Reiði guðanna eða tilviljanakenndir bömmerar? – Hollendingar og “0 bölvunin”.


Margt og mikið hefur verið rætt inn á ýmiskonar Eurovision tengdum hópum í kjölfar þess að keppninni var aflýst á dögunum og Hollendingar verða því að bíða í eitt ár í viðbót til að halda keppnina, eftir að hafa beðið í heil 44 ár þar á undan! Nú finnst fólki alveg pínu gaman að pæla í hlutunum og við erum ekkert undanskilin þar, enda öll í samskipta/verubanni og höngum bara heima. Er þá ekki gráupplagt að skella sér í eitt stykki netta samsæriskenningu og á sama tíma muna að þetta er allt til gamans gert.

Málið er, samkvæmt einum júrónördi þarna úti, að ártöl sem enda á 0 eru einhvern veginn söguleg hjá Hollendingum. Hvort sem það var í formi slaks gengis, stórslysa, fýlu annarra þjóða eða heimsfaraldurs. Ef ártalið endar á 0, þ.e.a.s. á hverjum sléttum áratug, þá er alltaf eitthvað sem slær Hollendinga út af laginu. Lítum aðeins á söguna….

1960 – Leikur hlæjandi (ó)láns

Árið 1960 báðust Hollendingar undan því að halda keppnina annað árið í röð, eftir að Teddy Scholten hafði unnið á heimavelli árið áður. Allt í lagi með það, ekki eina þjóðin á þessum árum sem hafði ekki bolmagn til að vippa fram Eurovision keppni tvö ár í röð. Bretar tóku því að sér að halda keppnina og allir önduðu léttar. Til leiks var ákveðið að senda skemmtikraftinn Rudi Carell, sem var nokkurs konar Hemmi Gunn þeirra Hollendinga og nánast í guða tölu í heimalandinu. Hann var líka einstaklega vinsæll í nágrannaríkjunum og þá sér í lagi í Þýskalandi. Rudi braut líka fyrsta blaðið í Eurovision sögu Hollendinga, því hann var fyrsti karlmaðurinn til að keppa fyrir þeirra hönd. Hollendingar voru að sjálfsögðu ánægðir með sinn mann, sem mætti með “Waat Een Geluk”, eða “En sú heppni” á íslensku, lauflétt og skemmtilegt lag sem hefði sómt sér vel í einhverri af betri söngvamyndunum sem tröllriðu Hollywood á þessum tíma. En Evrópa  var ekki alveg að kveikja á perunni og Rudi greyið endaði í tólfta og næstseinasta sætinu með einungis 2 stig, sem var auðvitað ákveðinn skellur fyrir fyrrum sigurvegarana. Ái!

1970 – Allir í magnaðri Evrópu-fýlu.

Eins og fram kom í afmælispistlinum um All Kinds of Everything sem birtist nýlega, upplifði EBU ákveðið kosningaklúður í keppninni 1969, því það unnu fjórar þjóðir. Bretland, Spánn, Frakkland og svo auðvitað Holland stóðu jöfn að stigum í lok úrslitakvöldsins í Madrid og menn klóruðu sér í hausnum. Hvernig átti að redda sér út úr þessu? EBU var með svarið. Bretar höfðu haldið keppnina 1968, og svo auðvitað Spánn árið eftir. Valið stóð því á milli Frakklands og Hollands. Og án alls gríns, þá var kastað krónu og Hollendingar unnu réttinn til að halda Eurovision 1970. Mjög diplómatísk niðurstaða að mati EBU en margar af þátttökuþjóðunum voru svo sannaralega ekki sammála. Hollendingar héldu vissulega flotta keppni árið 1970, en einungis 12 þjóðir mættu til leiks, og höfðu aldrei jafn fáar keppt síðan keppnin fór að stækka á 6. áratugnum. Finnland, Noregur, Portúgal, Svíþjóð og Austurríki fóru öll í mótmælafýlu og neituðu að senda framlög í keppnina vegna klúðursins árið áður. Þetta var því hálfsúr “sigur” fyrir Hollendinga, sem brostu þó hnarreistir og krýndu nýja Eurovision drottningu og fyrsta sigurvegara af mörgum frá Írlandi. Og forkeppni Hollendinga var ekki alveg laus við drama. Systratríóið The Hearts of Soul hafði vissulega unnið sér inn réttinn til að keppa á heimagrundu en þær voru alls ekki uppáhald hollensku þjóðarinnar. Það var dúettinn Saskia&Serge sem átti hug og hjörtu landa sinna, en dómnefndin réði lögum og lofum og systurnar sigruðu með einu stigi. Fólk var almennt pínu fúlt, og til að lægja öldurnar, ákvað NOS að velja Saskia&Serge innbyrðis árið eftir. The Hearts of Soul enduðu í 7. sæti af 12 og lagið þeirra “Waterman” hefur mikið til verið falið á botninum í glatkistu Eurovision síðan 1970.

