Til hamingju Måneskin!


Það fór svo að Ítalía með Måneskin og lagið „Zitti E Buoni“ vann Eurovision 2021 með alls 524 stigum. Mánaskinið var í fjórða sæti dómnefnda en burstaði símakosningu meðal almennings með stæl. Glæsilegur sigur fyrir eina af stóru fimmunum sem setti sjálfa keppnina á fót. Þetta er þriðji sigur Ítalíu, sá fyrsti að sjálfsögðu 1964 með laginu „Non ho l’etá“ og annar 1990 með laginu „Insieme: 1992“. Það er skemmtilegt að efstu þrjú framlögin á stigatöflunni í ár eru flutt á öðru tungumáli en ensku.

Daði og Gagnamagnið varð í fjórða sæti með 378 stig sem verður að teljast einstakur árangur miðað við að þau stigu aldrei á sviðið í Rotterdam í keppninni sjálfri. Þetta er þriðji besti árangur Íslendinga í Eurovision; hin fyrri afrek að sjálfsögðu 1999 og 2009. Gagnamagnið deilir síðan fjórða sætinu með Stjórninni sem lenti í 4. sæti í Zagreb 1990. Ísland hefur aldrei fengið svona mörg stig í keppninni áður svo hér er um að ræða stigamet!

Það er áhugaverð staðreynd að síðast þegar Ítalir unnu og Frakkar lentu í öðru sæti var einmitt árið 1990 þegar Stjórnin lenti í fjórða sæti, sem er sama og var uppi á teningnum í ár hjá Måneskin, Barböru Pravi og Daða og Gagnamagninu. Spurning hvort hér sé um að ræða algjöra tilviljun eða að örlögin ráði för.

FÁSES gerði könnun daginn fyrir lokakeppni Eurovision meðal FÁSES liða um hvaða land tæki glerbikarinn heim. Við fengum svör frá 114 félögum. Okkar fólk var að sjálfsögðu sannspátt og sögðu 29% að Måneskin myndi sigra. Í 2. sæti í spá FÁSES-liða var Frakkland og í 3. sæti var Sviss. Sem var nákvæmlega í samræmi við loka topp þrjú!

Í könnuninni spurðum við líka hvaða framlög væru í uppáhaldi. Fyrsta sætið þar tók Daði og Gagnamagnið, en ekki hvað? Í 2. sæti var Úkraína og í því þriðja var Ítalía. Góður tónlistarsmekkur þar!

Það er sjálfsögðu ekki hægt að skilja við úrslitaumfjöllunina nema minnast á Marcel Bezençon verðlaunin. Marcel þessi er eins og júróaðdáendur vita sá sem fann upp á Eurovision! Á hverju ári kjósa blaðamenn á Eurovision besta framlagið og komu þau verðlaun í hlut Frakklands í ár. Í öðru sæti var Ítalía og í þriðja sæti var Grikkland (sjá mynd hér að ofan).

Þulir Eurovision kjósa besta flytjanda Eurovision og hlaut Barbara Pravi einnig þau verðlaun. Dómnefnd sem samanstendur af lagahöfundum ársins í ár kýs loks bestu lagasmíð Eurovision ársins. Þau verðlaun kom í hlut Sviss og lagahöfunda „Tout l’Univers“, þeirra Wouter Hardy, Nina Sampermans, Xavier Michel og Gjon Muharremaj.