Tom Pillibi orðinn sextugur


Hollendingar voru tiltölulega nýbúnir að halda Eurovisionkeppnina 1958 og treystu sér ekki til þess aftur í bili eftir sigurinn 1959. Bretar tóku það því að sér árið 1960. Keppnin fór fram í London í Royal Festival Hall þann 29. mars 1960 eða fyrir nákvæmlega 60 árum í dag. Það er því kjörið tækifæri að rifja upp fimmtu Eurovisionkeppnina. Höllin þótti stórglæsileg og voru áhorfendur 2000 talsins og höfðu þá aldrei verið fleiri á Eurovision. Það er synd að þessi keppni hafi ekki verið í lit, ekki síst vegna þess að kvenkyns þátttakendur voru í sérlega glæsilegum kjólum. Kynnir var Katie Boyle í fyrsta sinn. Henni fórst það afar vel úr hendi og átti hún eftir að kynna keppnina í þrjú skipti í viðbót og hefur enginn annar verið kynnir oftar. Þátttökulönd voru þrettán og Noregur var með í fyrsta sinn. Norðmenn sendu lagið Voi Voi sem lenti í 4. sæti. Það var Nora Brocksted sem flutti en það muna kannski einhverjir eftir henni þegar hún söng lagið Svo ung og blíð.

Í þriðja sæti í Eurovision 1960 varð Francois Deguelt fyrir Mónakó með lagið Ce Soir-lá eða Þá nótt. Francois tók aftur þátt í Eurovision fyrir Mónakó tveimur árum síðar með lagið Dis Rien sem lenti í 2. sæti. Cliff Richard, Katja Ebstein, Chiara Siacusa og Zeljko Joksimovic eiga það sameiginlegt með Francois að hafa öll lent bæði í 2. og 3. sæti, en aldrei unnið Eurovision. Francois lést árið 2014, 81 árs að aldri.

Bretar urðu í öðru sæti og það ekki í fyrsta og alls ekki síðasta sinn. Það var Bryan Johnson sem söng lagið Looking High, High, High og náði silfrinu. Eldri bróðir Bryans, Teddy Johnson var einmitt fulltrúi Breta í keppninni árið áður og lenti líka í 2. sæti. Bryan lést árið 1995, þá 69 ára gamall.

Sigurvegarinn kom frá Frakklandi, hin 18 ára gamla Jaqueline Boyer söng hið hressa lag um Tom Pillibi sem er ekki allur þar sem hann er séður. Hún hefur trúlega fengið Eurovisionbakteríuna frá föður sínum, Jacques Pills, sem var fulltrúi Mónakó í Eurovision árið áður. Jaqueline var síðust á svið og má segja að hún hafi átt salinn strax þegar allir voru kynntir til leiks. Lagið er eftir André Popp sem samdi líka Le Chant de Mallory sem var framlag Frakka 1964 og hið þekkta lag L´ amour Est Bleu sem var framlag Lúxemborgar árið 1967.