1980 – “Við erum sko ekki alveg að nenna þessu…”

Þetta ár var svo sem ekkert ægilega slæmt fyrir Hollendinga þannig. Þeim gekk alveg sæmilega í keppninni sjáfri því Maggie McNeal sneri aftur með hið ógleymanlega “Amsterdam” og lenti í 5. sæti. En Ísrael baðst undan því að halda keppnina annað árið í röð, bæði vegna þess að fjármagnið var af skornum skammti og vegna þess að EBU ákvað að hún skyldi fara fram á minningardag Ísraela, Yom HaZikarom og neitaði að skipta um dag. Þetta hugnaðist Ísraelum að sjálfsögðu illa og þeir drógu sig hreinlega úr keppni, sem er þá í fyrsta og eina skiptið sem sigurvegarar ársins áður eru ekki með í keppninni. EBU var þá auðvitað komið í smá klemmu og bað bæði Breta og Spánverja um að halda þessa rækallsins Eurovisionkeppni. Báðar þjóðirnar afþökkuðu pent og því var falast eftir aðstoð Hollendinga. Sagan segir að þáverandi yfirmaður ísraelska sjónvarpsins hafi hringt spes til kollega síns hjá NOS og grátbeðið hann að taka að sér þann “vafasama heiður” að halda keppnina. Hollendingar ypptu öxlum og sögðu “Jújú, getum svosum alveg smellt í eina Eurovision keppni, en það verður sko engin flugeldasýning eða óþarfa prjál og pjatt!” Og það varð úr að keppnin fór frá Jerúsalem til Haag en hollenski ríkismiðillinn NOS stóð við sitt. Ekkert óþarfa pjatt og prjál. Sviðsmyndin sem hafði verið notuð í Haag árið 1976 var einfaldlega notuð aftur, með smá breytingum hér og þar og það var ekki eytt tíma eða fjármagni í að búa til hin víðfrægu póstkort milli laga og voru þess í stað sýndar upptökur af gestakynnum hvers lands fyrir sig, sem kynntu sitt framlag. Og aðalkynnir kvöldsins, Marion Fluitsma var ekkert að spandera tíma og orku í að þýða textann sinn yfir á ensku eða frönsku eins og tíðkast hafði fram að því, heldur var öll romsan á hollensku. Mál manna er að NOS hafi komist upp með að halda Eurovision fyrir einungis um 100 milljónir íslenskra króna á nútímagengi, sem telst nú bara fjári vel sloppið! Það var því fremur undarleg stemmning í Haag 1980, því það var pínu augljóst að gestgjafar kvöldsins voru svolítið að þessu af illri nauðsyn og voru guðslifandi fegnir að geta komið keppninni aftur yfir á Íra, sem stóðu aftur uppi sem sigurvegarar á hollenskri grundu.

1990 – Allt lagt undir. Ekkert að frétta.

Þetta ár var að margra mati ákveðið bla- ár fyrir Hollendinga, ef svo má að orði komast. Þeir væntu mikils af keppendum sínum það árið, en það var systradúóið Maywood sem fór til Zagreb með ballöðuna “Ik will alles met je delen”. Þær Maywood-systur Alice og Caren (sem hétu réttum nöfnum Aaltje og Doetje de Vries) voru sérdeilis vinsælar í heimalandinu, bæði sem söngdúett og einnig sem lagahöfundar og upptökustjórar. Þær unnu saman að mörgum verkefnum og þar sem önnur þeirra var, mátti bóka að hin var ekki langt undan. Forkeppnin í Hollandi var í þremur hlutum, enda ætlaði NOS að vanda sérlega til verka því Hollendinga var farið að þyrsta í annan sigur þar sem 15 ár voru liðin frá “Ding-a-Dong” ævintýrinu. Því mátti ekkert fara úrskeiðis, og rétta lagið skyldi sent út, hvað sem tautaði og raulaði. Hollenska þjóðin þóttist himin höndum hafa tekið þegar Maywood kom, sá og sigraði í Eurovisionborginni Haag þann 10. mars 1990 og voru handvissir um að sigurinn væri í nánd. En þeir reiknuðu bara ekki með hinum Evrópuþjóðunum, sem voru bara ekkert á sömu blaðsíðu og hollenska þjóðin því Maywood endaði í 15. sæti af 22 þjóðum með aðeins 25 stig. Hjörtu Hollendinga voru brotin og brotnust voru hjörtu þeirra Alice og Caren, sem voru, þegar þarna var komið sögu, orðnar svolítið þreyttar á hvor annarri. Þær héngu þó saman sem dúett í tvö ár í viðbót en fóru þá í dvala um óákveðin tíma áður en þær ákváðu að taka systrasamband sitt framyfir frægðina og framann og fóru endanlega hvor í sína áttina árið 1995, þegar Maywood var formlega leyst upp. Svona bla-ár eins og ég sagði.

2000 – Kaldar kveðjur og stórslys.

