Bíddu má ekki bara senda eitt lag í Eurovision?


Þau okkar sem ferðuðumst til Ísrael fyrir Eurovision 2019 vitum að Ísraelsmenn eru ekkert mikið fyrir að gera lítið úr hlutunum. Það kemur því ekkert sérlega á óvart að þeir hafi skipulagt eina keppni til að finna Eurovision flytjanda fyrir keppnina í ár og aðra keppni til að finna rétta lagið fyrir téðan flytjanda en sú keppni er ný af nálinni.

Í febrúar sigraði Eden Alene 19 aðra keppendur í Next Star 2020. Eden er tvítug balletdansmær sem fæddist í Jerúsalem en er eþíópísk að uppruna. Eden sigraði X Factor Ísrael 2018 og þjónar þessa dagana í ísraelska hernum sem skemmtikraftur. Í mars var síðan haldin keppnin The Next Song For Eurovision þar sem Eden söng fjögur lög sem áttu möguleika á að vera Eurovisionframlag Ísraela 2020. Úrslitin voru í höndum fagdómnefndar og almennings og bar lagið Feker Libi sigur úr býtum. Eitt af skemmtiatriðum keppninnar var æðisleg syrpa af ísraelskum Eurovisionlögum sungin af Eden og félögum hennar úr Next Star 2020.

Lagið Feker Libi er eftir þá Doron Medalie og Idan Raichel. Doron þennan ættu mörg að kannast við enda hefur hann samið Eurovision framlögin Toy (2018), Made of Stars (2016) og Golden Boy (2015). Idan Raichel ættu sömuleiðis einhver að kannast við fyrir utan að vera einn af vinsælustu tónlistarmönnum Ísraels skemmti hann í hléi á aðalkeppni Eurovision 2019. Lagið Feker Libi er sungið á ensku, hebresku, arabísku og amharísku (sem er semískt tungumál sem er talað í Eþíópíu og Erítreu). Titillinn Feker Libi þýðir ástin mín á amharísku og er tenging við rætur Eden en báðir foreldrar hennar eru frá Eþíópíu. Laginu er lýst sem litríku poppi sem blandar saman afrískum danstöktum með smitandi áhrifum frá miðausturlöndum (kynningartextinn lagsins hefur augljóslega verið skrifaður áður en kórónaveiran fór á stjá. Já og fatnaður bakraddardansara líkist alls ekki smitvarnarhlífðargalla). Mörg hafa haft á orði að þetta eina lag innihaldi nokkur lög en hvað sem því líður er ljóst að það er mikið spilað í heimarækt nokkurra FÁSES-liða þessa dagana.

Þess ber að geta að ísraleska sjónvarpið KAN hefur tilkynnt að eftir fordæmalausa aflýsingu Eurovision 2020 muni Eden Alene flytja ísraelska Eurovision framlagið í keppninni 2021.