Oto heldur áfram fyrir Georgíu


Georgíumenn ákváðu að nota Idol-keppnina sína til að ákveða hver fengi farmiðann til Tel Aviv, en það var Oto Nemsadze sem hneppti hnossið. Lagahöfundar hvaðanæva úr heiminum gátu sent inn lög og sjö manna nefnd georgíska sjónvarpsins ákvað hvaða þrjú lög komu til greina af þeim rúmlega 200 sem bárust. Þeir fjórir söngvarar sem voru í úrslitum fengu svo sjálfir að velja hvaða lag þeir sungu. Oto, sem hlaut rétt rúm 44% atkvæða, var annar tveggja söngvara sem ákvað að syngja lagið Sul tsin iare en hinn söngvarinn lenti í 3. sæti.

Árið 2010 vann Oto fimmtu seríu af Geostar, sem er önnur útgáfa af Georgíska Idolinu. Tveimur árum síðar tók hann þátt í alþjóðlegu söngkeppninni 10+10, sem haldin var af georgíska sjónvarpinu. Hann færði sig yfir til Úkraínu árið 2013 og lenti þar í 2. sæti í The Voice. Árið 2016 tók hann svo þátt í georgískri útgáfu af raunveruleikakeppninni Your Face Sounds Familiar, Erti Ertshi, þar sem þekktir listamenn bregða sér í líki þekktra tónlistarmanna. Árið 2017 tók hann svo þátt í undankeppni Georgíu fyrir Eurovision með hljómsveitinni Limbo en þeir lentu í 10. sæti. Lagið Sul tsin iare hefur fengið enska titilinn Keep on Going en Oto flytur það á georgísku í fyrri undankeppninni.

Georgía hefur tíu sinnum tekið þátt í Eurovision og hefur best náð 9. sæti, árin 2010 og 2011. Þeir drógu sig úr keppni árið 2009, frekar en að breyta texta lagsins We Don’t Wanna Put In, sem var hápólitískur. Þeim hefur fjórum sinnum mistekist að komast upp úr undankeppninni og lentu í seinasta sæti seinni undankeppninnar í fyrra með laginu For You, sungnu af Ethno-Jazz Band Iriao.