Þemu Eurovisionársins 2021


Árið 2019 var þema keppninnar klárlega pólitík í Eurovision. Allir Eurovisionaðdáendur sökktu sér ofan í dæmi úr júrósögunni sem mátti setja pólitískt spurningarmerki við. Flestir þeirra komust síðan að þeirri niðurstöðu að vissulega sé pólitík mikil áhrifavaldur í þessari glyskeppni en það skiptir bara máli hvers konar pólitík. Hatari frá Íslandi veifaði palestínskum fána í græna herberginu á lokakeppni Eurovision og RÚV var sektað um 5 þúsund evrur. Það árið vann sakleysislegur Hollendingur, sem fékk endalausar aukaæfingar, með ballöðu sem enginn man hvernig hljómar. Þannig fór um sjóferð þá.

Síðan kom 2020 sem verður minnst sem annus horribilis fyrir alla aðdáendur Eurovision. Þó var það blessun í dulargervi að hinn almenni sjónvarpsáhorfandi áttaði sig á því hversu tómlegt lífið verður í maímánuði án þessa menningarfyrirbrigðis.

Eurovisionársins 2021 verður minnst fyrir aðeins eitt; COVID. Kórónaveiran litar alla keppnina, skipulagningu, sviðsmyndagreiningu, sóttvarnarreglur, sýnatökur, sóttkví og einangrun. Ástralir komust ekki til Rotterdam í ár og sendu beint-á-bandi upptöku og svo sannarlega dró Gagnamagnið okkar stysta stráið þegar tvö smit greindust hjá íslensku sendinefndinni í Rotterdam í vikunni. En við verðum samt að muna að við erum enn með í keppninni!

En fyrir utan veiruna sem við skulum ekki nefna á nafn er í keppninni í ár að finna fullt af stórskemmtilegum þemum. Ræsum greiningarvélarnar og dembum okkur í þetta.

 

Valdefling kvenna

Þrjú framlög í ár fjalla að einhverju leyti um kvenréttindi. Hin rússneska Manizha byrjar lagið sitt Russian Woman í risastórum þjóðlegum búning á palli sem okkur sýnist líkjast roomba ryksugu, sem á tákna fortíðina og hefðbundið hlutverk kvenna í samfélaginu. Hún brýst síðan úr dúkkubúningnum og kemur fram í rauðum samfesting sem minnir á  “You Can Do It” veggspjaldið úr síðari heimstyrjöld. Í bakgrunni er að finna ýmis uppörvandi skilaboð til kvenna um að brjóta múrinn. Lagið fjallar um breytta sjálfsmynd kvenna síðastliðna öld.

Samanta Tina frá Lettlandi syngur lagið The Moon is Rising sem er femínskur þjóðsöngur og fjallar um kraftmiklar og aðdáunarverðar konur. Lagið hvetur konur til að stjórna sér sjálfar og það sést táknrænt á sviðinu þegar Samanta býr til kórónu úr höndunum og setur á höfuð sitt.

Destiny frá Möltu syngur lagið Je Me Casse sem er tileinkað öllum konum sem hafa upplifað að vera settar á hliðarlínuna. Skilaboð lagsins eru að allt er mögulegt ef við bara trúum á sjálfa okkur og komum okkur að verki!

 

Gospelskotnir kórar

Fyrir Eurovision 2021 var reglum keppninnar breytt til bráðabirgða og þátttökuþjóðum leyft að hafa bakraddir á bandi. Ástæðan ku vera COVID en greiningardeildin hefur heimildir fyrir því að Svíar hafi leynt og ljóst barist fyrir innleiðingu reglunnar í nokkurn tíma enda eru bakraddir leyfðir á bandi í Melodifestivalen. Ljóst er að margir keppendur gera sér mat úr þessari reglu þetta árið. Ana frá Slóveníu stendur ein á sviðinu en lagið Amen væri ekkert án bakraddanna. Jeangu frá Hollandi og baráttursöngur hans fyrir réttlætinu nýtir sér einnig krafta gospels á bandi sem og Vasil frá Norður-Makedóníu. Að sjálfsögðu má svo ekki gleyma Daða og Gagnamagninu sem tóku við innsendum röddum með snjallri markaðssetningu á samfélagsmiðlum. Það eru því um það bil þúsund manns sem geta sagst hafa tekið þátt í Eurovision með framlagi Íslands í ár.

