Hvað segja þau? Grikkland hefur valið


Gríska sjónvarpið valdi hinn 16 ára grísk-danska Victor Vernicos til að taka þátt i Eurovision og er hann yngsti keppandi sem tekið hefur þátt fyrir Grikkland.

Frá lok ágúst fram í byrjun október á síðasta ári gátu listamenn með plötusamning sent inn lög til gríska sjónvarpsins til að koma til greina sem framlag Grikklands í ár. Hægt var að sækja um fyrir allt að þrjú lög og þurfti að tiltaka hvaða listamaður myndi flytja lagið auk hugmynda fyrir sviðsetningu og kynningu á laginu. 106 lög bárust og í lok desember þrengdi sjö manna nefnd listann niður í sjö lög.

Þessi sjö lög voru svo metin af 70 manna nefnd. Nefndin var valin úr næstum þrjúþúsund umsækjendum; skiptum í fimm aldurshópa, 25 meðlimir voru 18-24 ára, 20 meðlimir voru 25 til 34 ára, 15 meðlimir voru 35-44 ára og 10 meðlimir voru eldri en 45 ára. Val Grikklands var þrengt niður í þrjú lög eftir kosningu 70 manna nefndarinnar og mat 7 manna nefndar gríska sjónvarpsins.

Í annarri umferð fengu atkvæði 70 manna nefnd almennings 50.6% vægi og mat 7 manna nefndar gríska sjónvarpsins fékk 49,4% vægi. Niðurstaða þeirra, sem var kynnt í lok janúar var að Victor Vernicos myndi syngja gríska framlagið. Lag hans, What they say, var svo kynnt um miðjan mars.

Ekki allir voru sáttir við framkvæmd gríska sjónvarpsins, sérstaklega ekki Melissa Mantzoukis, sem lenti í öðru sæti með lagið Liar. Spurst hafði að listamennirnir Antonia Kaouri og Maria Maragkou hefðu dregið lag sitt úr keppninni áður en 7 manna nefndin gaf sín atkvæði en öll þrjú lögin hefðu samt sem áður fengið stig frá nefndinni. Mantzoukis heldur því einnig fram að fjöldi stiga sem hafi verið gefin samræmist ekki fjölda stiga sem hafi átt að vera í boði og því væri hún réttmætur sigurvegari. Lögfræðingur hennar er ekki sáttur við útskýringar gríska sjónvarpsins. Hann vill að öll stig 7 manna nefndarinnar verði birt fyrir hvern meðlim á öllum stigum til að auka gagnsæi og að auki verði Mantzoukis lýstur sigurvegari og fái skaðabætur. Þegar þetta er skrifað hefur lögbann á þátttöku Victors í Eurovision 2023 verið hafnað af dómstólum en málaferlunum er ekki lokið.

Victor er fyrsti karlmaðurinn til að taka þátt fyrir Grikkland síðan árið 2016, þegar hljómsveitinni Argo mistókst að komast upp úr undankeppni en síðan þá hafa Grikkir sent sóló söngkonur. Fjölskylda hans er músíkölsk. Mamma hans, sem er grísk, spilar á píanó og pabbi hans, sem er danskur, spilar á trompet. Victor spilar sjálfur á píanó og gítar og hefur samið lög síðan hann var 11 ára gamall. 14 ára gamall gaf hann út fyrsta lagið sem var samið og framleitt af honum sjálfum.

Victor stígur áttundi á svið í seinni undankeppninni, 11. maí, strax á eftir henni Diljá okkar og veðbankar spá honum áfram í aðalkeppnina.