Ástarballaða frá Eistlandi


Á hlaupársdag völdu Eistar framlag sitt til Eurovision 2020, sama kvöld og við völdum Daða okkar í sama verkefni. Eistar hafa í 12 ár haldið söngvakeppnina Eesti Laul og hafa verið með í Eurovision síðan árið 1994. Lagið í ár átti að vera þeirra 26. framlag í Eurovision. Árið 2001 unnu Eistar nokkuð óvæntan sigur með laginu Everybody.

Eesti Laul keppnin 2020 samanstóð af tveimur forkeppnum 13. og 15. febrúar sl. og einu úrslitakvöldi. Tólf lög kepptu í hvorri forkeppni og sex komust áfram. Það voru því tólf lög í úrslitum þann 29. febrúar í Saku Suurhall í Tallinn og var keppnin hin glæsilegasta. Kosningin fór fram í tveimur lotum. Fyrst kepptu lögin tólf og dómnefnd og áhorfendur höfðu helmings vægi hvort í þeirri kosningu. Þrjú efstu lögin fóru svo í úrslit og í þeirri kosningu réðu áhorfendur ríkjum. Það voru lögin What Love Is, Write About Me og Beautiful Lie. Það fór svo að What Love Is vann yfirburða sigur, fékk 68,2% atkvæða í símakosningu. Það er Uku Suviste sem flytur lagið.

Uku Suviste er 37 ára og hefur starfað í tónlist í meira en áratug. Hann spilar á nokkur hljóðfæri, syngur og semur tónlist. Uku hefur einnig numið tónlist og meðal annars lokið píanónámi. Hann samdi einmitt What Love Is ásamt Mary Sharon Vaughn. Hún er bandarísk og hefur samið talsvert af sveitatónlist með þekktu fólki í þeim geira.  Uku hefur áður tekið þátt í söngakeppnum, meðal annars keppti hann í The Voice í Rússlandi haustið 2018. En hér kynnum við What Love Is, framlag Eista. Útvarpsvænt popplag og sviðsetningin er skemmtileg.