá mörgum og jafnvel uppáhalds Eurovisionlagið.

All Kinds of Everything, Knock Knock (Who´s there?), Gwendoline og Wunder Gibt Es Immer urðu öll mjög vinsæl í Evrópu eftir keppnina. Það má því segja að þessi góðu og vinsælu lög hafi bjargað Eurovisionkeppninni á þessum tímapunkti.