 

Amen á eftir efninu

Trúarlegar skírskotanir eru áberandi í ár. Framlög Slóvena og Austurríkismanna bera heitið Amen, þó í síðarnefnda tilvikinu heyrist Vincent frekar vera að syngja “a man” heldur en “amen”. Kýpur syngur lagið El diablo en lagið fjallar víst ekki um djöfulinn heldur um slæmt samband við fyrrum elskhuga. Loks er það hinn eini sanni Tix frá Noregi sem syngur lagið um fallna engilinn sem fær ekki stelpuna sem hann er svo ótrúlega hrifinn af. Og þetta gerir hann allt í bosmamiklum hvítum pels með fjaðravængi hlekkjaður við fjóra svartklædda djöfla.

 

Fuego uppskriftin

Þið þekkið þetta! Fuego uppskriftin sem Eleni Foureira gerði ódauðlega í Lissabon 2018 samanstendur af föngulegri mær, helst með sítt hár sem hún sveiflar fram og til baka, og fjórum dönsurum sem skaka sér til á sviðinu. Þessu fylgir að sjálfsögðu lag í viðeigandi danstakti. Eurovisionárið 2021 inniheldur ofgnótt Fuego laga sem eru svo sannarlega OTT (e. over the top). Þetta er heilmikið áreiti fyrir öll skynfæri en ótrúlega velkomið eftir júróþurrkinn 2020. Hér erum við að tala um framlög Moldóvu, Ísrael, Kýpur, Króatíu, Aserbaídsjan, Grikkland, Möltu og San Marínó (sem hendir inn einum rappara svona aukreitis). Einnig má minnast á Serbíu í þessu sambandi því þótt Fuego uppskriftin þeirra sé ekki alveg upp á tíu eru Hurricane stelpurnar með hrútínuna (e. hairography) á hreinu!

 

Endurlit til áttunnar

Síðustu misseri hefur dægurmenningin daðrað mikið við níunda áratug síðustu aldar. Þetta þema hefur nú innreið sína í Eurovision af miklum krafi Við erum að tala um neonbleik og blá ljós, excel-kassar (grids) út um allt og sviðbúningar í sterkum litum með herðapúðum. Danir eru sjálfsagt með best heppnaða endurlit til áttunnar í ár því lag og sviðsetning þeirra á Øve Os På Hinanden hefði sómað sér vel í Eurovision 1985. Pólverjar eru einnig með lag og sviðsetningu í áttuþema. Móldóvar, Grikkir og Króatar geta síðan stært sig af heljarinnar sviðsetningu í neonbleikum ljósum þó lögin falli ekki endilega undir þetta þema.

 

Hataraáhrif

Það er síðan ekki hægt annað en að minnast á áhrif Hatara í keppninni í ár. Ítalska tunglsljósabandið Måneskin mætir eitursvalt á svið í leðurdressum með krosssaumi. Albina frá Króatíu var að sjálfsögðu með dansara í leðurólum. Hinn hollenski Jeangu er síðan með leðurólar á upphandleggjunum, utan yfir bláa áttujakkann sinn.

Við getum síðan að sjálfsögðu ekki stillt okkur um að nefna að Króatía sameinar þrjú þessa árs; hataraáhrifin, endurlit til áttunnar og Fuego uppskriftina. Þess vegna fær Albina að vera á forsíðumynd þessa pistils en við munum svo sannarlega sakna hennar í lokakeppni Eurovision nú á laugardaginn.