Friðrik Ómar fertugur


Friðrik Ómar Hjörleifsson fæddist á Akureyri 4. október 1981 og fagnar því 40 ára afmæli í dag. Tónlistin hefur spilað stórt hlutverk hjá Friðriki síðan hann var barn. Stóri bróðir Friðriks, Halldór Gunnlaugur Hauksson, sem var hluti af Heart 2 Heart hópnum sem fór til Malmö 1992, er trommuleikari. Friðrik fór snemma að lemja húðirnar sjálfur og er einnig liðtækur píanóleikari. Hann bjó á Dalvík mestalla sína barnæsku þar sem hann gekk meðal annars í skóla með öðrum Eurovisionförum, Matta Matt og Eyþóri Inga. Friðrik Ómar á farsælan feril í Söngvakeppninni og Eurovision og verður farið yfir þann hluta tónlistarferilsins hér.

Friðrik tók fyrst þátt í Söngvakeppninni árið 2006. Þá söng hann lagið Það sem verður eftir Hallgrím Óskarsson með texta eftir Láru Unni Ægisdóttur. Lagið endaði í 3. sæti. Upptaka úr Söngvakeppninni finnst því miður ekki af þessu lagi, en hér hér tíu ára gömul upptaka frá afmælistónleikum Friðriks þegar hann varð þrítugur.

Ári síðar var Friðrik mættur aftur í Söngvakeppnina. Þá flutti hann lagið Eldur sem er eftir feðgana Grétar Örvarsson og Kristján Grétarsson. Textann á Ingibjörg Gunnarsdóttir. Lagið endaði í öðru sæti á eftir Eiríki Haukssyni sem var sendur til Helsinki. Enn finnst ekki upptaka úr Söngvakeppninni, en hér er upptaka af sömu afmælistónleikum og áður.

Hið viðburðaríka ár 2008 var Friðrik mættur í Söngvakeppnina þriðja árið í röð. Núna undir formerkjum Eurobandsins. Þá hljómsveit stofnaði hann árið 2006 og hefur sú hljómsveit, eins og nafnið gefur til kynna, sérhæft sig í flutningi á Eurovisionlögum. Þar flutti Friðrik lagið This is My Life sem hét reyndar upphaflega Fullkomið Líf, ásamt söngkonu Eurobandsins, Regínu Ósk Óskarsdóttur. Það fór svo að þau fóru með sigur af hólmi í keppninni eftir mikla dramatík og harða keppni við Merzedes Club sem endaði í öðru sæti. This is My Life er eftir Örlyg Smára og textinn eftir Pál Óskar Hjálmtýsson og Peter Fenner. Friðrik og Regína komu Íslandi í aðalkeppnina í fyrsta sinn í fjögur ár. Þau enduðu í 14. sæti á lokakvöldinu og fengu meðal annars 12 stig frá frændum okkar Dönum.

Árið 2009 var Friðrik í bakraddateymi Jóhönnu Guðrúnar sem fór til Moskvu og endaði í 2. sæti í Eurovision með lagið Is it True? Bakraddir með Friðriki sungu Erna Hrönn Ólafsdóttir og Hera Björk Þórhallsdóttir.

Það liðu tíu löng ár þar til Friðrik tók næst þátt í Eurovision. Þá flutti hann lagið Hvað ef ég get ekki elskað? og endaði í 2. sæti eftir einvígi við Hatara og hefur enginn sem hefur tapað einvíginu fengið fleiri atkvæði í símakosningunni. Lagið er eftir Friðrik sjálfan.

Friðrik heldur að sjálfsögðu upp á afmælið með pompi og prakt. Það verða tónleikar í Hörpu í kvöld, 4. október. Aðrir tónleikar verða í Hofi á Akureyri næstkomandi laugardag. Ef enn eru til lausir miðar má nálgast þá hér. FÁSES.is sendir Friðriki innilegar hamingjuóskir í tilefni dagsins.