Ný öld, ný tækifæri. Hollendingum hafði nú bara gengið bærilega á seinasta áratug 20. aldar. Þeir voru með fimm topp tíu lög í farteskinu, þ.m.t hið ógleymanlega “Vrede” sem er orðið að sígrænum smelli í júróheiminum, partýpían og dásemdin Edsilija djammaði sig í algleymi með “Hemel en aarde” og Marlayne lauk öldinni með glæsibrag, þegar hún og “One good reason” lönduðu 8. sætinu í Jerúsalem. Hollendingar sáu fram á góða tíð með túlípana í haga þegar Linda Wagenmakers mætti í Globen árið 2000, með danssmellinn “No Goodbyes”, sem var spáð sigri lengi framan af en undan því fór aðeins að fjara, þegar nær dró keppni. Gróusögur sögðu að Linda hefði gengist aðeins of mikið upp í athyglinni sem lagið fékk og hafi framkoma hennar orðið allt að því yfirþyrmandi og á köflum dívukennd. Gróusögur, eins og áður sagði. En á sviðið fór hún, ásamt flokki fríðra dansara, söng lagið, hristi brjóstin framan í áhorfendur og … lenti í 13. sæti með aðeins 40 stig. Og ekki nóg með það, keppnin var ekki einu sinni sýnd í Hollandi, þar sem hræðilegt slys hafði átt sér stað í flugeldaverksmiðju í borginni Enchede, þar sem tugir fólks slasaðist eða lést, og NOS rauf útsendinguna á Eurovision og hóf að sýna beint frá slysstað. Það var því hálf skekin Marlayne sem gaf stig hollensku dómnefndarinnar það kvöld, því að sjálfsögðu var engin símakosning vegna aðstæðna. Hollendingar minnast þessa kvölds með hryllingi, og einhvern veginn virðist það hafa slegið tóninn fyrir komandi áratug hjá þeim…

2010 – Strumparnir bjóða gleðilegt Eurovision.

Ömurlegur Eurovision áratugur var að baki hjá Hollendingum, sem virtust bara ekki fá séns á stigatöflunni, sama hvað þeir reyndu! Aðeins einu sinni höfðu þeir marið það upp í aðalkeppni eftir að nýja fyrirkomulagið var kynnt til sögunnar árið 2004. Það ár komst dúettinn Re-Union áfram með ballöðuna “Without You”, en endaði svo í 20. sæti þegar þangað var komið. Og Hollendingar sátu sem fastast í forkeppninni, alveg sama hvaða nálgun þeir komu með. Árið 2010 ákváðu þeir að segja bara: “F**k it! Gerum bara eitthvað!” og fengu Strumpatónskáldið Pierre Kartner til að vippa fram einu stykki stuðlagi og velja svo söngvara til að syngja það. Pierre var ekki vinsælt val meðal hollenskra lagahöfunda, því hans blómaskeið var auðvitað á öndverðum 8. áratug 20.a ldarinnar og vildu margir meina að hans tími væri einfaldlega liðinn. Pierre sjálfur sendi auðvitað tóninn á móti og sagðist eiga fullt erindi í 2010 búbbluna, og hana nú! Hann samdi því lagið “Ik bin Verlieft (Sha-la-lie)” á hollensku, og haldin var lítil keppni þar sem fimm söngvarar sungu lagið og var það Pierre sjálfur sem valdi svo á milli þeirra. Greinilega minnugur krónukasts EBU forðum daga ætlaði hann einfaldlega að kasta peningi til að velja en var svo kurteislega tilkynnt að það væri ólöglegt. Hann ákvað þá að velja söngkonuna Sieneke, sem þarna var aðeins 17 ára gömul og algjörlega óþekkt í heimalandinu, til að flytja lagið. Hollendingar og aðdáendur víðsvegar að ranghvolfdu augunum, en lagið sló engu að síður í gegn og komst í 13. sæti hollenska vinsældarlistans, og var það í fyrsta skipti í mörg ár sem framlag til Eurovision hafði komist svo hátt. Það var og er ákveðinn sjarmi yfir “Ik bin Verlieft (Sha-la-lie)”, hvort sem hann skrifast á gamaldags fílinginn eður ei og þetta var vissulega eitt af eftirminnilegri framlögum Hollendinga eftir aldamót. Svona sakbitin sæla. Gekk auðvitað ömurlega í Osló, og enn og aftur sátu Hollendingar eftir í forkeppninni, en einhversstaðar kviknaði pínkuponsulítill vonarneisti um að nú rynnu upp bjartari tímar í Eurovision vegferð þjóðarinnar.

2020 – Ræðum þetta ekki einu sinni!

From Iceland — BREAKING: Eurovision 2020 Cancelled

Hollendingar unnu loks árið 2019, eftir 44 ára bið. Jibbý! Allir til Rotterdam! Eða ekki. Heilhveitis COVID-19 …

Þar höfum við það. Það hefur svo sannarlega margt gengið á í meira en 60 ára sögu Hollendinga í Eurovision, og við stikluðum nú bara á stóru og bjuggum til eitthvað svakalegt og tilviljanakennt samsæri, því við höfum sáralítið annað að gera. En gaman að þessu engu að síður. Krossum putta og vonumst eftir sóðalega góðu partýi í Rotterdam 2021. Og Kórónaveiran má hreinlega hoppa þráðbeint upp í fjósið á sér, því við Eurovision nördar látum ei bugast!